10. júní - fyrsti göngudagur

Ég svaf ekki vel í nótt en ég hvíldist samt.  Eftir morgunmatinn lögðum við fjögur af stað klukkan 9:15.  Blautt úti en hann hékk þurr til klukkan rúmlega tvö.  Steyptir stígar að mestu í dag og það var erfitt svona fyrsta daginn.  Fallegt hvert sem litið var, tré, blóm, frussandi fossar og flæðandi ár.  Það er mikill vöxtur í öllum ám enda búið að rigna síðastliðna viku.  Það var jafnvel lokað á tveimur gönguleiðum okkar vegna vatnavaxta.  En allt gekk vel og ekkert vesen.  Þegar líða tók á daginn fór nú ýmislegt að gerast.  Þá hugsaði ég "fall er fararheill".  Mario hinn þýski var greinilega ekki tilbúinn.  Hann er sykursjúkur og virðist ekki vera í góðri þjálfun, frekar þrjóskur og vildi ekki borða nóg.  Hann var alveg að gefast upp, ekki bara einu sinni heldur mörgum sinnum.  Þetta tafði okkur í langan tíma og loksins tók hann sönsum og ákvað að fara aftur til Osló.  Við kvöddum hann og vonuðum að allt yrði í lagi.  Við komum á gististaðinn um klukkan 17.  Erum í lítilli, sætri, rauðri hyttu á stað sem heitir Sæterengard.  Ekkert rafmagn, ekkert vatn og þá er bara kveikt á kertum.  Þessi kona keypti sér íslenskt skyr og alveg var ég að elska það.  Sturtan var svo toppurinn á deginum.  Engir óæskilegir íbúar í skónum og mér líður vel en fyrstu dagarnir eru alltaf erfiðastir.  Og þessi dagur var allur upp og niður.  Við gengum í gegnum skóg, yndislegur fuglasöngur, hestafólk, fólk í sumarleyfi með krökkunum sínum hlaupandi um allt.  Rúmlega sex hringdi Mario í Ger og sagðist ætla að halda áfram en ekki veit ég hvernig það fer.  Það kemur í ljós á morgun.  Ger er góður ferðafélagi, búinn að setja ferðina inn á eitthvað GPS.  Það fóru margar hugsanir í gegnum hugann í dag.  Það sem ég hef séð af Noregi er fallegt en dýrt, ekki ódýrara en heima, en ég er ekkert að stressa mig á því.  22 kílómetrar í dag.  Á morgun verður dagurinn lengri en ætti ekki að tefjast mikið því Mario er ekki með.  Dagurinn liðinn og hvílan bíður.  Ég er þreytt og ætla snemma í pokann mig góða.

"Nýttu sem best það sem er á þínu valdi, taktu öðru bara eins og það kemur fyrir"


Rúna, sæl og sátt í bleytunni.

 

 


Að kveðjast og heilsast

Jæja, þá er ferðalagið hafið.  Seinkun á flugi um eina klukkustund en það var í fínu lagi.  Ég var í góðum félagsskap.  Arndís Lind og hennar góði maki, sem mig minnir að hún hafi kallað Kidda (fyrirgefið ef ég man þetta ekki rétt) voru með mér á flugvellinum og einnig séra Ragnheiður Karítas og Lilja Kristín prestar íslenska safnaðarins í Noregi.  Þær stöllur lóðsuðu mig og hjálpuðu mér að skrá mig inn á einhverri maskínu.  Þær fylgdu mér á Gardemoen þegar við lentum þar og ég þurfti að kaupa lestarmiða.  Þar græjuðu þær allt fyrir útigangskonuna (nafngift sem ég er mjög hreykin af og Hanna vinkona gaf mér).  Takk elsku þið öll fyrir að vera með mér á flugvellinum!  

Nú þegar ég kom út úr lestarstöðinn hringdi Ger, hinn hollenski.  Hann kom svo upp að lestarstöð til að lóðsa mig á hostelið.  Við gengum saman að hostelinu mínu og hver beið þar nema Mario hinn þýski, týndi sauðurinn.  Það var gaman að hann skuli ætla að vera með okkur.  Hanne kom svo og hitti okkur og við fórum út að borða.  Við ákváðum að leggja af stað fyrsta daginn klukkan 9:00 í fyrramálið.  Hér er grenjandi rigning en logn og hlýtt.

 

"Ferðalag með þúsund kílómetrum byrjar alltaf á fyrsta skrefinu"

Ég ætla nú bara að ganga 640 km ef allt gengur vel.

 

Hamingjusöm Rúna á leiðinni í rúmið.

 

PS - smá eftirmáli hér frá dótturinni (sem einnig er einkaritari þessarar ferðar).  Mamma hefur ekki verið mikið í netsambandi en hún hringdi í morgun og sagði að allt gengi vel.  Þau gengu 22 km í gær, upp og niður alla leiðina og því fremur erfitt, auk þess sem ringt hefur meira og minna síðustu daga.  En andi hennar er léttur eins og við var að búast - það bítur ekkert á þessa konu!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband