11. júlí - þrítugasti og annar göngudagur!

Jæja, upp er runninn síðasti göngudagurinn og það hellirigndi þegar við fórum á fætur klukkan sjö.  En það þýddi ekki að kvarta, það myndi engu breyta.  

Við fengum fínan morgunmat hjá Karin og John klukkan átta og hálfníu skelltum við okkur í gúmmígallana og héldum út í rigninguna.  En viti menn, það stytti upp eiginlega um leið og við vorum farin að hita okkur upp með hressilegum gönguhraða.  

Það kom mér á óvart hvað margar brekkur biðu okkar þennan daginn en allt hafðist það og veðrið var fínt.  Við stoppuðum við fallegt vatn til að borða síðasta nestið okkar.  Gott að sitja, spjalla, horfa á endurnar synda hjá,  lítil lömb kúrandi hjá mömmum sínum - ekkert að láta okkur raska ró sinni.  

Uppi á einni hæðinni blasti svo við okkur lokatakmarkið - Niðarós.  Þvílík gleði, þó enn væru margir kílómetrar og klukkutímar eftir.  Við vorum eitt gleðibros og létt voru sporin sem  að mestu lágu núna niður á við.  Þegar við komum að Niðaróssdómkirkjunni rétt um klukkan eitt þá bara báru tilfinningarnar þessa konu ofurliði.  Hún grét og félagarnir tóku utan um hana - við vorum öll yfir okkur sæl og hamingjusöm.  Svo voru teknar myndir, hlegið, grátið, faðmast, bara allt sem gerist þegar markmiði eins og þessu er náð.  

Þá tók við að fara á pílagrímaskrifstofuna og fá stimpilinn, aflátsbréfið, tylla títuprjóni á Ísland á kortið á veggnum hjá þeim, sá fyrsti allavega á þessu ári. Konurnar á skrifstofunni voru alveg undrandi á að við þrjú værum að koma alla leiðina frá Osló gangandi.  Það væri gaman að vita eitthvað um þá Íslendinga sem hafa gengið þessa leið áður frá Osló til Þrándheims.  

Ger og Daníel fengu sér herbergi í pílagrímaalberginu en mín fór á hótel - dekrað við þessa konu.  Fínt að koma í dásemdarrúm og gott að hugsa til þess að þurfa ekki að fara í gönguskóna í fyrramálið, bara njóta lífsins með sínum.  

Klukkan sex hittumst við pílagrímarnir sem lukum göngu í dag í stund sem var haldið fyrir okkur í Dómkirkjunni.  Þar voru lesin upp heimalönd okkar og litla Íslandsnafnið lesið upp á meðal hinna og hljómaði fallega og ég yfir mig stolt.           Í lokin fórum við og borðuðum saman fína steik með fínu meðlæti og einn kaldur fylgdi með. Besti minn kom og var með okkur og göngufélögum mínum fannst gaman að hitta hann.

Þá var komið að  kveðjustundinni - ekki sagt bless heldur sjáumst síðar.  32 ótrúlegir dagar liðnir og nýr dagur á morgun.  

Ég er óendanlega þakklát.  Takk fjölskyldan mín fyrir að hafa trú á mér og hvetja mig.  Takk minn besti fyrir að vera þú. Takk þið öll sem hafið skrifað á bloggið mitt allt til þess að gleðja mig og líka þið sem lituð þar inn, allt er það mér dýrmætt. Takk fyrir frábæra göngufélaga, Ger og Daníel. Án Gers hefði ég ekki gert þetta og það var gaman að fá Daníel í hópinn síðustu dagana.  Og að síðustu, takk Guð fyrir að gefa mér heilsu, góða ferðafélaga, gott veður og að vera alltaf með mér.

"Í augum alls heimsins ertu ef til vill bara ein lítil mannvera, en í augum einnar lítillar mannveru ertu líka eflaust allur heimurinn"

 

Pílagríminn sem nýtur þess að vera til og eiga sér drauma, hver sá næsti verður er ekki vitað.  Takk fyrir mig.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Ótrúlegt ferðalag að baki mamma mín - enn eitt í minningar- og reynslubankann.  Og við hin græðum í leiðinni, fáum innlit inn í upplifun þína og fyllumst innblæstri.  Nú notaði ég nærri 1 1/2 klukkutíma í að fara í öll bloggin þín um þessar fjórar pílagrímaferðir síðastliðin ár, afrita hverja færslu því ég þurfti að líma þær í réttri röð en ekki öfugri eins og þær eru á bloggunum.  Svo sendi ég Margeiri Þór eðalprinsinum okkar allar færslurnar og hann er búinn að búa til "bók" í ipadinum sínum sem með flottu forriti er lesin upp fyrir hann í græjunni.  Svo nú getur hann heyrt öll þessi ævintýri hennar ömmu sinnar frá Jakobsvegi og að þessari nýliðnu Ólafsgöngu.  Það verður eitthvað!!  Svo þurfum við bara að koma þessu saman í bók fyrir afkomendur þessarar stórmerkilegu konu sem ég er svo heppin að kalla mömmu!

Elska þig endalaust elsku mamma mín og er meira en stolt af þessu afreki þínu sem öðrum

Dóttirin og co (IP-tala skráð) 12.7.2017 kl. 21:33

2 identicon

Vá, Rúna mín, þú ert svo mögnuð og mikil fyrirmynd fyrir okkur hin! Innilegustu hamingjuóskir með að lokatakmarkinu sé náð. Hreint ótrúlegt hvað þú ert dugleg að setja þér markmið, stefna að þeim og ljúka! Njóttu Noregs, sjáumst eftir helgi. Hlakka svoooo til!!! <3

P.s. Á eftir að sakna hanaatana :D 

Harpa (IP-tala skráð) 12.7.2017 kl. 22:21

3 identicon

Húrra duglega stelpa.  Til hamingju og njóttu nú lífsins og minninganna sem orðið hafa til í þessari göngu.wink

Sigga Hermanns (IP-tala skráð) 12.7.2017 kl. 22:23

4 identicon

Takk elsku hjartans þið öll sem hér hafa skrifað 

Er mikið þakklát og hamingjusöm. 

&#x2764;&#x2764;&#x2764;&#x2764;&#x2764;&#x2764;&#x2764;&#x2764;&#x2764;

Rúna (IP-tala skráð) 13.7.2017 kl. 21:38

5 identicon

Elsku Rúna!
Takk fyrir að leyfa okkur hinum að gægjast ögn inn um skráargatið þitt og fylgjast með öllum þessum sigrum. Gaktu á guðsvegum, nú sem fyrr. Góðar kveðjur til þín....

Birna G Konradsdottir (IP-tala skráð) 14.7.2017 kl. 14:29

6 identicon

Mikið er ég stolt af þér elsku Rúna mín.Hafðu það gott og njóttu þín í botn.Þykir svo vænt um þig sys&#x1F49C;&#x1F49C;&#x1F49C;&#x1F49C;&#x1F49C;&#x1F60E;

Pulla (IP-tala skráð) 15.7.2017 kl. 08:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband