29.júní - tuttugasti göngudagur.

Fyrst langar mig að þakka öllum fyrir fallegu kveðjurnar og óskirnar, Sonja mín það er allt í lagi að þú dreifir út bloggunum mínum. Ekkert mál, til þess eru þau ef einhver hefur gaman af þeim þá er það fínt.

Í gærkvöldi fann ég fyrir þrýstingi við stóru tána á táberginu, frá íbúa (blöðru) í vinstri skónum. Þar var hann búinn að koma sér fyrir og ætlaði greinilega að setjast þar að. Nú hófust átök á milli okkar. Nál sótt – sótthreinsuð - stungið á íbúanum og hann flutti út. Nú er bara að fylgjast með næstu daga hvort hann reyni húsbrot aftur, þetta er lítil saga af íbúa.

Ég svaf ekkert sérstaklega vel en hvíldist ágætlega, ökklinn er enn að stríða mér og ég vona bara og bið að ég geti klárað þessa 250km sem eftir eru því við gengum 20km í dag og á skiltinu í morgun stóð 270km til Niðaros.

Það gekk á ýmsu í morgun, við vissum að það yrði mikið um klifur og tókum því strætó í 10km en dagleiðin var 32km, þannig við styttum hana niður í 22km – þetta var gott fyrir mig og ökklann minn. Við fórum úr strætó við Nord Sel kirkjuna, hún var læst. Þarna var stytta af Kristínu Lavransdóttur og sómdi hún sér vel þarna og gefur mér tilefni til að lesa bókina aftur.

Nú tóku við stígar dagsins, örmjóir – hátt niður að líta – áin iðandi fyrir neðan og á stöku stað var búið að setja girðingar okkur til halds og trausts. Þetta var mikið klifur, 3.5km af grjóti og sú klofstutta þurfti oft að taka vel á til þess að hafa það. Við vorum 1 klukkutíma og 15 mínútur að komast upp þessa 3.5km, þá komu ágætir – mjúkir og þokkalega sléttir stígar í dágóða stund en svo tók aftur við hálftíma klifur.

Allt gekk þetta og á malarveginn komust við, sólin baðaði okkur á bak og brjóst og það var ansi heitt. Það var mikið drukkið í dag því vökvatapið streymdi niður andlitið í öllu púlinu og um klukkan hálf eitt komum við í Vollheim camping. Þar ætluðum við sko að ná okkur í kaffi, en það var lokað. Hittum á myndarlegan þjóðverja sem sat þarna og var að leika með börnunum sínum tveimur í risa sandkassa. Hann gaf sig á tal við okkur og bauð okkur í kaffi – ekkert mál hjá honum – fórum inn í flotta húsvagninn, konan hans kom með krílin sín og færði okkur ískalt vatn á meðan kaffið helltist uppá. Dásemdar kaffi og þarna undum við í rúman hálftíma, gott að komast loksins úr skóm og sokkum og láta grasið kitla iljarnar.

Þægileg ganga eftir veginum, ég vildi ekki ljúka göngunni í skógarpríli. Við komum í Engelshus gististaðinn klukkan þrjú og enn skein sólin. Þarna var gott að koma og móttökurnar yndislegar, heitt kaffi og vöfflur hjá þeim hjónum Hildrun og Magne. Þegar við komum að bænum þeirra stóðu þau í dyrunum og heilsuðu með brosi og þéttu handtaki. Ég settist í dúnmjúka stóla á veröndinni, nutum vöfflunnar og kaffisins og reyndum að gera okkur skiljanleg við frúna. Það gekk nú bara alveg þokkalega miðað við allt en þurfti mikið að hugsa mig um þegar ég svaraði eða spurði – en allt reddaðist þetta.

Nú verður borðaður kvöldmatur í húsi hjónanna, þvotturinn var þveginn í þvottavél í fyrsta skipti á ferðalaginu – ég naut þess sannarlega – hengdi út og hann blaktir eins mamma mín hefði sagt, elsku mamma.

Á morgun fer ritarinn minn til London og ætlar að hlusta og sjá Adele með dætrum sínum svo ég verð að gera mitt besta og nú er það bara yngsti strákurinn minn sem tekur við. Ég er svo lánsöm að hafa börnin mín til að hjálpa mér með þetta, þannig að Davíð minn verður ritari næstu dagana.

Sendi ykkur góðar kveðjur og vona að þið hafið það jafn gott og ég, sólin umlykur mig allsstaðar.

 

“Hamingjan felst í því að gleðjast, ekki eignast.”

 

Hamingjusöm og færist nær og nær.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband