Færsluflokkur: Ferðalög
1.7.2017 | 21:27
1.júlí - tuttugasti og annar dagur á göngu
Það var sól þegar ég vaknaði og góður dagur framundan, í gærkvöldi fóru 12 Pílagrímar í náttsöng í pínulitla guðshúsinu í Fokstugu. Þar var lesin náttsöngur, ekki sungin, lesin ritningarvers á fimm tungumálum og í lokin sungin Kyrie e Leyson. Og þetta var meira að segja raddaður söngur. Góð og notaleg stund og ég sofnaði fljótt og svaf vel til klukkan 6. Kláruðum morgunmatin og lögðum í hann klukkan 7, veðrið dásamlegt og leiðin í dag 20km var alveg meiriháttar góð.
Pínulitið upp í byrjun, síðan rölt um heiðarnar, mosi, mold, grjót og gras var undir fótum, margar mýrar en yfir þær mestu var búið að leggja planka af ýmsum stærðum og gerðum. Það var gott fyrir okkur Pílagrímana, gangan í dag er sú léttasta til þessa en næstu dagar verða erfiðari svo þetta í dag var kærkomið. Mýið hélt áfram að vera um allt en angraði mig ekki eins mikið því í morgun var flugnaeiturs aðgerð sem heppnaðist vel. En einhverjir grænir trjáormar voru hrifnir af buxunum mínum því þeir voru ansi margir sem fengu ókeypis flugferð til jarðar, þegar ég kom auga á þá.
Ég var þreytt þegar við komum til Hageseter Turisthytte klukkan eitt eftir sex klukkustunda göngu og mörg stopp. Það var mjög heitt og ég var eiginlega cooked eins og dagt er.
Nú var það einn ískaldur, sturtan, þvottur í vél og nú er setið út á verönd, kaffi og dísæt jarðarberjatertusneið æðislegt.
Hér er hestaleiga og þar eru eintómir íslenskir hestar og það var gaman að sjá þá koma í röðum með gestina að fara í reiðtúr.
Hvíldin er kærkomin og gott að láta sig dreyma um lokin, 11 dagar trúlega eftir, skiptum einum löngum og erfiðum degi í tvo daga. Og nú hrannast upp ský á himni og búið að spá vætu næstu daga, ég læt það ekki pirra mig, hef fengið 22 daga góða, aldeilis yndislega og þarf ekki að kvarta.
Við hittum mann frá Sviss sem heitir Daníel og hann er á svipuðum aldri og við og hann var að vandræðast hérna þegar við komum á gististaðinn að hann þyrfti að þvo fötin sín. Svo það var ákveðið að við myndum bara þrjú kaupa eina þvottavél og þurrkara og þvo allt saman, sem var og gert. Þvottavélin kláraðist og allt gekk vel, en þá kom babb í bátinn. Þurrkarinn virkaði ekki, alveg saman hvað við reyndum og gerðum og græjuðum ekkert gekk. Kona sem er einn af eigendunum hérna kom og hún reyndi að grauta í þessu og fann ekkert út úr þessu, svo við biðum bara og hún ætlaði að reyna að ná í viðgerðarmann. Svo fóru kallarnir Ger og Daníel inn í þvottahúsið og prófuðu aftur bíddu við, það gekk hjá strákunum klukkutíma þurrkur. Svo fengum við okkur að borða, ég fékk mér steiktan silung, alveg dásamlegur, ofboðslega góður. Svo sagðist Daníel ætla að fara að athuga með þurrkarann, svo var mig farið að lengja eftir honum og ég fór og athugaði með kallinn. Haldið ekki að vinurinn sé bara búin að taka allan þvottinn og brjóta allt saman, taka naríurnar, brjóstahaldarana og allann pakkann. Allt brotið saman fyrir okkur Ger. Ég hélt ég yrði ekki eldri, ég hló svo mikið. Þetta sýnir hvað Pílagrímarnir standa vel saman, ekkert er heilagt.
Jæja elsku þið öll, hafið það gott ég er alveg upptekin við það líka.
Sérhver stígur hefur sína polla
Pílagrímakonan þreytt í fótunum en þakklát fyrir dag í senn.
Ferðalög | Breytt 2.7.2017 kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.6.2017 | 23:15
30.júní - tuttugasti og fyrsti göngudagur - 3 vikur á göngu.
Það var svo heitt síðastliðna nótt í herberginu að ég ætlaði aldrei að sofna, en klukkan hálf sjö vaknaði ég svo eitthvað svaf ég. Sól en svalt í byrjun, komum við í búðinni í Dovre því næstu daga er víst ekki mikið um verslanir á leið okkar. Svo ætluðum við að skoða kirkjuna í Dovre en hún var lokuð. Alltaf leggst okkur eitthvað til mér og Ger, þegar við vorum að ganga frá kirkjunni stoppaði bíll hjá okkur og spurði hvort okkur langaði að skoða kirkjuna var svarið hjá okkur auðvitað já. Þessi maður var þá starfsmaður í kirkjunni, sagði okkur ýmislegt um hana og í lokin fengum við fínan stimpil í passann okkar.
Og nú var komið að því sem ég hafði kviðið fyrir, klífa upp nokkra kílómetra áleiðis upp á Dovre fjöllin. Mikið rosalega var þetta erfitt, hélt bara að ég gæti þetta ekki. En þá skaut ég á smá samtal við þann sem er alltaf með mér og þetta hafðist. Hægt og rólega mjakaðist ég upp þetta klifur og dýrðin að komast á næsta sléttan stíginn get ekki lýst því hvað ég var feginn.
Sólin skín og ég á stuttermabolnum, Ger alltaf í flís alla daga. Ótrúlegt að kallinn skuli ekki vera að kafna úr hita, ég er alveg í svitabaði. Það var góð tilfinning að sitja þarna í rúmlega 1200m hæð og njóta. Í fjarska snjór í fjöllum, lítil vötn um heiðarnar og þetta var eins og að vera uppi á heiði. Gúgú fuglinn lét í sér heyra og allt í einu heyrði ég Lóuna syngja yndislegt.
Það var heilmikil mýrarbleyta á niðurleiðinni, stiklaði yfir tvær grunnar ár og aðeins fékk ég þefinn af norskri jörð. Já ég datt kylliflöt framfyrir mig, sakaði ekki sem betur fer blæddi aðeins úr vör. Þarna var ég heppin enn einu sinni.
Það er mikill og fallegur lágvaxinn gróður á fjöllunum og fallegt að ganga niður allt þar til flugan lét sjá sig, þá var fjandinn laus.
En ökklinn var í lagi í dag og verður vonandi þannig áfram, nú sit ég hér í sólinni í Fokstugu og frúin hér á bænum sagði að þau fengju kannski svona tíu daga á ári sól og hita og ég er hér.
Nú fer Pílagrímunum fjölgandi, flestir eru þjóðverjar og enginn íslendingur ennþá nema ég. Gangan í dag var 21,5km og tók okkur 6klst með stoppum. Nú er ég farin að telja niður, 21 dagur kominn 10 til 12 eftir. Hvað ég hlakka til þegar síðasti dagurinn rennur upp, vona að mér takist að upplifa hann.
Það hljóta að vera dagur eða tveir í lífinu sem maður er á réttum aldri við það sem maður er að gera
Hafið það gott elskurnar og enn og aftur takk fyrir innlitin og hlýju kveðjurnar, ég er alveg að elska þetta,
Rúnan
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.6.2017 | 19:30
29.júní - tuttugasti göngudagur.
Fyrst langar mig að þakka öllum fyrir fallegu kveðjurnar og óskirnar, Sonja mín það er allt í lagi að þú dreifir út bloggunum mínum. Ekkert mál, til þess eru þau ef einhver hefur gaman af þeim þá er það fínt.
Í gærkvöldi fann ég fyrir þrýstingi við stóru tána á táberginu, frá íbúa (blöðru) í vinstri skónum. Þar var hann búinn að koma sér fyrir og ætlaði greinilega að setjast þar að. Nú hófust átök á milli okkar. Nál sótt sótthreinsuð - stungið á íbúanum og hann flutti út. Nú er bara að fylgjast með næstu daga hvort hann reyni húsbrot aftur, þetta er lítil saga af íbúa.
Ég svaf ekkert sérstaklega vel en hvíldist ágætlega, ökklinn er enn að stríða mér og ég vona bara og bið að ég geti klárað þessa 250km sem eftir eru því við gengum 20km í dag og á skiltinu í morgun stóð 270km til Niðaros.
Það gekk á ýmsu í morgun, við vissum að það yrði mikið um klifur og tókum því strætó í 10km en dagleiðin var 32km, þannig við styttum hana niður í 22km þetta var gott fyrir mig og ökklann minn. Við fórum úr strætó við Nord Sel kirkjuna, hún var læst. Þarna var stytta af Kristínu Lavransdóttur og sómdi hún sér vel þarna og gefur mér tilefni til að lesa bókina aftur.
Nú tóku við stígar dagsins, örmjóir hátt niður að líta áin iðandi fyrir neðan og á stöku stað var búið að setja girðingar okkur til halds og trausts. Þetta var mikið klifur, 3.5km af grjóti og sú klofstutta þurfti oft að taka vel á til þess að hafa það. Við vorum 1 klukkutíma og 15 mínútur að komast upp þessa 3.5km, þá komu ágætir mjúkir og þokkalega sléttir stígar í dágóða stund en svo tók aftur við hálftíma klifur.
Allt gekk þetta og á malarveginn komust við, sólin baðaði okkur á bak og brjóst og það var ansi heitt. Það var mikið drukkið í dag því vökvatapið streymdi niður andlitið í öllu púlinu og um klukkan hálf eitt komum við í Vollheim camping. Þar ætluðum við sko að ná okkur í kaffi, en það var lokað. Hittum á myndarlegan þjóðverja sem sat þarna og var að leika með börnunum sínum tveimur í risa sandkassa. Hann gaf sig á tal við okkur og bauð okkur í kaffi ekkert mál hjá honum fórum inn í flotta húsvagninn, konan hans kom með krílin sín og færði okkur ískalt vatn á meðan kaffið helltist uppá. Dásemdar kaffi og þarna undum við í rúman hálftíma, gott að komast loksins úr skóm og sokkum og láta grasið kitla iljarnar.
Þægileg ganga eftir veginum, ég vildi ekki ljúka göngunni í skógarpríli. Við komum í Engelshus gististaðinn klukkan þrjú og enn skein sólin. Þarna var gott að koma og móttökurnar yndislegar, heitt kaffi og vöfflur hjá þeim hjónum Hildrun og Magne. Þegar við komum að bænum þeirra stóðu þau í dyrunum og heilsuðu með brosi og þéttu handtaki. Ég settist í dúnmjúka stóla á veröndinni, nutum vöfflunnar og kaffisins og reyndum að gera okkur skiljanleg við frúna. Það gekk nú bara alveg þokkalega miðað við allt en þurfti mikið að hugsa mig um þegar ég svaraði eða spurði en allt reddaðist þetta.
Nú verður borðaður kvöldmatur í húsi hjónanna, þvotturinn var þveginn í þvottavél í fyrsta skipti á ferðalaginu ég naut þess sannarlega hengdi út og hann blaktir eins mamma mín hefði sagt, elsku mamma.
Á morgun fer ritarinn minn til London og ætlar að hlusta og sjá Adele með dætrum sínum svo ég verð að gera mitt besta og nú er það bara yngsti strákurinn minn sem tekur við. Ég er svo lánsöm að hafa börnin mín til að hjálpa mér með þetta, þannig að Davíð minn verður ritari næstu dagana.
Sendi ykkur góðar kveðjur og vona að þið hafið það jafn gott og ég, sólin umlykur mig allsstaðar.
Hamingjan felst í því að gleðjast, ekki eignast.
Hamingjusöm og færist nær og nær.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 19:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2017 | 12:02
28. júní - nítjándi göngudagur.
Fyrst er það ömmustrákurinn minn sem á afmæli í dag - elsku Kristófer minn, innilega til hamingju með 16 ára afmælið þitt og hafðu það sem best í Póllandi. Kær kveðja til þín og mömmu og pabba.
Jæja í gær efaðist ég um það hvort ég gæti haldið áfram. Dagurinn í gær var ótrúlega erfiður en í morgun leið mér betur og ég var full bjartsýni. Í litlu hyttunni númer fjögur var vaknað rúmlega 6 eftir 10 tíma svefn sem var sko vel þeginn.
Miklar umræður hjá okkur Ger í gær um daginn í dag. Þessi dagur er nefnilega, samkvæmt leiðsögubókinni, ekki léttari en sá í gær og sá dagur kallaði fram eymsli í hægri ökklanum mínum svo nú voru góð ráð dýr! Áttum við að ráðast í fjöllinn, taka sénsinn að allt yrði í lagi, taka strætó og sleppa þessum legg eða ganga legginn á veginum? Ger var búinn að finna leið eftir veginum og ég samþykkti hana.
Hún er 22 km, allt steyptur vegur, ekki mikið upp og niður og það var ekki mikil umferð. Hún lá með ánni, yfir brýr og ljúft að hlusta á árniðinn í bland við fuglasönginn. Svo komu traktorar á fullri ferð, bændur á fullu í heyskap og hundarnir geltu er við gengum hjá. Sólin skein í allan dag og það var ansi heitt. Mér leið bara ágætlega í ökklanum, var með gott teygjuband og ég verð bara að vona að þetta gangi hjá mér.
Við komum við í lítilli búð við bensínstöð, fengum okkur kaffi og sátum úti í tröllagarði. Þar er allt fullt af útskornum fígúrum í öllum stærðum og gaman að skoða þetta. Inn á milli tröllanna var útskorinn Elvis - skemmtilegt. Og enn halda myndirnar á póstkössunum áfram að gleðja mig. Í byrjun var Ger alveg hissa á mér að taka þessar myndir en hver er það í dag sem alltaf er fyrstur að kíkja á póstkassana, nema Ger. Hann er orðinn spenntur fyrir þessu og hefur gaman af.
Og í dag sáum við það sem við erum búin að bíða eftir, Dofre fjöllin blöstu við okkur í fyrsta sinn, allavega svona almennilega. Þarna vonast ég til að byrja á að klifra á föstudaginn og það skal ég segja ykkur að það gladdi mig að sjá loksins FJALL, ekki skógivaxnar hlíðar á báða vegu dalsins. Stundum þrengja þessi óendanlegu tré að mér og þá hugsa ég um víðáttuna heima og gleðst.
Nú erum við komin á Pensjon hér í Otta, uppábúin rúm og ég ætla út að borða í kvöld. Við gengum 23 km í dag, 22 tilheyrðu göngunni, hinn fór í að leita að gististað og kaupa bj..!
Og bara svo að fólkið mitt viti það þá er ég ALLTAF tilbúin á undan þeim hollenska. Hann er stundum ansi fyndinn, utan við sig, finnur ekki þetta og hitt og fer oft lengri leiðina að hinu og þessu. En mér er alveg sama því án hans væri ég ekki hér og þessi draumur minn væri ekki að rætast. Jæja elskurnar, nú er ég farin að telja niður. 19 dagar komnir og 13 eftir ef allt gengur vel. Þið hugsið til mín og þá hefst þetta.
"Hamingjan er þar sem þú finnur hana"
Rúnan, svo lánsöm og heppin.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.6.2017 | 11:33
27. júní - átjándi göngudagur
Vöknuðum á undan öllum hinum, drifið sig að borða og klukkan sjö klifrað beint upp! Ég var varla komin úr rúminu - úff hvað þetta var erfitt. Úr 300 metrum í 600 metra, niður í 500 og aftur upp í 600, niður í 300 upp í 450, niður í 350 upp í 500, smá niður og upp í 600 og loksins niður í 250 metra.
En dagurinn var sólardagur, kaldur vindur. Þegar við vorum uppi var kaldara en hlýtt þegar neðar dró, þetta gekk ágætlega en mikið rosalega reyndi þetta á fæturna og ég tala nú ekki um öndunarfærin. En ég reyndi að sjá eitthvað skemmtilegt og þegar við vorum komin í fyrstu hæstu hæðir þá blasti við þvílík fegurð. Áin liðaðist um dalinn, bæir kúrandi upp um öll fjöll, kindur og kýr á beit, klingjandi bjöllur sem fengu mig til að brosa. Heyskapur um allt, ilmur af nýslegnu grasi, þetta allt gerði mér gott og stoppin hjá okkur voru ekki mörg því hvergi var hægt að setjast niður nema á harðan steininn og það var ekkert sérlega notalegt.
Þá hófust heljarinnar slagsmál við mýið sem var mikið í dag. Við gengum fram á risastóra styttu af gíraffa á leiðinni niður, einhver hefur haft gaman af að búa hana til og setja þarna. Málaðir póstkassar glöddu mig, svo fallegar myndir á mörgum þeirra.
Þegar við loksins sáum til Kvam þar sem við ætlum að gista voru samt einir 5-6 km eftir. Við þurftum að ganga þessa kílómetra ofan við bæinn eiginlega, alveg í hálfhring og þetta ætlaði aldrei að enda. Steyptur bílvegur undir, ekki það vinsælasta hjá mér, sérstaklega ekki í lok erfiðs dags. Við komum kl tvö á hytte og tjaldsvæðið, yfir okkur glöð.
Fengum hyttu númer 4, tvær kojur og ég í efri. Það verður ljúft að sofna. 25 km í dag og nú á ég að vera hálfnuð. Sólin skín, þvotturinn þornaður, sturtan æði og maturinn líka. Á morgun kemur nýr dagur.
"Guð er vinur þagnarinnar, tré, blóm og gras vex í þögn. Sjáðu stjörnurnar, tunglið og sólina hvernig þau hreyfast í þögn".
Kær kveðja til ykkar
þreytt pílagrímakona sem efaðist um getu sína í kvöld.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2017 | 20:41
26. júní - sautjándi göngudagur!
Ég svaf bara ágætlega í nótt og við Ger vorum komin á fætur rúmlega 6 því nú þurftum við að deila eldhúsi með hinum göngugörpunum og því gott að vera fyrstur á fætur. Sólarlaust og ekki hátt hitastigið er við héldum af stað í átt til Ringebu bæjarins sem var tæplega 4 km í burtu. Fórum í innkaup þar og lögðum í hann rúmlega átta.
Flísið var notað í allan dag því það blés hressilega þegar leið á gönguna. Þetta var ganga frekar af léttara taginu fannst okkur, þó oft væri farið á milli nokkurra hæða. Mjúkir þurrir skógarstígar og við komum að stóru og djúpu gili með hörkufossi sem steyptist niður. Þetta fannst hollendingnum áhugavert, myndaði í allar áttir og selfí fyrir konuna. Þarna sátum við góða stund, nutum og nærðumst og hvíldum okkur.
Við komum loks um tólfleytið til Hundorp þar sem pílagrímacenter er og þar var okkur vel tekið. Rjúkandi gott kaffi, setið og spjallað og skórnir teknir af fótunum og hvílst í c.a. hálftíma. Puerto rico parið kom þangað líka og sat ennþá þegar við fórum og við komum að Sör Fron kirkjunni stuttu síðar. Hún er ótrúlegt mannvirki, stærsta kirkjan í Guðbrandsdalnum. Þarna áttum við góða stund, orgeltónar ómuðu og kertaljós loguðu og yljuðu hjartakorninu mínu.
Göngudagurinn farinn að styttast og allt í einu birtist dýrðin, mörg svört og brún hús af öllum stærðum og gerðum og í einni lítilli hyttu sef ég í kvöld. Það er eins og að ganga langt aftur í tímann að koma hér, pínulítið eldhús, tvö rúm upp að veggnum, ég hugsaði bara til fólksins í Sjálfstæðu fólki nema hér er þetta lúxus.
Það var ekki kveikt á rafmagnsofninum því hér er ekki bruðlað með rafmagn svo það var frekar kalt í húsinu þegar við komum. Hinir pílagrímarnir eru komnir og þeir fá ekki svona lúxus eins og við. Þeir fjórir sem einnig gista hér eru á svokölluðu Lofti sem er salur með mörgum rúmum en koma til okkar að elda. Ég er svo heppin að þurfa ekki að fara út til að elda eða gera eitthvað annað, bara get haldið mig hér í litlu hyttunni.
Í þessum hluta Guðbrandsdalsins sem við gengum í dag er mikið af sveitabæjum og húsum upp um allar hlíðar - miklu meira en þar sem við höfum verið að rölta áður. Nú er ég búin að fá það staðfest að á morgun þegar við komum í gistingu verðum við hálfnuð. Leiðinni virðist eitthvað hafa verið breytt og er því trúlega lengri en við eigum eftir að fá nokkra langa daga og vonandi gengur jafn vel og hingað til.
Auðvitað er ég þreytt í fótunum og finn svolítið til þegar líður á daginn og þá geri ég eins og ein góð kona sagði hér í den tid !!bara taka verk og vindeyðandi - þá lagast allt!! hahaha.
Í dag þurfti ég að nota salerni á einum stað og spurði eina norska konu hvað "salerni" væri á norsku og hún sagði: "toilet" eða "vesen" - mér fannst þetta með "vesenið" alveg frábært. Jæja góður dagur í dag, sólin skín núna þegar hún er 16:30 hjá mér og 14:30 heima.
Takk elsku þið öll sem sendir mér góðar óskir og kveðjur, líka takk til ykkar sem kíkið á bloggið mitt og eruð nafnlaus, gleðst líka yfir því að þið gefið ykkur tíma til að lesa bullið mitt. Hjartans kveðjur heim til ykkar.
"það styrkir sálina að erfiða og amstra, einnig að svitna og hrjóta í svefnskála pílagríma"
Rúna, glöð og kát þegar allt hefur gengið svona vel er ég þakklát.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.6.2017 | 19:50
25. júní - dagur sextán í göngu
Við vöknuðum snemma þennan sunnudagsmorgun. Þokuslæður í hlíðum fjalla, logn og sól komin en bara 5 gráðu hiti. Lögðum í hann klukkan hálf átta og gengum bílveginn upp og niður en það var rétt í byrjun. Yndislegt útsýni eins og áður. Stoppuðum eftir einn og hálfan tíma, smá hvíld og vatn að drekka, ef það gleymist er ég í vondum málum, og svo var súkkulaði í lokin af því að það er sunnudagur.
Um hádegi var okkur farið að langa í kaffi. Komum til bæjarins Favang, þar var bakarí og veitingastaður en allt lokað, sunnudagur, en við björguðum okkur. Í hverjum bæ er nú oftast bensínstöð og þarna var ein. Kaffi og súkkulaðimöffins með stórum súkkulaðibitum smakkaðist guðdómlega og þetta má því það er sunnudagur eins og ég sagði hér fyrr.
Þurrt og fínt allt þar til þrír kílómetrar voru eftir, þá kom smá rigning. Ger smellti upp regnhlífinni og ég í úlpuna en ekki varð mikið úr þessu, smá sýnishorn. Þessi ganga var bara fín í dag en alltaf upp og niður en núna var oft flatt á milli og þá næ ég andanum áður en næsta hæð birtist.
Komum til Ringebu kirkjunnar en turninn á henni sést langt að. Þessi kirkja er eina stafkirkjan á þessari leið. Ótrúlegt mannvirki, svo stór og mikil að utan en einhvern veginn ótrúlega lítil að innan. Mjög falleg og gaman að koma þarna. 100 metrum fyrir neðan kirkjuna var gististaðurinn okkar Gildesvollen. Þar búa norskur maður og hollensk kona hans. Þau eru með býflugnarækt og tréútskurð. Mikið af fallegum hlutum en hér fljúga býflugur um allt og ég ekkert spennt fyrir þeim!!
Þar sem Ger var búinn að panta gistingu fyrir okkur hér fengum við bestu herbergin og kannski líka af því að hann er samlandi konunnar. Sturtan fín, bjórinn líka og hér í húsinu er par frá Puerto Rico sem er búið að sofa síðan við komum klukkan eitt og voru að vakna núna klukkan sex. Væntanlegir eru tveir þjóðverjar.
Hér er gott að vera og allt til alls, komin í hús klukkan eitt og 22 km að baki í dag. Ég held að við séum u.þ.b hálfnuð með gönguna núna, 325 km komnir, en inni í þeim eru útúrdúrar sem við höfum tekið svo það er kannski ekki alveg að marka. Sólin skín úti og við hvílumst vel af því að við komum svona snemma - það er svo gott.
"snúðu andlitinu í átt til sólarinnar og þá sérðu ekki skuggana"
Það er gaman að vera pílagrími þegar vel gengur.
Kær kveðja
Ferðalög | Breytt 26.6.2017 kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.6.2017 | 19:33
24. júní - fimmtándi göngudagur.
Fyrst er það afmæliskveðja til elsku ömmustelpunnar minnar hennar Lísu Ránar. Elsku hjartans Lísa mín, amma sendir þér innilegar hamingjuóskir með 23 ára afmælið og vonar að þú eigir góðan og gleðilegan dag. Knús og kossar frá ömmu á Ólafsvegi í Noregi.
Ég svaf réttlátum svefni til klukkan sjö. Búist af stað klukkan 8:30. Það var þoka yfir dalnum þegar ég vaknaði og hafði rignt vel um nóttina. Gúmmígallinn notaður en engin þörf á úlpunni þegar líða tók á daginn og fór hún því aftur í pokann.
Fyrst gengum við á litlum og stuttum skógarstígum og á milli komu malarvegir. Svo ákváðum við að ganga veginn til næsta gististaðar Mageli sem er sumardvalarstaður fyrir hjólhýsi, útleiga á hyttum og tjaldsvæði. Þetta voru 18 kílómetrar. Staðurinn er alveg niður við ána Lagen þannig að lækkunin í dag voru rúmir 600 metrar. Það var gott að ganga og þurfa ekki að fara inn í skógana því við vissum að þar væri allt blautt og drulla meira og minna. Fórum við léttari leiðina, þó þurftum við að klífa upp tvisvar ansi hátt áður en haldið var niður að ánni.
Það var gaman að ganga, veðrið lék við okkur eftir að þokunni létti og við bara ótrúlega hress eftir erfiðið í gær. Um tíuleytið gengum við fram á tvo sofandi ferðalanga í Gapahuk. Þetta er opið rými en gott skjól þegar þess er þörf. Ger bauð góðan daginn og upp úr svefnpokaopunum kíktu tvö syfjuð andlit. Þeir voru þreyttir strákarnir, höfðu lítið sofið nóttina áður en ekki veit ég á hvaða ferðalagi þeir voru, sögðust vera norskir og með það kvöddumst við.
Um eittleytið komum við á áfangastað, Mageli svæðið. Sólin skein yfir um og allt um kring. Við vorum glöð að eiga langa hvíld fyrir höndum, náðum í lykil að Grandbu hyttunni, og þetta var algjört dúkkuhús. Ekkert vatn eða klósett en ljós og hiti, fjórar kojur og eldavél með fjórum hellum. Bara gaman. Og svo borguðum við sitthvorar 10 krónurnar norskar fyrir 6 mínútna sturtu og þær voru þess virði. Fötin þvegin, hengd á verandarhandriðið því sólin skein og það var smá vindur. En um hálf fjögurleytið gránaði himinn yfir okkar byggð, allt tekið inn og nú skall á úrhellisrigning. Alveg ótrúlegt hvað við höfum sloppið vel!
Klukkan hálf fimm rignir og gengur á með heljarinnar þrumum. Það er stafalogn og hlýtt inni hjá okkur og þá er allt í lagi. Það var gaman hjá mér að fá hringingu að heiman, gott að spjalla. Mér finnst eins og ég sé búin að vera margar vikur í burtu en þetta styttist með hverjum deginum og við gætum jafnvel náð því á morgun eftir gönguna að vera hálfnuð.
Á leiðinni hingað gengum við ofan við bæinn Tretten sem er lítill bær hinum megin við ána og því komum við ekki þar við. Það er yfirleitt ekki í boði að taka útúrdúra eða stoppa lengi því hver klukkustund í hvíld og auðvitað matseld er dýrmæt. Ég hlakka til að komast á einhvern stað til að borða MAT hahaha þá verður sko gaman!
Fæturnir eru ágætir, fá klapp í lok dags og ég held bara að það verði dekrað við þá í lokin. Jæja þessi dagur í göngu var fljótur að líða. Dalurinn, fjöllin, áin, sveitabæirnir, ilmurinn af túnunum, allt gefur þetta og gleður mig.
"það er auðvelt að segja nokkur hlýleg orð en bergmál þeirra er svo sannarlega endalaust"
Pílagrímakonan í þrumum og rigningu
Ferðalög | Breytt 26.6.2017 kl. 04:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2017 | 13:25
23. júní. 14 göngudagur. Langur var hann.
Á fætur kl.6.30 því það var langur og erfiður dagur framundan. Lögðum af stað klukkutíma síðar en ég svaf illa um nóttina. Mér leið ekki vel þar sem við gistum og e.t.v. hef ég hugsað of mikið.
En þetta er liðið og næsti gististaður verður æði. Við byrjuðum daginn í logni en engin sól - frábært gönguveður. Dagurinn leit svona út. Hækkun-lækkun-hækkun-lækkun og þetta tók á. Ekki veit ég hversu mörgum sinnum þetta gekk svona og vil ekki vita það. Þetta varð 25 km. ganga og stóð í 7.5 klst.með stoppum.
Við vissum hvað biði okkar og þökkuðum fyrir hvað veðrið var gott. Í byrjun var þetta ekkert erfitt, ekki snarbratt og fínir stíga og götur.
Ekki fundum við kirkjugarð til þess að hvíla okkur en settumst á lúinn og gamlan bekk sem þjónaði hlutverki sínu vel.Þarna sátum við og horfðum til baka og yfir Faberg-lítinn bæ utan við Lillehammer.
Það fækkaði bílunum því nú tók sveitin við og Guðbrandsdalurinn fallegi. Og það var ekki svo erfitt að fikra sig upp í hlíðarnar með útsýni yfir þann hluta dalsins sem við höfðum í Panorama, var aldeilis stórkostlegt.
Stór og mikil á sem ég held að heiti Lagen liðaðist í fallegum hlykkjum langt fyrir neðan okkur, jarðgöng sáust í fjarska og fyrir ofan höfuð okkar voru svona kláfar sem flytja fólk upp í hæstu hæðir. Ekki fyrir mig takk, ég er of lofthrædd til að njóta þess.
Það var mikið af flugu í fyrstu í skóginum, þá var eitrið tekið upp og spreyjað eins og enginn væri morgundagurinn og ég fékk frið.
Og þið getið bara ekki trúað því hversu heppin ég var í dag.
Á leiðinni okkar í dag vissi ég af örmjóum stígum sem lágu meðfram snarbröttum skógarhlíðum og við þessu var varað í leiðsögubókinni. Það varð að láta sig hafa það, stafirnir mínir góðu teknir fram og mín leit bara ekki niður til hliðar, gengið varlega skref fyrir skref, haldið svo fast um stafina að hnúarnir hvítnuðu og ég þakkaði ferðafélaganum mínum góða sem alltaf styður mig - þakkaði að það var ekki rigning. Þá hefði þetta litið verr út, blóðþrýstingurinn hefði snarhækkað og hjartslátturinn upp úr öllu valdi ef ég þekki mig rétt.
En ég er heppin og allt gekk þetta vel og við Ger vorum bæði fegin í lokin.
Á leiðinni okkar í dag gengum við fram á skilti sem á stóð Kærlighetsfossen og ég held að þessi foss falli í á sem heitir Sagáa. Það tók okkur c.a. 5 mínútur að ganga upp að fossinum og það var gaman að fylgjast með Ger taka "selfívideo" og senda konunni sinni, krúttlegur kallinn og hugsar hlýlega til konunnar sinnar.
Þó að þetta hafi verið aðeins úr leið hefði ég ekki viljað sleppa þessu. Og annað sem vakti athygli mína en það voru maurar í hundraða tali sem sýndu okkur byggingalist sína, fallega kúlu á stærð við hálfan fótbolta og kúlan iðaði af lífi. Ótrúlegt að sjá hvað þessi litlu dýr geta áorkað!
Þegar líða tók á daginn varð gangan erfiðari, stígarnir lágu í gegnum heilu engin af Kerfli, illgreisi sem hér er mikið af, og þetta fór að taka sinn toll á fæturna. Síðustu tólf kílómetrana af leiðinni var að mestu alltaf upp og jeminn hvað ég var þreytt. Við enduðum loks í 620 metra hæð eftir að hafa dröslast yfir prílur, upp stíga,inn í hávaxið gras of þá komu dropar úr lofti, ekki mikið,en loksins kom skiltið Skaden gard 0.6 km. Þó að 600 m sé ekki mikið svona yfir það heila þá voru þeir ansi langir þarna en þetta hafðist. Við enduðum í 620 metra hæð.
Við Ger vorum mjög þreytt eftir 25 km og klukkan var rúmlega þrjú þegar við náðum í gististaðinn. Við erum á annarri hæð, allt sér og fallegt og hreint og hvað skyldi nú verða í matinn? Þið megið giska hahaha. Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir þá fór að rigna af krafti, allt í lagi með það, og núna klukkan sex er komin þoka yfir dalinn. Nú er bara að vona að það létti til, annars er það gúmmígallinn.
Eitt sem ég hef tekið eftir af þessum göngudögum, ég hef séð Lúpínu með vegum og í görðum en hún virðist ekki dreifa úr sér eins og heima. Ég hef verið að velta þessu fyrir mér, kannski nær hún sér ekki upp af því það er allsstaðar gróður. Það væri gaman að vita hvað þið haldið um þetta.
Og svona til að enda þetta á léttum nótum þá sef ég í nótt í svo krúttlegu eldgömlu rúmi, ég virðist hreinlega laðast að því gamla. Ég hlakka til að leggjast á koddann, þarf þess svo sannarlega núna að hvílast vel því það eru fleiri upp og niður daga.
"Ekki flýta þér. Láttu ekki undan því áreiti sem á vegi þínum verður og vekur streitu, hávaða og óðagot. Láttu goluna leiða þig áfram veginn"
Góða nótt og ég þakka fyrir allar kveðjurnar og hvatningarnar frá ykkur hér á blogginu!
Hugsa til ykkar og sakna ykkar - þreyttur pílagrími!
Ferðalög | Breytt 25.6.2017 kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.6.2017 | 23:45
22. júní - þrettándi göngudagurinn
Góður nætursvefn á Johannesar gard og dagurinn heilsaði sólarlaus í logni. Eins og venjulega var byrjað á næringu, pakkað og lagt af stað klukkan átta. Þetta var góður göngudagur, ekkert mikið svitnað eða staðið á öndinni. Lítið erfiði semsagt. Við gengum niður í langan tíma, langleiðina niður að Mjosevatni, og eftir tveggja klukkustunda göngu vorum við farin að skima eftir bekk til að setjast á en enginn var bekkurinn.
Við gengum framhjá litlu fallegu húsi sem stóð c.a. 50-60m neðan við veginn. Þar sátu kona og maður úti á bekk, hmmm þetta var of freistandi til þess að sleppa því. Við röltum til þeirra, heilsuðum og spurðum hvort við mættum tylla okkur um stund. Alveg sjálfsagt sagði kallinn og þar með var hann rokinn. Konan sem heitir Mille og er áttræð talaði bara norsku svo nú þurfti ég að gera mitt besta til að spjalla við hana og merkilegt nokk, þetta gekk bara vel.
Hún færði okkur kók og glös út á veröndina og sat svo á sínum stól og reykti. Hvarf stutta stund inn og þegar við vorum búin að drekka kókið tók ég glösin og kókið sem eftir var og færði henni inn í dyrnar. Þá var sú gamla búin að varalita sig og vildi endilega sýna mér fallega litla húsið sem var mikið fínt allt saman. Og í lokin fékk ég að smella af henni mynd. Þetta var góð stund með henni og svo vinkuðum við hvorri annarri þangað til við vorum komin í hvarf.
Nú fór að styttast verulega til Lillehammer og skíðastökkpallurinn frá Ólympíuleikunum sást langar leiðir. Við stoppuðum næst við Söre Al kirkjuna, borðuðum okkar hádegismat, fórum úr skóm og nutum. Með stuttu millibili komu til okkar tveir eldri menn. Þeir voru að fara í kirkjugarðinn og vildu spjalla við okkur. Hvaðan við værum að koma, hvert við værum að fara, hvað við vorum búin að vera lengi og hvað við ætluðum að vera lengi. Og alltaf koma hlýjar og góðar óskir í lokin - "God tur".
Til Lillehammer komum við um eittleytið, fórum á göngugötuna, settumst á kaffihús úti og fengum okkur kaffi. Mikið líf á göngugötunni, fullt af fólki og gaman að njóta. Gistingin hjá okkur í dag er í gömlu húsi og er hún sú lélegasta hingað til en ég verð bara að taka því, enda búin að vera heppin. Sturtan, þvotturinn og bjórinn - í þessari röð - allt í röð og reglu hér.
Á meðan Ger sat við ipadinn sinn fór ég í smá göngu um bæinn, get nú varla sagt að ég hafi gengið um bæinn, fór hérna smá hring. Ég verð bara að koma hingað seinna og njóta og skoða. Eftir matinn sátum við og spjölluðum um næstu daga, við erum búin að panta gistingu fyrir næstu fjóra daga, og klukkan níu var farið í rúmið. 15 km í dag - þetta styttist elskurnar og ég vona bara að allt haldi áfram að ganga vel.
"Lífið er lexía sem maður verður að upplifa til þess að skilja"
Sól í hjarta og sól í sinni hjá konunni.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)