17. júní - okkar dagur!

Horthe bærinn þar sem við gistum síðastliðna nótt er sveitabær en enginn búskapur þar lengur.  Allt er svo hreint og fallegt og ofboðslega mikið af stórum húsum.  Ég sofnaði klukkan 8 í gærkvöldi og svaf til klukkan hálf sjö í morgun - endurnærð eftir góðan svefn.  Í dag munum við nálgast Gjovik en þangað eru um 30 km frá því sem við erum núna.  Þetta verður fyrsta borgin sem við komum til en þarna búa um 30 þúsund manns.  Það verður á morgun sem við munum koma þangað.  Við gætum nú alveg fengið nett sjokk eftir alla kyrrðina.  Flestir dagar hafa nefnilega verið í kyrrð - já bara eins og kyrrðardagar í Skálholti.  Við hlustum á skóhljóðin okkar, fuglasönginn og einstaka bíl eða traktor sem ekur hjá, þetta er alveg frábært.  Dagurinn byrjaði á smá hækkun, það verður sko að vera þannig, og við vorum böðuð í sólinni.  Héruðin um allt með sveitabæjunum fallegu í öllum litum og lífið var um allar jarðir.  Í dag lá leiðin um fallegan bæ sem heitir Lena og þar vorum við aftur heppin.  Þar var bæjarhátíð, fólk um allar götur, söngur, dans og sölutjöld og ég fékk mér kaffi og vöfflu með rjóma í tilefni dagsins.  Það hvarflaði nú aðeins að mér þegar ég sá öll lætin þegar við komum í bæinn að þetta væri allt fyrir okkur Ger en það var víst ekki (ég verð nú alltaf að hafa smá grín með).  Þarna var mikil gleði, allir í sumarskapi í sólinni, fólk gaf sig á tal við okkur og þetta var yndislegt.  Eftir rúmlega hálftíma hvíld héldum við áfram leið okkar og eftir ofurlitla uppgöngu þá blasti enn ein dýrðin við.  Mjosa vatnið með öllum sínum seglbátum, bæjum, þorpum og undurfallegu landslagi allt um kring.  Ég stóð bara og dró andann djúpt.  Þetta var ótrúlega fallegt.  Við ákváðum að finna okkur gistingu í Kapp, en sá bær stendur alveg við flæðarmálið á vatninu Mjosa.  Nú erum við komin í gistinguna og það er hús byggt úr bjálkum líkt og stafkirkjur voru gerðar í gamla daga og jafnvel enn í dag.  Fín herbergi, stór garður, sturtan æði, matur og veitingastaðir við höfnina, ekki hægt að biðja um meira.  Þessi dagur var með þeim léttari og 24 km í höfn.  Við förum að nálgast 200 kílómetrana, þetta er spennandi.  Hafið það gott, það reyni ég að gera á hverjum degi.

"Leitaðu að einhverju fögru og þú munt finna það"

Konan í bjálkahúsinu. 


16. júní - það rignir!

Fyrst langar mig að senda Hauki mínum, Agötu minni og Kristófer mínum góðar óskir um farsæla ferð til Póllands - njótið elskurnar mínar.  Þessi dagur heilsar okkur með rigningu en lognið er algjört og þá er allt í lagi að ganga.  Við gengum frá í litlu hyttunni okkar í Bjarkarhúsi, skelltum okkur í gúmmígallana og skunduðum af stað.  Fyrstu kílómetrarnir voru upp í móti, að sjálfsögðu, en síðan tók að halla undan fæti.  Ég hreinlega elska svona niðurgang!!  Við fundum Gapahuk, sem er eins konar skýli til að hvílast í og það var gott eftir 2 klukkutíma göngu frá því klukkan 8:30 þegar við lögðum af stað í morgun.  Og ef ég hef þetta rétt vorum við í enda Einarsfjarðar.  Það rigndi ekki mikið og það var heitt.  Ég alltaf að fara úr eða í gúmmíklæðin.  Leiðin í dag var fallegt sveitahérað.  Bæir kúrandi um allar hlíðar beggja vegna fjarðarins og í dag vorum við um tíma í 680 metra hæð og það birti alltaf á milli skúra og við nutum útsýnisins.  Eftir Gapahuppið var hvergi að finna stað til að hvílast.  Við gengum og gengum til klukkan hálf þrjú og eftir þriggja tíma göngu birtist okkur norskur engill, Ole Johann að nafni.  Hann var fyrir utan einn sveitabæinn að vinna og við ákváðum að spyrja hvort við gætum fengið að tylla okkur á tröppurnar í 10 mínútur.  Það var mikið sjálfsagt.  Hann fór inn í bæinn, lét foreldra sína vita af okkur og pabbi hans sem líka heitir Ole kom með tvo stóla handa okkur.  Síðan birtist mamman, Berit, og vildi endilega að við kæmum inn í kaffi.  Nú vorum við sannarlega heppin.  Þeir sem þekkja mig vita vel að ég hef ekki mikið á móti sætum kökum og þarna fékk ég ósk mína uppfyllta - svo sannarlega.  Heimabakaða furstakakan bráðnaði upp í mér og ég fékk ljósrit af uppskriftinni sem er aldeilis frábært.  Þetta fólk var yndislegt og við sátum hjá þeim í eina klukkustund.  Það sem var svo krúttlegt við þetta var tölvan þeirra.  Pínulítil og í útliti eins og túbusjónvarp.  Ég missti mig alveg yfir þessu krútti en kunni samt ekki við að taka mynd af henni.  Við kvöddum þessi dásemdarhjón og son þeirra og nú fór að styttast í Holthegard. Hann var ekki langt frá Lena.  Lena er bær aðeins norðar, 22 km gengnir í dag.  Og frúin á Holthegard heitir Lena og tók hún aldeilis höfðinglega á móti okkur.  Hún lét okkur hafa hús með þremur svefnherbergjum, sturta fyrir hvern, eldhús, uppábúin rúm, kvöldmat og allt fyrir morgunmatinn líka.  Þvotturinn okkar beint í þvottavél og blásaraþurrka til að þurrka blautu skóna okkur - allt þetta fyrir 600 krónur - ekki stór upphæð finnst mér.  Þessi dagur var sá léttasti hingað til og fyrsta vikan að baki, hugsa sér 7 dagar liðnir.  Ég er svo glöð að geta þetta og litli íbúinn er ekkert að angra mig.  Og svo er það besta af öllu, það er að fá símtal frá öllum heima.  Það yljar pílagrímanum.  Rúnan öll að hressast af harðsperrum og vonandi á allt eftir að ganga vel áfram.  Dag í senn - það er mottóið.  Svanapar flaug yfir hjá okkur í dag og við fengum fallegan svanasöng á heiði - það toppar daginn.  Elska ykkur og sakna ykkar - hafið það sem best.  

"Því betur sem ég kynnist heiminum, því eldri verð ég"

 


15. júní - gamaldags rúm!

Rúmið var svona eins og lokrekkja en ekki með himnasæng.  Yndislegt rúm eins og ég svaf í þegar ég var barn í sveitinni hjá ömmu.  Þegar ég lagðist í rúmið sökk ég bara niður í mjúka dýnu og það var bara frábært.  En nú er 15. júní runninn upp og hann gefur mér ýmislegt.  Í fyrsta lagi svaf ég ekki vel í nótt því ein lítil fluga getur gert manni lífið leitt.  Og í öðru lagi var Morten ekki búinn að koma sér upp gardínum svo birtan varð líka til þess ég svaf ekki vel. En strákurinn bætti þetta upp með  góðum morgunverði og við kvöddum hann og kisu klukkan hálf níu.  Sól og logn í byrjun en nú fór ég í flísið því ég er dálítið sólbrunnin á handleggjunum, en það lagast allt.  Við gengum niður í bæinn Brandbu þar sem um 7 þúsund manns búa.  Nú þurfti að gera innkaup því kvöldmatur og morgunmatur verður víst í okkar höndum.  Leiðin til Brandbu lá niður á við, já já kom ekki á óvart.  Eftir verslunarferðina, sem setti mig nú ekki á höfuðið, hófst 15 km ganga upp, upp og það tók á.  Við stoppuðum eins og áður og nutum, dagurinn í gær og hluti af deginum í dag er Toscana Noregs enda hægt að gleyma sér við að horfa.  En það var bæði steypa og mjúkir stígar í dag og endalaus kyrrð.  Ég er bara mjög glöð þrátt fyrir að hver dagur taki á, þannig eflist þrjóskan og ég færist einum degi nær takmarkinu.  Ég hef átt góð samtöl við hinn ósýnilega ferðafélaga og hann stappar í mig stálinu, þess vegna get ég þetta.  So far so good.  Við komum á áfangastað klukkan hálf tvö - yndislegan stað í miðjum skógi og hann heitir Ástjörn.  Þessi staður er mitt á milli Brandbu og Lena.  Við þurftum reyndar að lækka hæðina ansi mikið en það var vel þess virði.  Þetta er vin í skóginum, margar hyttur, þjónustuhús og við fengum meira að segja aðgang að netinu.  Og svo skutlaðist hún Monika, forstöðukonan hér sem tók á móti okkur, í búðina fyrir okkur til að kaupa tvo bjóra.  Það er dagsskammturinn - alltaf.  Hún lét okkur vita af því að upp úr klukkan fimm kæmu hér blaðamenn og ljósmyndarar því von væri á forsætisráðherra Noregs og hún kæmi í þyrlu.  Og hér hópaðist að fólk úr öllum áttum og krakkahópar sem eru hér í sumarbúðum biðu spennt eftir þyrlunni.  Um sjöleytið birtist hér þessi flotta, glansandi, svarta þyrla, lenti um 100 metrum frá hyttunni okkar og út steig frúin.  Sportlega klædd spjallaði hún við fólkið hér, fékk sér kaffi og gekk um svæðið.  Hér voru líka bændur og dýraverndunarsinnar.  Í héruðunum í sveitinni hefur mikið gengið á því villiúlfur hefur verið að ráðast á kindur og lömb.  Bændur vilja að reynt verði að ná honum og aflífa en það vilja dýraverndunarsinnar ekki svo þetta er bara orðin pólitík.  Ja hérna hér og við Ger mitt í þessu öllu saman - spennandi.  Skemmtilegt  að sjá þetta allt saman og upplifa einstakan atburð í raun og veru.  Við göngufélagarnir elduðum okkur spaghetti með fínni sterkri sósu sem rann ljúflega niður.  Um níuleytið bankaði hér upp ung stúlka, Jane að nafni.  Hún vinnur á pílagrímaskrifstofu í Grönvollen og hafði frétt af okkur.  Hún bauð okkur að hringja til sín hvenær sem við vildum og tók mynd af okkur fyrir Grönvollen síðuna, já við Ger erum alltaf að sjá eitthvað nýtt á þessari göngu.  Ég sofnaði um tíuleytið og svaf mikið vel til morguns.  Pílagrímakonan í miðju ævintýri með Ernu forsætisráðherra.  

"Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast"

Hjartans kveðjur til ykkar allra frá pílagrímakonunni í Hyttunni sinni sem heitir Björk.


Bloggfærslur 17. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband