30.júní - tuttugasti og fyrsti göngudagur - 3 vikur á göngu.

Það var svo heitt síðastliðna nótt í herberginu að ég ætlaði aldrei að sofna, en klukkan hálf sjö vaknaði ég svo eitthvað svaf ég. Sól en svalt í byrjun, komum við í búðinni í Dovre því næstu daga er víst ekki mikið um verslanir á leið okkar. Svo ætluðum við að skoða kirkjuna í Dovre en hún var lokuð. Alltaf leggst okkur eitthvað til mér og Ger, þegar við vorum að ganga frá kirkjunni stoppaði bíll hjá okkur og spurði hvort okkur langaði að skoða kirkjuna – var svarið hjá okkur auðvitað já. Þessi maður var þá starfsmaður í kirkjunni, sagði okkur ýmislegt um hana og í lokin fengum við fínan stimpil í passann okkar.

Og nú var komið að því sem ég hafði kviðið fyrir, klífa upp nokkra kílómetra áleiðis upp á Dovre fjöllin. Mikið rosalega var þetta erfitt, hélt bara að ég gæti þetta ekki. En þá skaut ég á smá samtal við þann sem er alltaf með mér og þetta hafðist. Hægt og rólega mjakaðist ég upp þetta klifur og dýrðin að komast á næsta sléttan stíginn – get ekki lýst því hvað ég var feginn.

Sólin skín og ég á stuttermabolnum, Ger alltaf í flís alla daga. Ótrúlegt að kallinn skuli ekki vera að kafna úr hita, ég er alveg í svitabaði. Það var góð tilfinning að sitja þarna í rúmlega 1200m hæð og njóta. Í fjarska snjór í fjöllum, lítil vötn um heiðarnar og þetta var eins og að vera uppi á heiði. Gúgú fuglinn lét í sér heyra og allt í einu heyrði ég Lóuna syngja – yndislegt.

Það var heilmikil mýrarbleyta á niðurleiðinni, stiklaði yfir tvær grunnar ár og aðeins fékk ég þefinn af norskri jörð. Já ég datt kylliflöt framfyrir mig, sakaði ekki sem betur fer – blæddi aðeins úr vör. Þarna var ég heppin enn einu sinni.

Það er mikill og fallegur lágvaxinn gróður á fjöllunum og fallegt að ganga niður allt þar til flugan lét sjá sig, þá var fjandinn laus.

En ökklinn var í lagi í dag og verður vonandi þannig áfram, nú sit ég hér í sólinni í Fokstugu og frúin hér á bænum sagði að þau fengju kannski svona tíu daga á ári – sól og hita – og ég er hér.

Nú fer Pílagrímunum fjölgandi, flestir eru þjóðverjar og enginn íslendingur ennþá nema ég. Gangan í dag var 21,5km og tók okkur 6klst með stoppum. Nú er ég farin að telja niður, 21 dagur kominn – 10 til 12 eftir. Hvað ég hlakka til þegar síðasti dagurinn rennur upp, vona að mér takist að upplifa hann.

 

“Það hljóta að vera dagur eða tveir í lífinu sem maður er á réttum aldri við það sem maður er að gera “

 

Hafið það gott elskurnar og enn og aftur takk fyrir innlitin og hlýju kveðjurnar, ég er alveg að elska þetta,

 

Rúnan


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott að heyra í þér í dag mamma mín - hvert spor færir þig nær lokadeginum og áfangastaðnum - haltu áfram að ganga jákvæð og á guðs vegum. Elska þig og skal glaður rita hugrenningar þínar hér inn. Kveðja frá Svönu og guttunum.

Davið Harðarson (IP-tala skráð) 1.7.2017 kl. 01:13

2 identicon

Sæl

Takk fyrir skilaboðin, vefdagbækur þínar gleðja örugglega marga og koma ekki síður til gagns og ánægju, og vekja vondandi áhuga fleiri Íslendinga á að ganga þessar slóðir sem þú hefur gengið. Eftir lestur þessara fallegu lýsinga hjá þér þá klæjar mig í fæturnar um að komast af stað í mína fyrstu pílagrímaferð sem vonandi verður á næstu árum.  

Vonandi gengur ykkur vel áfram, ég hef algjörlega trú á að þið klárið þetta bæði með hjálp ósýnilega ferðafélagans og með staðfestu ykkar. Greinilegt að þið eruð að takast á við mjög erfiðar sðstæður á köflum og takið þeim af skynsemi og áræðni.  Hlakka til að lesa meira næstu daga.      

Sonja (IP-tala skráð) 1.7.2017 kl. 11:09

3 identicon

Takk enn og aftur frænka mín fyrir að deila þessu ferðalagi með okkur 😉 Gangi þér/ykkur bel ❤

Sigþrúður frænka (IP-tala skráð) 1.7.2017 kl. 16:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband