23. júní. 14 göngudagur. Langur var hann.

Á fætur kl.6.30 því það var langur og erfiður dagur framundan. Lögðum af stað klukkutíma síðar en ég svaf illa um nóttina. Mér leið ekki vel þar sem við gistum og e.t.v. hef ég hugsað of mikið. 

En þetta er liðið og næsti gististaður verður æði. Við byrjuðum daginn í logni en engin sól - frábært gönguveður. Dagurinn leit svona út.  Hækkun-lækkun-hækkun-lækkun og þetta tók á. Ekki veit ég hversu mörgum sinnum þetta gekk svona og vil ekki vita það. Þetta varð 25 km. ganga og stóð í 7.5 klst.með stoppum.

Við vissum hvað biði okkar og þökkuðum fyrir hvað veðrið var gott. Í byrjun var þetta ekkert erfitt, ekki snarbratt og fínir stíga og götur. 

Ekki fundum við kirkjugarð til þess að hvíla okkur en settumst á lúinn og gamlan bekk sem þjónaði hlutverki sínu vel.Þarna sátum við og horfðum til baka og yfir Faberg-lítinn bæ utan við Lillehammer. 

Það fækkaði bílunum því nú tók sveitin við og Guðbrandsdalurinn fallegi. Og það var ekki svo erfitt að fikra sig upp í hlíðarnar með útsýni yfir þann hluta dalsins sem við höfðum í Panorama, var aldeilis stórkostlegt. 

Stór og mikil á sem ég held að heiti Lagen liðaðist í fallegum hlykkjum langt fyrir neðan okkur, jarðgöng sáust í fjarska og fyrir ofan höfuð okkar voru svona kláfar sem flytja fólk upp í hæstu hæðir.  Ekki fyrir mig takk, ég er of lofthrædd til að njóta þess.

 Það var mikið af flugu í fyrstu í skóginum, þá var eitrið tekið upp og spreyjað eins og enginn væri morgundagurinn og ég fékk frið.  

Og þið getið bara ekki trúað því hversu heppin ég var í dag.  

Á leiðinni okkar í dag vissi ég af örmjóum stígum sem lágu meðfram snarbröttum skógarhlíðum og við þessu var varað í leiðsögubókinni.  Það varð að láta sig hafa það, stafirnir mínir góðu teknir fram og mín leit bara ekki niður til hliðar, gengið varlega skref fyrir skref, haldið svo fast um stafina að hnúarnir hvítnuðu og ég þakkaði ferðafélaganum mínum góða sem alltaf styður mig - þakkaði að það var ekki rigning.  Þá hefði þetta litið verr út, blóðþrýstingurinn hefði snarhækkað og hjartslátturinn upp úr öllu valdi ef ég þekki mig rétt.  

En ég er heppin og allt gekk þetta vel og við Ger vorum bæði fegin í lokin.  

Á leiðinni okkar í dag gengum við fram á skilti sem á stóð Kærlighetsfossen og ég held að þessi foss falli í á sem heitir Sagáa.  Það tók okkur c.a. 5 mínútur að ganga upp að fossinum og það var gaman að fylgjast með Ger taka "selfívideo" og senda konunni sinni, krúttlegur kallinn og hugsar hlýlega til konunnar sinnar.  

Þó að þetta hafi verið aðeins úr leið hefði ég ekki viljað sleppa þessu.  Og annað sem vakti athygli mína en það voru maurar í hundraða tali sem sýndu okkur byggingalist sína, fallega kúlu á stærð við hálfan fótbolta og kúlan iðaði af lífi. Ótrúlegt að sjá hvað þessi litlu dýr geta áorkað!  

Þegar líða tók á daginn varð gangan erfiðari, stígarnir lágu í gegnum heilu engin af Kerfli, illgreisi sem hér er mikið af, og þetta fór að taka sinn toll á fæturna.  Síðustu tólf kílómetrana af leiðinni var að mestu alltaf upp og jeminn hvað ég var þreytt. Við enduðum loks í 620 metra hæð eftir að hafa dröslast yfir prílur, upp stíga,inn í hávaxið gras of þá komu dropar úr lofti, ekki mikið,en loksins kom skiltið Skaden gard 0.6 km. Þó að 600 m sé ekki mikið svona yfir það heila þá voru þeir ansi langir þarna en þetta hafðist. Við enduðum í 620 metra hæð. 

Við Ger vorum mjög þreytt eftir 25 km og klukkan var rúmlega þrjú þegar við náðum í gististaðinn.  Við erum á annarri hæð, allt sér og fallegt og hreint og hvað skyldi nú verða í matinn?  Þið megið giska hahaha.  Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir þá fór að rigna af krafti, allt í lagi með það, og núna klukkan sex er komin þoka yfir dalinn.  Nú er bara að vona að það létti til, annars er það gúmmígallinn.  

Eitt sem ég hef tekið eftir af þessum göngudögum, ég hef séð Lúpínu með vegum og í görðum en hún virðist ekki dreifa úr sér eins og heima.  Ég hef verið að velta þessu fyrir mér, kannski nær hún sér ekki upp af því það er allsstaðar gróður.  Það væri gaman að vita hvað þið haldið um þetta.  

Og svona til að enda þetta á léttum nótum þá sef ég í nótt í svo krúttlegu eldgömlu rúmi, ég virðist hreinlega laðast að því gamla.  Ég hlakka til að leggjast á koddann, þarf þess svo sannarlega núna að hvílast vel því það eru fleiri upp og niður daga.  

"Ekki flýta þér.  Láttu ekki undan því áreiti sem á vegi þínum verður og vekur streitu, hávaða og óðagot.  Láttu goluna leiða þig áfram veginn"

Góða nótt og ég þakka fyrir allar kveðjurnar og hvatningarnar frá ykkur hér á blogginu! laughing

Hugsa til ykkar og sakna ykkar - þreyttur pílagrími!


Bloggfærslur 24. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband