20. júní - ellefti göngudagur.

Ég vaknaði klukkan sjö eftir góða hvíld og ljúft símtal í gærkvöldi.  Sól, já sól og útsýnið ægifagurt.  Eins og venjulega fengum við okkur morgunmat og lögðum síðan af stað, komum við í Veldre kirkju og okkur að óvörum var kirkjan opin.  Falleg kirkja með fallegri altaristöflu og við hliðina á kirkjunni stendur lítil kapella, Maríukapella.  Kapellan er alltaf opin á meðan á "pílagrímaútgerðinni" stendur.  

Við héldum síðan leið okkar áfram og komum að risastóru furutré sem er friðað og girt er í kringum það.  Árið 2016 var haldið upp á 500 ára afmæli trésins!  Það var heljarinnar upplifun að standa þarna og hugsa um þessi 500 ár sem þetta tré á að hafa staðið þarna.  Og áfram var haldið, komum við á bensínstöð og keyptum okkur kaffi og þar komu tvær norskar eldri konur til okkar þar sem við sátum úti í sólinni. Þær höfðu tekið eftir fánanum glampandi á pokanum mínum og vildu spjalla - höfðu báðar komið til Íslands.  Það er alltaf yndislegt þegar fólk gefur sig á tal við mann og sýnir áhuga á því sem maður er að gera.  

Nú tók við notaleg skógarganga og og í gegnum hana komum að stað þar sem skáldið Alf Proysen var ættaður frá.  Hann skrifaði margar barnabækur, m.a. um Little mrs Petterpot.  Það var falleg stytta af honum þarna og einnig var búið að koma upp safni um líf hans og starf.  

Allt gekk þetta vel hjá okkur og að lokum komum við að Ringsaker kirkju um hádegið, settumst á bekk í kirkjugarðinum og þar var snæddur hádegismatur.  Alveg er það ótrúlega magnað að taka af sér skóna, láta líða úr sér, ganga um á sokkaleistunum og bara njóta.  Ringsaker kirkjan var opin.  Við fórum inn eftir matinn og fyrir dyrum stóð jarðaför.  Kistan og mikið af blómum komið inn í kirkjuna.  Kirkjuvörður sýndi okkur það sem okkur langaði að sjá og leyfði okkur að skoða okkur um.  Í lokin kveikti ég á kerti fyrir mína.  Svo var auðvitað stimplað í passann, það má ekki gleymast.  

Leiðin lá nú meðfram  Mjösavatni, í gegnum hjólhýsa og tjaldsvæði.  Ekki mikið prívatlíf þar, hús við hús, en þessi staður er fallegur.  Og nú var komið að því sem ég vissi að við myndum gera einhvern tímann á leið okkar, að ganga undir Mjösebrúna stóru sem við höfðum ekið yfir fyrir tveimur dögum.  Það var ótrúlegt að ganga þarna undir.  Og alltaf kem ég auga á eitthvað fyndið og skemmtilegt á leiðinni, sniðug skilti við veginn, fallegar myndir á póstkössum, fljúgandi fiðrildi og Ger er búinn að þola mig í 11 daga!!  

Um klukkan þrjú urðum við mikið kát þegar við náðum í náttstað, á sveitabæ sem heitir Ringli.  Þar ráða ríkjum hjónin Harald og Sovli og hann er fæddur hér á þessum bæ.  Það er verið að byggja hér upp hús eins og þau voru í gamla daga, aldeilis fallegt, og mín sefur uppi á lofti undir súð.  Harald hefur oft komið til Íslands.  Hann var í norska hernum og eitthvað var hann að aðstoða víkingasveitina okkar, kannski að kenna þeim, hress og kátur kallinn.  Aftur lá leiðin okkar í dag fyrst á steyptu, síðan mjúkir stígar, innst í skógi var sveitavegur og 22 km gengnir í dag.  Veðrið var gott í dag eins og alla undanfarna daga og ég er lánsöm.  Hjartans kveðjur til ykkar.

Í lokin: "Ásetningur - haltu ótrauð áfram, farðu ferða þinna, gerðu pílagrímagönguna að öðru og meiru en venjulegum garðsstíg.

Það verður gott að leggjast á koddann í kvöld!


19. júní-sólar og kvennadagur.

Ég svaf vel, hvíldist og vöknuð um sjöleytið. Dagurinn í dag verður nokkurs konar letidagur, farið í Kiwi verslunina til að kaupa nesti, skoða rústir miðaldakirkju sem nú er undir gleri. Þetta glerhýsi er sko engin smásmíði, aldeilis magnað að sjá þetta. Rústirnar voru sífellt að skemmast meira og meira og því var glerhöllin reist.

Við gengum líka út að Víkingaskipinu en það er skautahöllin sem reist var fyrir vetrarólympíuleikana 1994. Höllin var lokuð því miður en gaman var að sjá hana þrátt fyrir það.

 

Eftir þennan leiðangur lá leiðin til Pílagríma center til þess að ná í okkar pjönkur og taka strætó til móts við Gjövik handan vatnsins því við ætluðum að byrja á svipuðum slóðum austan megin og þar sem við hættum vestan megin. 

Það var enn sama blíðan sem lék við kinnar og fólk sendi okkur falleg bros og veifaði þegar við yfirgáfum Brumunddal. 

Það var gott að komast aftur í kyrrðina þó uppgangur biði okkar. Við vorum búin að panta gistingu rétt hjá Veldre kirkjunni og þangað var förinni heitið.

Á leiðinni upp einn veginn stóðu tveir menn fyrir utan hús og þegar við komum nær sá ég mann sem ég þekki. Þetta var enginn annar en Örn Bárður og hann ætlaði ekki að trúa sínum eigin augum frekar en ég. Hann sagðist hafa komið auga á islenska fánann en ekki hvarflað að honum að þetta væri ég. 

Og nú fékk ég hlýtt faðmlag og kossa á kinnar. Þetta var svo skemmtilegt og óvænt, við spjölluðum í dálitla stund og þegar við kvöddumst fékk ég hlýjar kveðjur í farteskið. 

Svona getur það verið lífið á veginum, óvænt, yndislegt, erfitt, auðvelt og oftast skemmtilegt.

Húsið þar sem við gistum þessa nótt er tveggja hæða hús og þar er allt til alls og við erum bara tvö í stórum sæl en það má alltaf búast við fleirum.

Nú var kokkað eins og oft áður enda ekki boðið upp á restauranta hér í sveitinni. Svo undarlegt sem það er þá er ég orðin eldklár að sjóða spaghetti og hugmyndaflugið um meðlætið fær að njóta sín til fulls en verður ekki opinberað hér í þessu bloggi mínu. 

Ger skrifar blogg á hverjum degi og frúin hans hringir á hverju kvöldi til að heyra hvernig gengur. Hún hefur kannski áhyggjur af honum þar sem hann er með sykursýki og glútenóþol. Hann passar mjög vel upp á þetta allt saman og allt hefur gengið vel. 

Nú er tíundi dagurinn að kvöldi kominn og 18.km gengnir í dag - ekki nokkur gangur í þessu. 

Fallegt veður og fallegt land - bið ekki um meira í bili.

Í lokin: Hver vegur að heiman er vegurinn heim.

Sæl og sátt sendi ég kveðjur til ykkar. 


18. júní. Níundi göngudagur- Gjövik- Hamar.

Vaknaði í sól kl.6.30 því við erum með plan fyrir daginn. Snæddum okkar morgunmat, pökkuðum ofan í pokana og örkuðum af stað. Nú lá leiðin til Gjövik og við gengum að mestu með Mjösavatninu, tilbreyting frá fjallahéruðunum undanfarið. 

En vatnið gerði okkur grikk oftar en einu sinni því mikið hafði ringt undanfarið og það flæddi yfir gönguleiðina á nokkrum stöðum. En við gerðumst útlagar og ruddum okkur leiðir gegnum skógarþykkni og allt gekk það stórslysalaust, einstaka skrámur sem gróa. 

Dagurinn var mjúkur 90%, fallegir stíga þar sem ekki flæddi  yfir. Þegar við komum til Gjövik var farið að svipast um eftir kaffi og það rættist heldur betur úr því.  Við komum auga á útikaffi, Drengestue kafé og þar tók ilmandi nýbökuð kanelbolla á móti mér.

Það er ýmislegt sem rætt er þegar við stoppum í kirkjugörðum og fáum okkur vatn á pelana okkar. Við erum viss um að vatnið sé Holy water því það endist ótrúlega lengi hver svo sem ástæðan er.

Eftir kaffið góða og bolluna sem rann ljúflega niður héldum við niður á strætóstöð og tókum okkur far yfir Mjösebrúna yfir til Hamar. Nú verður haldið áfram austan megin til Þrándheims.

Við erum komin í gistingu hjá Pilgrims center í Hamar og þvílíkt flott, uppábúin rúm, handklæði, matur í ísskápnum sem við megum nota og fín sturta, then I am happy. 

Þegar við komum hingað tók Henrik , ungur maður á móti okkur, hlýr og hjálpsamur og vildi allt fyrir okkur gera. Honum fannst gaman og merkilegt að ég væri að vinna hjá biskup Íslands og talaði um að biskupinn sem væri hjá þeim væri Solveig Fiske. Og auðvitað kannaðist ég við nafnið.

Gestabókin á pilgrimssetrinu var frá 2012 og ég fletti gegnum hana því þar eru skráð heimalönd pílagrímana sem þarna hafa komið og ég vonaðist til að sjá þar íslensk nöfn en svo var ekki. 

Þegar ég var búin að vera þarna góða stund fór mér að líða svolítið einkennilegt, svitnaði og varð alveg orkulaus. Ég hafði nefnilega gleymt að borða og nú kom það niður á mér, en þetta gerist ekki aftur. 

Allir fjalla og hólatindar horfnir úr höfðinu á mér, bólurnar á gagnaugum horfnar og þá sjaldan ég lít í spegil er ég bara nokkuð í lagi en það er nú bara mín skoðun. 

Spaghetti í matinn og jarðarber í eftirmat. Fætur í lagi, finn ekki mikið fyrir pokanum nema þá helst þegar ég er nýbúin að kaupa inn. 

Takk til ykkar allra sem hafið kíkt hér inn og hjartans þakkir til ykkar sem hafið sett inn kveðjur til mín. Það er yndislegt að lesa og yljar mér svo sannarlega.  

Nú er nýr dagur framundan og ég á leiðinni inn í draumalandið. 

Í lokin þetta: "fegursta blóm jarðarinnar er brosið." 

Kær kveðja til ykkar allra frá sælum pílagríma í Hamar.


17. júní - okkar dagur!

Horthe bærinn þar sem við gistum síðastliðna nótt er sveitabær en enginn búskapur þar lengur.  Allt er svo hreint og fallegt og ofboðslega mikið af stórum húsum.  Ég sofnaði klukkan 8 í gærkvöldi og svaf til klukkan hálf sjö í morgun - endurnærð eftir góðan svefn.  Í dag munum við nálgast Gjovik en þangað eru um 30 km frá því sem við erum núna.  Þetta verður fyrsta borgin sem við komum til en þarna búa um 30 þúsund manns.  Það verður á morgun sem við munum koma þangað.  Við gætum nú alveg fengið nett sjokk eftir alla kyrrðina.  Flestir dagar hafa nefnilega verið í kyrrð - já bara eins og kyrrðardagar í Skálholti.  Við hlustum á skóhljóðin okkar, fuglasönginn og einstaka bíl eða traktor sem ekur hjá, þetta er alveg frábært.  Dagurinn byrjaði á smá hækkun, það verður sko að vera þannig, og við vorum böðuð í sólinni.  Héruðin um allt með sveitabæjunum fallegu í öllum litum og lífið var um allar jarðir.  Í dag lá leiðin um fallegan bæ sem heitir Lena og þar vorum við aftur heppin.  Þar var bæjarhátíð, fólk um allar götur, söngur, dans og sölutjöld og ég fékk mér kaffi og vöfflu með rjóma í tilefni dagsins.  Það hvarflaði nú aðeins að mér þegar ég sá öll lætin þegar við komum í bæinn að þetta væri allt fyrir okkur Ger en það var víst ekki (ég verð nú alltaf að hafa smá grín með).  Þarna var mikil gleði, allir í sumarskapi í sólinni, fólk gaf sig á tal við okkur og þetta var yndislegt.  Eftir rúmlega hálftíma hvíld héldum við áfram leið okkar og eftir ofurlitla uppgöngu þá blasti enn ein dýrðin við.  Mjosa vatnið með öllum sínum seglbátum, bæjum, þorpum og undurfallegu landslagi allt um kring.  Ég stóð bara og dró andann djúpt.  Þetta var ótrúlega fallegt.  Við ákváðum að finna okkur gistingu í Kapp, en sá bær stendur alveg við flæðarmálið á vatninu Mjosa.  Nú erum við komin í gistinguna og það er hús byggt úr bjálkum líkt og stafkirkjur voru gerðar í gamla daga og jafnvel enn í dag.  Fín herbergi, stór garður, sturtan æði, matur og veitingastaðir við höfnina, ekki hægt að biðja um meira.  Þessi dagur var með þeim léttari og 24 km í höfn.  Við förum að nálgast 200 kílómetrana, þetta er spennandi.  Hafið það gott, það reyni ég að gera á hverjum degi.

"Leitaðu að einhverju fögru og þú munt finna það"

Konan í bjálkahúsinu. 


16. júní - það rignir!

Fyrst langar mig að senda Hauki mínum, Agötu minni og Kristófer mínum góðar óskir um farsæla ferð til Póllands - njótið elskurnar mínar.  Þessi dagur heilsar okkur með rigningu en lognið er algjört og þá er allt í lagi að ganga.  Við gengum frá í litlu hyttunni okkar í Bjarkarhúsi, skelltum okkur í gúmmígallana og skunduðum af stað.  Fyrstu kílómetrarnir voru upp í móti, að sjálfsögðu, en síðan tók að halla undan fæti.  Ég hreinlega elska svona niðurgang!!  Við fundum Gapahuk, sem er eins konar skýli til að hvílast í og það var gott eftir 2 klukkutíma göngu frá því klukkan 8:30 þegar við lögðum af stað í morgun.  Og ef ég hef þetta rétt vorum við í enda Einarsfjarðar.  Það rigndi ekki mikið og það var heitt.  Ég alltaf að fara úr eða í gúmmíklæðin.  Leiðin í dag var fallegt sveitahérað.  Bæir kúrandi um allar hlíðar beggja vegna fjarðarins og í dag vorum við um tíma í 680 metra hæð og það birti alltaf á milli skúra og við nutum útsýnisins.  Eftir Gapahuppið var hvergi að finna stað til að hvílast.  Við gengum og gengum til klukkan hálf þrjú og eftir þriggja tíma göngu birtist okkur norskur engill, Ole Johann að nafni.  Hann var fyrir utan einn sveitabæinn að vinna og við ákváðum að spyrja hvort við gætum fengið að tylla okkur á tröppurnar í 10 mínútur.  Það var mikið sjálfsagt.  Hann fór inn í bæinn, lét foreldra sína vita af okkur og pabbi hans sem líka heitir Ole kom með tvo stóla handa okkur.  Síðan birtist mamman, Berit, og vildi endilega að við kæmum inn í kaffi.  Nú vorum við sannarlega heppin.  Þeir sem þekkja mig vita vel að ég hef ekki mikið á móti sætum kökum og þarna fékk ég ósk mína uppfyllta - svo sannarlega.  Heimabakaða furstakakan bráðnaði upp í mér og ég fékk ljósrit af uppskriftinni sem er aldeilis frábært.  Þetta fólk var yndislegt og við sátum hjá þeim í eina klukkustund.  Það sem var svo krúttlegt við þetta var tölvan þeirra.  Pínulítil og í útliti eins og túbusjónvarp.  Ég missti mig alveg yfir þessu krútti en kunni samt ekki við að taka mynd af henni.  Við kvöddum þessi dásemdarhjón og son þeirra og nú fór að styttast í Holthegard. Hann var ekki langt frá Lena.  Lena er bær aðeins norðar, 22 km gengnir í dag.  Og frúin á Holthegard heitir Lena og tók hún aldeilis höfðinglega á móti okkur.  Hún lét okkur hafa hús með þremur svefnherbergjum, sturta fyrir hvern, eldhús, uppábúin rúm, kvöldmat og allt fyrir morgunmatinn líka.  Þvotturinn okkar beint í þvottavél og blásaraþurrka til að þurrka blautu skóna okkur - allt þetta fyrir 600 krónur - ekki stór upphæð finnst mér.  Þessi dagur var sá léttasti hingað til og fyrsta vikan að baki, hugsa sér 7 dagar liðnir.  Ég er svo glöð að geta þetta og litli íbúinn er ekkert að angra mig.  Og svo er það besta af öllu, það er að fá símtal frá öllum heima.  Það yljar pílagrímanum.  Rúnan öll að hressast af harðsperrum og vonandi á allt eftir að ganga vel áfram.  Dag í senn - það er mottóið.  Svanapar flaug yfir hjá okkur í dag og við fengum fallegan svanasöng á heiði - það toppar daginn.  Elska ykkur og sakna ykkar - hafið það sem best.  

"Því betur sem ég kynnist heiminum, því eldri verð ég"

 


15. júní - gamaldags rúm!

Rúmið var svona eins og lokrekkja en ekki með himnasæng.  Yndislegt rúm eins og ég svaf í þegar ég var barn í sveitinni hjá ömmu.  Þegar ég lagðist í rúmið sökk ég bara niður í mjúka dýnu og það var bara frábært.  En nú er 15. júní runninn upp og hann gefur mér ýmislegt.  Í fyrsta lagi svaf ég ekki vel í nótt því ein lítil fluga getur gert manni lífið leitt.  Og í öðru lagi var Morten ekki búinn að koma sér upp gardínum svo birtan varð líka til þess ég svaf ekki vel. En strákurinn bætti þetta upp með  góðum morgunverði og við kvöddum hann og kisu klukkan hálf níu.  Sól og logn í byrjun en nú fór ég í flísið því ég er dálítið sólbrunnin á handleggjunum, en það lagast allt.  Við gengum niður í bæinn Brandbu þar sem um 7 þúsund manns búa.  Nú þurfti að gera innkaup því kvöldmatur og morgunmatur verður víst í okkar höndum.  Leiðin til Brandbu lá niður á við, já já kom ekki á óvart.  Eftir verslunarferðina, sem setti mig nú ekki á höfuðið, hófst 15 km ganga upp, upp og það tók á.  Við stoppuðum eins og áður og nutum, dagurinn í gær og hluti af deginum í dag er Toscana Noregs enda hægt að gleyma sér við að horfa.  En það var bæði steypa og mjúkir stígar í dag og endalaus kyrrð.  Ég er bara mjög glöð þrátt fyrir að hver dagur taki á, þannig eflist þrjóskan og ég færist einum degi nær takmarkinu.  Ég hef átt góð samtöl við hinn ósýnilega ferðafélaga og hann stappar í mig stálinu, þess vegna get ég þetta.  So far so good.  Við komum á áfangastað klukkan hálf tvö - yndislegan stað í miðjum skógi og hann heitir Ástjörn.  Þessi staður er mitt á milli Brandbu og Lena.  Við þurftum reyndar að lækka hæðina ansi mikið en það var vel þess virði.  Þetta er vin í skóginum, margar hyttur, þjónustuhús og við fengum meira að segja aðgang að netinu.  Og svo skutlaðist hún Monika, forstöðukonan hér sem tók á móti okkur, í búðina fyrir okkur til að kaupa tvo bjóra.  Það er dagsskammturinn - alltaf.  Hún lét okkur vita af því að upp úr klukkan fimm kæmu hér blaðamenn og ljósmyndarar því von væri á forsætisráðherra Noregs og hún kæmi í þyrlu.  Og hér hópaðist að fólk úr öllum áttum og krakkahópar sem eru hér í sumarbúðum biðu spennt eftir þyrlunni.  Um sjöleytið birtist hér þessi flotta, glansandi, svarta þyrla, lenti um 100 metrum frá hyttunni okkar og út steig frúin.  Sportlega klædd spjallaði hún við fólkið hér, fékk sér kaffi og gekk um svæðið.  Hér voru líka bændur og dýraverndunarsinnar.  Í héruðunum í sveitinni hefur mikið gengið á því villiúlfur hefur verið að ráðast á kindur og lömb.  Bændur vilja að reynt verði að ná honum og aflífa en það vilja dýraverndunarsinnar ekki svo þetta er bara orðin pólitík.  Ja hérna hér og við Ger mitt í þessu öllu saman - spennandi.  Skemmtilegt  að sjá þetta allt saman og upplifa einstakan atburð í raun og veru.  Við göngufélagarnir elduðum okkur spaghetti með fínni sterkri sósu sem rann ljúflega niður.  Um níuleytið bankaði hér upp ung stúlka, Jane að nafni.  Hún vinnur á pílagrímaskrifstofu í Grönvollen og hafði frétt af okkur.  Hún bauð okkur að hringja til sín hvenær sem við vildum og tók mynd af okkur fyrir Grönvollen síðuna, já við Ger erum alltaf að sjá eitthvað nýtt á þessari göngu.  Ég sofnaði um tíuleytið og svaf mikið vel til morguns.  Pílagrímakonan í miðju ævintýri með Ernu forsætisráðherra.  

"Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast"

Hjartans kveðjur til ykkar allra frá pílagrímakonunni í Hyttunni sinni sem heitir Björk.


14. júní - fimmti dagur og sólin baðar okkur!

Vaknað í sól klukkan korter fyrir sjö eftir góðan svefn.  Tekið saman, borðaður morgunverður og við Ger héldum út í daginn klukkan 8:15 eftir að hafa kvatt Tune hina norsku.  Veðrið lék við okkur og í byrjun var það steyptur gangstígur og vegur sem beið okkar og nú var það bratt.  Já það var bratt aftur og aftur og ég hélt í vonina um að síðasta brekkan væri sú síðasta en svo var ekki, en "ein brekka í einu" það er mottóið þessa dagana.  Um hádegið fengum við okkur sæti á bekk við veginn, nærðumst og hvíldum okkur.  Það gerðum við líka tveimur klukkustundum áður en sætin sem við fengum okkur þá var steinveggur við hús eitt þar sem við gengum hjá.  Fiðrildi, fuglar, klingjandi kindur, hoppandi lömb og jórtrandi kýr urðu á vegi okkar og nutu sín í sólinni eins og við.  Við vorum heppin upp úr hádegi, þá komu góðu stígarnir - mjúkir fyrir þreytta fætur og það kunnum við að meta.  Um klukkan 14:30 komum við til Granavollen sem er fallegur staður og einstakur fyrir það að þar standa tvær kirkjur með nokkurra metra millibili.  Báðar kirkjurnar eru reistar á svipuðum tíma frá 1100-1150 - Nikolaikirkjan heldur íburðarmeiri heldur en Mariekirkjan.  Þarna vorum við í meira en klukkutíma og okkur Ger til mikillar gleði hittum við þar Thomas hinn svissnesska sem var á Gjestvold gard um leið og við.  Þarna urðu fagnaðarfundir.  Við Ger áttum eftir 4 km til staðarins þar sem við gistum.  Það er stórt hús frá 1650 og eigandinn er ungur maður trúlega milli fertugs og fimmtugs - ungur já.  Hann hefur verið að gera þetta mikla hús upp síðustu 24 árin og það er ekki hægt að lýsa þessu.  Það má segja að maður sé að ganga inn í hús frá 16-1700.  Þessi maður heitir Morten og hann eldaði handa okkur fínan lax og alls konar grænmeti um kvöldið. Við sátum síðan úti í sólinni og létum fara vel um okkur.  26 km í dag og samkvæmt mínum útreikningum höfum við gengið rúma 118 km til þessa.  Nú verður ljúft að leggjast á koddann í kvöld.

"Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast"

 Segi ykkur á morgun í hvernig rúmi ég svaf - aldeilis með ólíkindum.  Góða nótt elskurnar!


13. júní - fjórði dagur - búin að finna lausn á vatnsvandamálinu!!

Við yfirgáfum General hótel um hálf níu, sól og þessi kona kát.  Allt í góðu lagi og nú var fjórði dagurinn hafinn.  sólin skein, malbikið beið okkar en þegar líða tók á komu góðu stígarnir aftur og þó þeir væru blautir og á köflum forarsvað var ég fegin.  Á einu tré í skóginum hékk lítið fuglahús með pínulitlu opi.  Þar kíkti út agnarsmár ungi, gulur að lit og ég held að hann hafi gert þetta bara fyrir mig.  Hann var yndislega fallegur.  Við göngufélagarnir, ég og Ger, erum búin að finna það út að í öllum kirkjugörðum er hægt að ná í vatn.  Það hefur nefnilega ekki verið hlaupið að því að finna vatn á leiðinni enn sem komið er.  Á tveggja tíma fresti stoppum við, setjumst niður, skórnir losaðir af þreyttum og heitum fótum.  Þetta er gert á hverjum degi og jafnvel gengið berfætt um tún ef það er hægt.  Ég er ennþá íbúalaus (blöðrulaus), enginn hefur bankað upp á til að fá leigt hjá mér sem betur fer og ekki hefur flugnabitunum fjölgað en landslagið á höfðinu mínu er orðið dálítið skrítið.  Þar er allt í hólum og hæðum og einn og einn hóll sést líka á handleggjunum og eru þetta bitin eftir flugurnar.  Þær gáfu mér líka tvö stór kýli á sitthvort gagnaugað, þeim hefur greinilega litist vel á mig en ég kvarta ekki, þetta hefur bara sinn tíma.  Við komum til Jevnaker klukkan hálf þrjú eftir 6 tíma göngu svolítið upp og niður og stopp til að hvíla sig, 23 km að baki.  Ég hef sér herbergi með útsýni út á Randsfjörðinn.  Fengum okkur að borða á Tælenskum stað og ég var himinlifandi með matinn.  Fer alltaf snemma í rúmið - veitir ekki af hvíldinni.  

"Hver dagur þér færi gleði og gæfu

geislandi morgunsól

hver dagur þér færi farsæld og frið

fegurstu kvöldsól"

Góða nótt elskurnar, sakna ykkar og elska ykkur.

Pílagríminn á leið í rúmið. 


Alltaf fækkar í hópnum! Göngudagur þrjú

12. júní runninn upp.  Ég svaf eins og ljúft ungabarn og við fengum mjög góðan morgun mat hjá Christian og Haraldi klukkan hálf átta.  Sólin skein og nú voru það ég og Ger sem vorum orðin ein eftir.  Hanne fer allavega ekki lengra með okkur og við kvöddumst á þessum fallega stað og gangan okkar hófst klukkan 8:45.  Nú var ekki eins mikið upp og niður, leiðin lá meðfram Tyrifirði.  Fegurðin allt um kring, fallegir bóndabæir, grænmetisakrar og fólk við vinnu þar.  Stútungskonur sátu fáklæddar á litlum sláttuvélum og brunuðu fram og til baka um túnin við húsin sín.  Þetta eru ekki neinir smáblettir, þar sem smáblettir eru aka sjálfvirkar litlar sláttuvélar um lóðina.  Þá datt mér í hug tækin sem þeytast um gólfin hjá fólki og þrífa.  Við komum til Bosneskirkju en hún var lokuð.  Sagan segir að þar hafi pílagrímar komið við hér fyrrum.  Við Ger settumst niður við kirkjuna og hvíldum okkur og alltaf er jafn gott að fara úr skónum og viðra þreytta, sveitta fætur.  Áfram hélst sólin og útsýnið var ógleymanlegt, ekki hægt að lýsa því.  Fjörðurinn skartaði sínu fegursta fyrir okkur.  Við héldum aftur af stað og enn og aftur komum við að fallegri kirkju, Holekirkju, en hún var líka læst.  Við hana er fallegur kirkjugarður og nú var útigangskonan heppin því þarna gat ég fyllt á vatnsflöskuna mína.  Það er nefnilega dálítið erfitt að finna vatn á gönguleiðinni.  Ger hafði pantað gistingu fyrir okkur á General hótelinu.  Þetta hótel er aðeins úr leið en nú er ég bara í lúxus, fallegt hótel og herbergið mitt fínt.  Ég er algjör prinsessa í dag finnst mér.  Við komum hingað klukkan 13:45 og tæpir 20 km að baki.  Þá erum við komin undir 600 kílómetrana, búin að ganga tæpa 69 km af 650 - jibbí!!  Mér líður ágætlega en auðvitað tekur þetta á, sveittir fætur og flugubit en vonandi verð ég í lagi.  Mikið gott að vera komin í hús svona snemma, fara í sturtuna sína, þvo fötin sín og bara liggja í leti.  Við fengum okkur æðislega pizzu í kvöldmat og bjórinn rann ljúflega niður, fórum að sofa um níuleytið - að sjálfsögðu í sitthvoru herberginu!

Í lokin til ykkar heima sem ég sakna nú dálítið mikið - þetta er alltaf erfitt á kvöldin þegar ég fer að sofa: 

"Bros kostar minna en rafmagn en ber meiri birtu"

Pílagríminn að ganga sína þrautargöngu vægast sagt - en gaman.


11. júní - annar göngudagur

Svaf frábærlega vel, alveg frá níu til hálf sjö - alveg ótrúlega gott .  Í gær hringdi hinn þýski Mario og var ekki alveg á því að hætta göngunni.  Hann kom svo þangað sem við gistum á Sæteren Gard og Ger fór og talaði við hann.  Hann lét hann vita að þetta gengi alls ekki að hann héldi áfram með okkur.   Sá þýski lét undan en við vitum ekkert hvað verður hjá honum.  Við lögðum af stað frá Sæteren Gard klukkan níu næsta morgun og það var blautt, ekki mikil rigning og logn.  Ef þið viljið finna á kortinu þá er Sæteren Gard aðeins lengra en Haslum.  Við gengum á malarstígum til að byrja með, svo tóku við skógarstígar með grjóthellum, upp og niður í allan dag.  Hæst gengum við upp í 540 metra og það tók á.  Fyrst um morguninn gekk ég í stuttermabol því það var hlýtt , en um hálf tólf tók að rigna.  Er líða tók á daginn hætti alveg að dropa en það var smá blástur.  Þegar ég gekk í gegnum þéttan skóginn þeytti vindurinn stórum dropum  af trjánum og ég var svolitla stund að átta mig á að það var hætt að rigna.  Þetta kom allt af blöðum trjánna.  Mín svolítið lengi að kveikja á perunni. Leiðin þennan dag lá að mestu um þennan skóg.  Inn á milli voru bændabýli og rosalega flottir golfvellir.    Við stoppuðum á einum slíkum og fengum okkur kaffi og með því og maður minn! Þetta var besta kaffi "ever" og stór nýbakaður kanilsnúður með.  Þetta var ótrúlega gott og ég tvíefldist við það.

Á þessari leið í dag voru mörg upplýsingaskilti sem sögðu frá bæjum, brúm, stríðinu síðara og ýmsu öðru sem  hafði gerst hafði á  þessum slóðum .  

Við gengum mikið í þögn í dag og mér fannst það gott.  Hanne er þreytt enda 73 ára gömul og gengur miklu hægar en við.  Eftir alla skógargönguna komum við að Kleivstue, lítilli húsaþyrpingu með hóteli, og við hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að fá okkur að borða  en allt var lokað.  

Ég náði skemmtilegri mynd við Kleivstue hótelið en þar var rolla á beit með tvö lömb. Hún var ekkert að stressa sig yfir mér heldur hélt bara áfram að bíta sitt gras. Þegar hún hreyfði sig klingdi í bjöllu sem hún var með um hálsinn.  Þetta minnti mig á Jakobsveginn.

Frá Kleivstue héldum við niður stórt og mikið gil.  Ekki veit ég hversu langt það var niður en það var ótrúlega langt.  Ég held að þetta sé á einhverri verndarskrá.  Það var erfitt að ganga, mikið af sléttum hellum, og það fellur falleg á niður gilið.  

Þegar ég var rúmlega hálfnuð niður, hvað gerðist þá?  Sú gula lét sjá sig - dásamlegt.  Og hún skein á okkur það sem eftir lifði dags.  Við gengum gegnum Sundvallen og ekkert stoppað þar því nú styttist í gististað.  Þegar 1. km var eftir að gististaðnum hætti Hanne að ganga.  Við vorum komin svolítið á undan henni og stoppuðum.  Hún stóð bara á veginum og við veifuðu  næsta bíl, báðum bílstjórann að sækja Hanne og fara með hana á gististaðinn. Og það var sko ekkert mál.  Þegar við komum á þangað stuttu síðar var Hanne þar í góðu yfirlæti.  Við Ger vorum himinsæl að komast loksins á leiðarenda. Þessi gististaður heitir Gjestvold gard og þar býr norskur maður sem heitir Christian. Hann tók á móti okkur ásamt tveimur börnum sínum, þeim Haraldi og Ídu. Kona Christian var íslensk í móðurætt, en móðir hennar hafði komið til Noregs á húsmæðraskóla og hitt draumaprinsinn. Þarna bjuggu þau og nú býr Christian þarna en konan hans lést fyrir tveimur árum. 

Þessi litla fjölskylda dekraði við okkur pílagrímana. Það var allt fyrir okkur gert. Við Ger fengum sitt hvora hyttuna  og Hanne svaf í húsi sem áður var fjós.  Þar var betra fyrir hana að komast um. 

Við fengum fínan kvöldverð, bjór á undan, þvotturinn þveginn og þurrkaður. Þarna hittum við fyrsta pílagrímann á leið okkar. Hann heitir Tómas, er frá Sviss en nýr í Berlín. Hann hafði ekki heldur hitt neinn pílagrím fyrr en okkur. Það varð úr þegar leið á kvöldið að Hanne héldi ekki áfram með okkur. Alltaf fækkar í hópnum- hvar endar þetta????

Gjestvold gard var fyrrum bóndabýli og þar var búskapur til ársins 2012. Nú hefur fjósinu og haughúsinu verið breytt í stóra sali og eldhús og þar er allt til útleigu fyrir ýmis konar atburði. Allt svo fallega gert og smekklega. Við fórum snemma í rúmið enda þreytt eftir 27.km göngu. 

Á morgun er nýr dagur 

 

"leynilega uppskriftin að árangri er eldmóður"

Pílagrímakonan svo glöð að hafa hitt Íslendinga sem gátu talað íslensku.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband