22. júní - þrettándi göngudagurinn

Góður nætursvefn á Johannesar gard og dagurinn heilsaði sólarlaus í logni.  Eins og venjulega var byrjað á næringu, pakkað og lagt af stað klukkan átta.  Þetta var góður göngudagur, ekkert mikið svitnað eða staðið á öndinni.  Lítið erfiði semsagt.  Við gengum niður í langan tíma, langleiðina niður að Mjosevatni, og eftir tveggja klukkustunda göngu vorum við farin að skima eftir bekk til að setjast á en enginn var bekkurinn.  

Við gengum framhjá litlu fallegu húsi sem stóð c.a. 50-60m neðan við veginn.  Þar sátu kona og maður úti á bekk, hmmm þetta var of freistandi til þess að sleppa því.  Við röltum til þeirra, heilsuðum og spurðum hvort við mættum tylla okkur um stund.  Alveg sjálfsagt sagði kallinn og þar með var hann rokinn.  Konan sem heitir Mille og er áttræð talaði bara norsku svo nú þurfti ég að gera mitt besta til að spjalla við hana og merkilegt nokk, þetta gekk bara vel.  

Hún færði okkur kók og glös út á veröndina og sat svo á sínum stól og reykti.  Hvarf stutta stund inn og þegar við vorum búin að drekka kókið tók ég glösin og kókið sem eftir var og færði henni inn í dyrnar.  Þá var sú gamla búin að varalita sig og vildi endilega sýna mér fallega litla húsið sem var mikið fínt allt saman.  Og í lokin fékk ég að smella af henni mynd.  Þetta var góð stund með henni og svo vinkuðum við hvorri annarri þangað til við vorum komin í hvarf.  

Nú fór að styttast verulega til Lillehammer og skíðastökkpallurinn frá Ólympíuleikunum sást langar leiðir.  Við stoppuðum næst við Söre Al kirkjuna, borðuðum okkar hádegismat, fórum úr skóm og nutum.  Með stuttu millibili komu til okkar tveir eldri menn.  Þeir voru að fara í kirkjugarðinn og vildu spjalla við okkur.  Hvaðan við værum að koma, hvert við værum að fara, hvað við vorum búin að vera lengi og hvað við ætluðum að vera lengi.  Og alltaf koma hlýjar og góðar óskir í lokin - "God tur".  

Til Lillehammer komum við um eittleytið, fórum á göngugötuna, settumst á kaffihús úti og fengum okkur kaffi.  Mikið líf á göngugötunni, fullt af fólki og gaman að njóta.  Gistingin hjá okkur í dag er í gömlu húsi og er hún sú lélegasta hingað til en ég verð bara að taka því, enda búin að vera heppin.  Sturtan, þvotturinn og bjórinn - í þessari röð - allt í röð og reglu hér.  

Á meðan Ger sat við ipadinn sinn fór ég í smá göngu um bæinn, get nú varla sagt að ég hafi gengið um bæinn, fór hérna smá hring.  Ég verð bara að koma hingað seinna og njóta og skoða.  Eftir matinn sátum við og spjölluðum um næstu daga, við erum búin að panta gistingu fyrir næstu fjóra daga, og klukkan níu var farið í rúmið.  15 km í dag - þetta styttist elskurnar og ég vona bara að allt haldi áfram að ganga vel.  

"Lífið er lexía sem maður verður að upplifa til þess að skilja"

Sól í hjarta og sól í sinni hjá konunni.


21. júní - tólfti göngudagur

Byrjuðum að ganga klukkan átta, sólarlaust, vindur og kaldur var hann.  Steypan var undir fótum okkar og fyrstu kílómetrarnir fóru í uppgang.  Síðan tóku við moldarstígar og norskir bílstjórar voru ekki mikið að taka tillit til okkar, brunuðu framhjá, spýttu grjóti í allar áttir og rykið yfir okkur.  En við sluppum samt ótrúlega vel miðað við allan bílafjöldann sem fór framhjá okkur.  Við stoppuðum mörgum sinnum á leiðinni upp frá bænum til þess að njóta útsýnisins og alltaf klifruðum við hærra og hærra.  

Í dag var ég flíspeysunni minni alla gönguna því það blæs líka köldum vindi hér eins og heima.  Það voru hvítar kýr með agnarsmáa kálfa, alltaf jafn gaman að sjá hversu forvitnar þær eru.  Á leið okkar framhjá einu húsi kom kona hlaupandi á eftir okkur kallandi og við stoppuðum og snerum við.  Hún færði okkur tvo ísa til að hressa okkur - þetta var skemmtilegt.  Hún spjallaði aðeins og síðan kvöddumst við.  Þetta eru óvænt ævintýri og alltaf jafn skemmtileg.  

Bændur eru hér um allar sléttur að slá falleg tún og á leiðinni sá ég tvö ný fjós, ótrúlega snyrtilegt og fallegar byggingarnar.  Allt eitthvað svo hreint og fínt.  Ilmurinn sem við fundum í morgun þegar við gengum af stað var af nýslegnum túnum og svo lyktin þegar nýbúið er að bera kúask... á tún - þetta fékk misjafnar undirtektir hjá okkur!!

Og svo komum við að hvíldinni, fundum fallega litla byggingu, tröppur upp og sæti inni.  Þarna var gott að setjast, taka af sér skóna og fá sér að borða.  Leið okkar lá síðan inn í lítinn bæ sem heitir Brottum og þar þurftum við smávegis að bæta í búskapinn - aðeins að versla inn.  Eftir þriggja kílómetra viðbótargöngu vorum við komin að bænum þar sem við ætlum að gista og heitir hann Johannes gard.  Þetta er það besta á þessari göngu sem ég hef komið á - flottasti gististaðurinn - alveg hreint magnað.  Þetta er tveggja hæða hús, 6 herbergi og 5 baðherbergi, eldhús á báðum hæðum, sér garður og algjör kyrrð og ró.  Þetta verður erfitt að toppa.  

Það er fernt sem okkur Ger kemur saman um að sé alveg bráðnauðsynlegt.  Í fyrsta lagi: að geta sest niður til að hvíla sig og borða.  Í öðru lagi: að geta farið úr skónum á meðan og hvílt sig.  Í þriðja lagi: að komast í sturtuna á áfangastað, þvo af sér rykið og þvo fötin sín.  Og í fjórða lagi:  einn ískaldur - það toppar þetta allt.  

Mér líður vel, fann smá verk í hægra hné í gær svo í dag gekk ég með hitaband og það virkaði ágætlega svo ég held því bara áfram.  Sólin, þvottur á snúru og slökun í gangi.  21 km í dag.  

"það tilheyrir að villast stundum af vegi og það er bæði gott og rétt að fá sér blund í hlíðinni"

 Rúna sem lifir eins og drottning!


20. júní - ellefti göngudagur.

Ég vaknaði klukkan sjö eftir góða hvíld og ljúft símtal í gærkvöldi.  Sól, já sól og útsýnið ægifagurt.  Eins og venjulega fengum við okkur morgunmat og lögðum síðan af stað, komum við í Veldre kirkju og okkur að óvörum var kirkjan opin.  Falleg kirkja með fallegri altaristöflu og við hliðina á kirkjunni stendur lítil kapella, Maríukapella.  Kapellan er alltaf opin á meðan á "pílagrímaútgerðinni" stendur.  

Við héldum síðan leið okkar áfram og komum að risastóru furutré sem er friðað og girt er í kringum það.  Árið 2016 var haldið upp á 500 ára afmæli trésins!  Það var heljarinnar upplifun að standa þarna og hugsa um þessi 500 ár sem þetta tré á að hafa staðið þarna.  Og áfram var haldið, komum við á bensínstöð og keyptum okkur kaffi og þar komu tvær norskar eldri konur til okkar þar sem við sátum úti í sólinni. Þær höfðu tekið eftir fánanum glampandi á pokanum mínum og vildu spjalla - höfðu báðar komið til Íslands.  Það er alltaf yndislegt þegar fólk gefur sig á tal við mann og sýnir áhuga á því sem maður er að gera.  

Nú tók við notaleg skógarganga og og í gegnum hana komum að stað þar sem skáldið Alf Proysen var ættaður frá.  Hann skrifaði margar barnabækur, m.a. um Little mrs Petterpot.  Það var falleg stytta af honum þarna og einnig var búið að koma upp safni um líf hans og starf.  

Allt gekk þetta vel hjá okkur og að lokum komum við að Ringsaker kirkju um hádegið, settumst á bekk í kirkjugarðinum og þar var snæddur hádegismatur.  Alveg er það ótrúlega magnað að taka af sér skóna, láta líða úr sér, ganga um á sokkaleistunum og bara njóta.  Ringsaker kirkjan var opin.  Við fórum inn eftir matinn og fyrir dyrum stóð jarðaför.  Kistan og mikið af blómum komið inn í kirkjuna.  Kirkjuvörður sýndi okkur það sem okkur langaði að sjá og leyfði okkur að skoða okkur um.  Í lokin kveikti ég á kerti fyrir mína.  Svo var auðvitað stimplað í passann, það má ekki gleymast.  

Leiðin lá nú meðfram  Mjösavatni, í gegnum hjólhýsa og tjaldsvæði.  Ekki mikið prívatlíf þar, hús við hús, en þessi staður er fallegur.  Og nú var komið að því sem ég vissi að við myndum gera einhvern tímann á leið okkar, að ganga undir Mjösebrúna stóru sem við höfðum ekið yfir fyrir tveimur dögum.  Það var ótrúlegt að ganga þarna undir.  Og alltaf kem ég auga á eitthvað fyndið og skemmtilegt á leiðinni, sniðug skilti við veginn, fallegar myndir á póstkössum, fljúgandi fiðrildi og Ger er búinn að þola mig í 11 daga!!  

Um klukkan þrjú urðum við mikið kát þegar við náðum í náttstað, á sveitabæ sem heitir Ringli.  Þar ráða ríkjum hjónin Harald og Sovli og hann er fæddur hér á þessum bæ.  Það er verið að byggja hér upp hús eins og þau voru í gamla daga, aldeilis fallegt, og mín sefur uppi á lofti undir súð.  Harald hefur oft komið til Íslands.  Hann var í norska hernum og eitthvað var hann að aðstoða víkingasveitina okkar, kannski að kenna þeim, hress og kátur kallinn.  Aftur lá leiðin okkar í dag fyrst á steyptu, síðan mjúkir stígar, innst í skógi var sveitavegur og 22 km gengnir í dag.  Veðrið var gott í dag eins og alla undanfarna daga og ég er lánsöm.  Hjartans kveðjur til ykkar.

Í lokin: "Ásetningur - haltu ótrauð áfram, farðu ferða þinna, gerðu pílagrímagönguna að öðru og meiru en venjulegum garðsstíg.

Það verður gott að leggjast á koddann í kvöld!


19. júní-sólar og kvennadagur.

Ég svaf vel, hvíldist og vöknuð um sjöleytið. Dagurinn í dag verður nokkurs konar letidagur, farið í Kiwi verslunina til að kaupa nesti, skoða rústir miðaldakirkju sem nú er undir gleri. Þetta glerhýsi er sko engin smásmíði, aldeilis magnað að sjá þetta. Rústirnar voru sífellt að skemmast meira og meira og því var glerhöllin reist.

Við gengum líka út að Víkingaskipinu en það er skautahöllin sem reist var fyrir vetrarólympíuleikana 1994. Höllin var lokuð því miður en gaman var að sjá hana þrátt fyrir það.

 

Eftir þennan leiðangur lá leiðin til Pílagríma center til þess að ná í okkar pjönkur og taka strætó til móts við Gjövik handan vatnsins því við ætluðum að byrja á svipuðum slóðum austan megin og þar sem við hættum vestan megin. 

Það var enn sama blíðan sem lék við kinnar og fólk sendi okkur falleg bros og veifaði þegar við yfirgáfum Brumunddal. 

Það var gott að komast aftur í kyrrðina þó uppgangur biði okkar. Við vorum búin að panta gistingu rétt hjá Veldre kirkjunni og þangað var förinni heitið.

Á leiðinni upp einn veginn stóðu tveir menn fyrir utan hús og þegar við komum nær sá ég mann sem ég þekki. Þetta var enginn annar en Örn Bárður og hann ætlaði ekki að trúa sínum eigin augum frekar en ég. Hann sagðist hafa komið auga á islenska fánann en ekki hvarflað að honum að þetta væri ég. 

Og nú fékk ég hlýtt faðmlag og kossa á kinnar. Þetta var svo skemmtilegt og óvænt, við spjölluðum í dálitla stund og þegar við kvöddumst fékk ég hlýjar kveðjur í farteskið. 

Svona getur það verið lífið á veginum, óvænt, yndislegt, erfitt, auðvelt og oftast skemmtilegt.

Húsið þar sem við gistum þessa nótt er tveggja hæða hús og þar er allt til alls og við erum bara tvö í stórum sæl en það má alltaf búast við fleirum.

Nú var kokkað eins og oft áður enda ekki boðið upp á restauranta hér í sveitinni. Svo undarlegt sem það er þá er ég orðin eldklár að sjóða spaghetti og hugmyndaflugið um meðlætið fær að njóta sín til fulls en verður ekki opinberað hér í þessu bloggi mínu. 

Ger skrifar blogg á hverjum degi og frúin hans hringir á hverju kvöldi til að heyra hvernig gengur. Hún hefur kannski áhyggjur af honum þar sem hann er með sykursýki og glútenóþol. Hann passar mjög vel upp á þetta allt saman og allt hefur gengið vel. 

Nú er tíundi dagurinn að kvöldi kominn og 18.km gengnir í dag - ekki nokkur gangur í þessu. 

Fallegt veður og fallegt land - bið ekki um meira í bili.

Í lokin: Hver vegur að heiman er vegurinn heim.

Sæl og sátt sendi ég kveðjur til ykkar. 


18. júní. Níundi göngudagur- Gjövik- Hamar.

Vaknaði í sól kl.6.30 því við erum með plan fyrir daginn. Snæddum okkar morgunmat, pökkuðum ofan í pokana og örkuðum af stað. Nú lá leiðin til Gjövik og við gengum að mestu með Mjösavatninu, tilbreyting frá fjallahéruðunum undanfarið. 

En vatnið gerði okkur grikk oftar en einu sinni því mikið hafði ringt undanfarið og það flæddi yfir gönguleiðina á nokkrum stöðum. En við gerðumst útlagar og ruddum okkur leiðir gegnum skógarþykkni og allt gekk það stórslysalaust, einstaka skrámur sem gróa. 

Dagurinn var mjúkur 90%, fallegir stíga þar sem ekki flæddi  yfir. Þegar við komum til Gjövik var farið að svipast um eftir kaffi og það rættist heldur betur úr því.  Við komum auga á útikaffi, Drengestue kafé og þar tók ilmandi nýbökuð kanelbolla á móti mér.

Það er ýmislegt sem rætt er þegar við stoppum í kirkjugörðum og fáum okkur vatn á pelana okkar. Við erum viss um að vatnið sé Holy water því það endist ótrúlega lengi hver svo sem ástæðan er.

Eftir kaffið góða og bolluna sem rann ljúflega niður héldum við niður á strætóstöð og tókum okkur far yfir Mjösebrúna yfir til Hamar. Nú verður haldið áfram austan megin til Þrándheims.

Við erum komin í gistingu hjá Pilgrims center í Hamar og þvílíkt flott, uppábúin rúm, handklæði, matur í ísskápnum sem við megum nota og fín sturta, then I am happy. 

Þegar við komum hingað tók Henrik , ungur maður á móti okkur, hlýr og hjálpsamur og vildi allt fyrir okkur gera. Honum fannst gaman og merkilegt að ég væri að vinna hjá biskup Íslands og talaði um að biskupinn sem væri hjá þeim væri Solveig Fiske. Og auðvitað kannaðist ég við nafnið.

Gestabókin á pilgrimssetrinu var frá 2012 og ég fletti gegnum hana því þar eru skráð heimalönd pílagrímana sem þarna hafa komið og ég vonaðist til að sjá þar íslensk nöfn en svo var ekki. 

Þegar ég var búin að vera þarna góða stund fór mér að líða svolítið einkennilegt, svitnaði og varð alveg orkulaus. Ég hafði nefnilega gleymt að borða og nú kom það niður á mér, en þetta gerist ekki aftur. 

Allir fjalla og hólatindar horfnir úr höfðinu á mér, bólurnar á gagnaugum horfnar og þá sjaldan ég lít í spegil er ég bara nokkuð í lagi en það er nú bara mín skoðun. 

Spaghetti í matinn og jarðarber í eftirmat. Fætur í lagi, finn ekki mikið fyrir pokanum nema þá helst þegar ég er nýbúin að kaupa inn. 

Takk til ykkar allra sem hafið kíkt hér inn og hjartans þakkir til ykkar sem hafið sett inn kveðjur til mín. Það er yndislegt að lesa og yljar mér svo sannarlega.  

Nú er nýr dagur framundan og ég á leiðinni inn í draumalandið. 

Í lokin þetta: "fegursta blóm jarðarinnar er brosið." 

Kær kveðja til ykkar allra frá sælum pílagríma í Hamar.


Bloggfærslur 22. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband