Færsluflokkur: Ferðalög

11. júlí - þrítugasti og annar göngudagur!

Jæja, upp er runninn síðasti göngudagurinn og það hellirigndi þegar við fórum á fætur klukkan sjö.  En það þýddi ekki að kvarta, það myndi engu breyta.  

Við fengum fínan morgunmat hjá Karin og John klukkan átta og hálfníu skelltum við okkur í gúmmígallana og héldum út í rigninguna.  En viti menn, það stytti upp eiginlega um leið og við vorum farin að hita okkur upp með hressilegum gönguhraða.  

Það kom mér á óvart hvað margar brekkur biðu okkar þennan daginn en allt hafðist það og veðrið var fínt.  Við stoppuðum við fallegt vatn til að borða síðasta nestið okkar.  Gott að sitja, spjalla, horfa á endurnar synda hjá,  lítil lömb kúrandi hjá mömmum sínum - ekkert að láta okkur raska ró sinni.  

Uppi á einni hæðinni blasti svo við okkur lokatakmarkið - Niðarós.  Þvílík gleði, þó enn væru margir kílómetrar og klukkutímar eftir.  Við vorum eitt gleðibros og létt voru sporin sem  að mestu lágu núna niður á við.  Þegar við komum að Niðaróssdómkirkjunni rétt um klukkan eitt þá bara báru tilfinningarnar þessa konu ofurliði.  Hún grét og félagarnir tóku utan um hana - við vorum öll yfir okkur sæl og hamingjusöm.  Svo voru teknar myndir, hlegið, grátið, faðmast, bara allt sem gerist þegar markmiði eins og þessu er náð.  

Þá tók við að fara á pílagrímaskrifstofuna og fá stimpilinn, aflátsbréfið, tylla títuprjóni á Ísland á kortið á veggnum hjá þeim, sá fyrsti allavega á þessu ári. Konurnar á skrifstofunni voru alveg undrandi á að við þrjú værum að koma alla leiðina frá Osló gangandi.  Það væri gaman að vita eitthvað um þá Íslendinga sem hafa gengið þessa leið áður frá Osló til Þrándheims.  

Ger og Daníel fengu sér herbergi í pílagrímaalberginu en mín fór á hótel - dekrað við þessa konu.  Fínt að koma í dásemdarrúm og gott að hugsa til þess að þurfa ekki að fara í gönguskóna í fyrramálið, bara njóta lífsins með sínum.  

Klukkan sex hittumst við pílagrímarnir sem lukum göngu í dag í stund sem var haldið fyrir okkur í Dómkirkjunni.  Þar voru lesin upp heimalönd okkar og litla Íslandsnafnið lesið upp á meðal hinna og hljómaði fallega og ég yfir mig stolt.           Í lokin fórum við og borðuðum saman fína steik með fínu meðlæti og einn kaldur fylgdi með. Besti minn kom og var með okkur og göngufélögum mínum fannst gaman að hitta hann.

Þá var komið að  kveðjustundinni - ekki sagt bless heldur sjáumst síðar.  32 ótrúlegir dagar liðnir og nýr dagur á morgun.  

Ég er óendanlega þakklát.  Takk fjölskyldan mín fyrir að hafa trú á mér og hvetja mig.  Takk minn besti fyrir að vera þú. Takk þið öll sem hafið skrifað á bloggið mitt allt til þess að gleðja mig og líka þið sem lituð þar inn, allt er það mér dýrmætt. Takk fyrir frábæra göngufélaga, Ger og Daníel. Án Gers hefði ég ekki gert þetta og það var gaman að fá Daníel í hópinn síðustu dagana.  Og að síðustu, takk Guð fyrir að gefa mér heilsu, góða ferðafélaga, gott veður og að vera alltaf með mér.

"Í augum alls heimsins ertu ef til vill bara ein lítil mannvera, en í augum einnar lítillar mannveru ertu líka eflaust allur heimurinn"

 

Pílagríminn sem nýtur þess að vera til og eiga sér drauma, hver sá næsti verður er ekki vitað.  Takk fyrir mig.


10. júlí - þrítugasti og fyrsti göngudagur

Ég vaknaði harkalega upp klukkan fimm um nóttina, hjartslátturinn fór á tvöfaldan hraða, því hávær hurðaskellir var á ferð.  Já Ger gat ekki sofið, ákvað að fara á fætur og þessi hávaði fylgdi honum.  Ég held að allir sem gistu þarna þessa nótt hafi vaknað en vonandi sofnað aftur því við Daníel fórum á fætur hægt og hljótt, fengum okkur að borða og út í sólina vorum við komin klukkan sex. Ekki veit ég hvenær verður farið á fætur á morgun, sem verður síðasti göngudagurinn okkar.

Í byrjun þessa dags voru gengnir tveir kílómetrar bratt upp, en svo tóku við malarvegir, stígar í skógi (ekki svo blautir) og aftur komið á malarveg meira og minna þokkalega sléttir.

Daníel gekk á undan okkur og við ein gatnamótin sást hann hvergi.  Við Ger ákváðum að ganga veginn því Ólafsleiðin var þarna ekkert sérlega spennandi, um 2 kílómetrar í mýri.  

Ekkert sást til Daníels en ég hafði ekki áhyggjur, hann er vanur maður.  Við Ger tókum okkur smá hvíld á gatnamótum þar sem við reiknuðum með að sá þriðji kæmi niður en ekkert bólaði á honum.  Og hann var auðvitað kominn langt á undan okkur, það kom í ljós síðar.  

Veðrið lék við okkur en í gærkvöldi var úrhelli í Skaun - við heppin, komin í hús.  Þegar við vorum að ganga niður í Öysand heyrðist fótatak að baki mér.  Þarna var Daníel mættur, skælbrosandi og kátur.  Ég auðvitað fegin að hann var kominn en Ger var frekar pirraður þarna.  Hófust umræður um það hvað hver hefði átt að gera og hvenær og hvernig skipulagið hefði átt að vera á þessari göngu og loks tók mín af skarið -  þetta væri liðið og allt væri í lagi svo við skyldum bara halda áfram.  

Ger var þögull lengi vel, tók ekki undir þegar Daníel talaði til hans  - þetta var svo ótrúlega fyndið, sól, logn og blíða og einhver í fýlu yfir einhverju sem ekki skiptir máli.  En þetta jafnaði sig allt þegar leið á gönguna og við vorum bara kát þegar líða tók á daginn.  

Við settumst inn á kaffihús í Öysand klukkan 10. niður við fallegt vatn að bíða eftir árabát, já árabát, til að ferja okkur yfir.  Kaffi og möffins með stórum súkkulaðibitum í boði Daníels.   Eftir góða hvíldarstund gengum við af stað um ellefuleytið til ferjustaðarins og sátum þar í steikjandi sól og hita til klukkan hálf eitt.  Þá kom ferjumaðurinn.  Hann heitir John og er bóndi á Sundet gard og er með 120 svín og svo pílagrímagistingu.  Bátskænan hans rann ljúflega yfir vatnsflötinn og þetta var gaman þegar ég var komin yfir hræðsluna að þurfa að fara í árabát.  

Það var gott að koma í hyttuna sem við fengum, ekkert rafmagn en sturta og hún var dásamleg.  Í dag gengum við 19 km. frá klukkan 6 til 11 í blíðu - við erum alltaf ótrúlega heppin með veðrið.  Hérna sitjum við göngufélagarnir þrír og njótum þess að vera í kyrrðinni.  Umræðan er til dæmis: "hversu margar nærbuxur þeir félagar eru með"!! haha.  Ég hló mig alveg máttlausa og ég sit undir þessu!!  

Og núna þegar líða tók á daginn kom hingað í hyttuna hún Marta frá Danmörku.  Hún fékk eitt rúm hjá okkur en hún hafði ekki útvegað sér gistingu áður svo við vorum með eitt aukarúm í hyttunni og buðum henni að gista þar. Og í kvöld mun verða fjölmenni í mat og í morgunmat á morgun hjá bændum hér.  Við þrjú og Marta, par frá Þýskalandi, Marlene frá Hollandi og trúlega ungur þjóðverji sem hraut hraustlega síðastliðna nótt.  

Í fyrramálið verður ekki lagt snemma af stað því morgunmatur er klukkan átta en trúlega verður tekið á sprett að honum loknum ef ég þekki mína félaga rétt.  Hér fljúga fiðrildi í fallegum litum í kringum okkur, smáfuglarnir syngja, ég búin að fá einn ískaldan pilsner og lifi eins og blóm í eggi.  

Það er bæði gleði og söknuður í hugum okkar.  Gleði yfir því að hafa gert þetta og að þessu sé að ljúka, söknuður yfir því að þetta ferðalag okkar er brátt á enda.  

"Hamingjan kemur inn um dyrnar sem þú veist ekki einu sinni að þú hafir opnað" 

Kveðjur til ykkar allra

Rúnan, á síðustu kílómetrunum


9. júlí - þrítugasti göngudagur

Svaf mjög vel og þegar ég kíkti út um litla herbergisgluggann minn var hætt að rigna.  Allir klárir klukkan 6:30 og við byrjuðum frekar sporlétt enda vissum við ekki hvað beið okkar. Það var kyrrt og hljótt er við gengum  með fallegu vatni, Solsjoen.  

Fyrsta klukkutímann var það malarvegur og það var hlýtt úti, logn og sólarlaust.  Aldeilis besta veðrið.  Eftir liðlega klukkustund tóku við skógarstígar sem voru ekki það sem mig langaði í eftir rigninguna í gær en ekki var um neitt annað að ræða.  Næstu sjö til átta kílómetrana var ekkert annað gert en að ganga í mýrarbleytunni og drullunni í skóginum, ekkert útsýni til að gleyma sér við og kannski eins gott því öll athygli varð að vera á því hvar þú stigir niður fæti.  Við vorum öll holdvot, það bullaði í skónum og rúsínutær litu dagsins ljós í lok dags.  Þetta var erfitt og hægfarið - maður sökk í vatnið við hvert spor og moldin og grjótið í skóginum var hált.  

En allt tók þetta enda, sólin lét sjá sig og þegar við áttum eftir um 6 kílómetra í gististaðinn komum við loks á veg.  Það var kærkomið þó hann væri steyptur.  Það er farið að tala um það hversu stutt sé í lokin og komin spenna í fólk enda erum við búin að vera á þessu ferðalagi í heilan mánuð.  Þegar við sáum í kirkjuturninn hér í Skaun urðum við yfir okkur kát og fegin.  Aftan við kirkjuna í Skaun er gististaðurinn okkar og heitir hann Menighetshuset.  Þar tóku hjón á móti okkur, þau Rut og Leif.  Þau voru rétt að klára að þrífa þegar við komum klukkan hálf tólf eftir 5 klukkustunda göngu og 21 kílómeter.  

Hér gistum við í sal sem er með heilmörgum ferðarúmum, svona gestarúmum eins og við köllum það.  Hér getum við eldað okkur og svo ætla þau hjónin að fara með okkur í kvöld að skoða kirkjuna.  Þetta hús sem við gistum í virðist vera einhverskonar safnaðarheimili,  fallegar kristilegar myndir á veggjunum og útsaumur og vefnaður líka.  Hér er gott að vera, félagarnir mínir í fínu lagi og eins er með mig.  Nú er það hvíld fram að kvöldmat og hún er kærkomin.  

Klukkan hálf þrjú birtist sú hollenska, Marlene, og var hún orðin ansi þreytt eftir 7 1/2 klukkustunda ferðalag.  Klukkan hálf sex komu svo par og ungur drengur frá Þýskalandi og Martha frá Danmörku en hún var ein á ferð.  Hún er búin að ganga í viku eins og þýski strákurinn en þýska parið hefur verið á göngu frá Lillehammer.  Í dag tóku þau öll lest í áttina hingað, orðin eitthvað tímabundin, og nú verður kátt í kotinu í kvöld.  

Mér líður vel og ég er orðin ofboðslega spennt að klára.  Ég hlakka svo mikið til - tveir dagar í endamarkið.

"Við öll, á einhverju stigi lífs okkar, þurfum að taka heilræðum og móttaka hjálp frá öðru fólki"

Elska ykkur og sakna ykkar

Rúsínurúna 


8. júlí - tuttugasti og níundi göngudagur

Hann var blautur þegar við lögðum af stað klukkan 6:50 eftir góðan morgunverð á Segard hoel.  En það var logn, engin úrhellisrigning og þegar maður er með gúmmígallann þá er ekki kvartað.  

Í dag vorum við um 90% á steyptum vegi og það er ekki mitt uppáhald en svona eru bara sumir dagar.  Það var nokkurs konar kyrrðarmorgun hjá okkur, gengið um sveitirnar og allt iðagrænt, mikil kyrrð yfir öllu enda laugardagur.  Við vorum í góðum gír eftir langan svefn og hvíld.  Við fórum snemma í háttinn í gær og klukkan 20. var komin ró.  

Á leiðinni í dag komum við á Bergmannskrána því það var nefnilega kominn tími til að fá sé kaffisopa og eitthvað sætt. Og við fengum okkur ilmandi kaffi og dísætar kökur sem smakkaðist  hreint dásamlega.  Rigningin hélt áfram, hlýtt en enginn varð gegnblautur.  Nú þurftum við að versla í matinn, komum við í Coop verslun og það var ýmislegt sem rak á fjörur mínar þar, meðal annars Draumur súkkulaðið.  Ég splæsti í tvö stykki, súkkulaði frá Íslandi með lakkrís og nú á að njóta.  

Auðvitað var hraðbankinn heimsóttur í leiðinni í bænum Lokken en leiðin okkar þennan daginn lá þar í gegn.  Við komum klukkan eitt í gististaðinn og það var kærkomið.  Hann heitir Gumdal gard.  Þá var göngu dagsins lokið.  Við höfðum gengið 24,6 kílómetra á 6 klukkustundum og 45 mínútna stopp inni í því.  Ótrúlegur hraði á þessum köllum og ég elti bara.  

Á bænum tók á móti okkur brosandi kona sem leiddi okkur í allan sannleika um dýrðina sem beið okkar.  Falleg hytta, uppábúin rúm, hlýtt hús, allt til alls og ískaldur í ísskápnum - allt sem ég þurfti.  Og meira að segja þurrka til að þurrka skóna okkar blautu - aldeilis æðislegt.  Og nú eru þeir að verða þurrir, verða fínir á morgun þegar við förum í þá - þetta er svo frábær þjónusta.  

Rétt áður en við komum hingað þá gengum við að steini við brú og á steininum stóð:  "61 km til Niðaróss" - eru þið að trúa þessu?  Mér finnst þetta eiginlega ótrúlegt.  En okkur líður vel, erum komin inn í hlýtt hús, allir glaðir og hér er stúlka líka í nótt, Marlene frá Hollandi - sem sagt fámennt og góðmennt.  Það verður styttri dagur á morgun, blautt áfram eftir því sem mér er sagt en ég er bara sæl og sátt.  

Karlarnir voru að metast um það eitt kvöldið hvor þeirra hefði gengið lengri dagleið í þeim göngum sem þeir hafa farið í.  Ég sat þarna og hlustaði, brosti í huganum og hugsaði:  "pabbi minn er miklu sterkari en pabbi þinn".  Tveir kallar, 66 og 67 ára, að metast - það er ýmislegt sem kemur upp á hjá þeim og annar veit oftast betur en hinn.  Þetta er bara spurning um hvor er fyrri til að koma umræðu af stað, hahaha.  Það er gaman að þeim, þeir eru ótrúlega sérstakir og góðir - og ég er líka mjög sérstök sem betur fer erum við öll einstök.

 Ég er þakklát fyrir að hafa þá með mér hér á þessari göngu, þeir eru góðir göngufélagar og mér finnst gaman að vera með þeim.  Og metingurinn milli þeirra kryddar bara daginn í lokin.  

Nú eru þrír dagar í Niðarós.  Oh hvað ég hlakka til - ég get varla beðið.  Það er svo ótrúlegt að þetta skuli fara að verða búið.  

"Eitt mesta leyndarmál lífsins er að allt sem einhverju máli skiptir er það sem við gerum fyrir aðra"

Kær kveðja heim til ykkar elskurnar

Rúna í rigningunni 


7. júlí - 28. göngudagur

Ég svaf eins og þægt ungabarn í prinsessuherberginu til klukkan 6 í morgun.  Við áttum notalega samveru við morgunverðarborðið.  Allir slakir og kátir þessir pílagrímar.  

Það komu fjórir pílagrímar og gistu þar sem við vorum í Meslo gard svo það var nóg að gera hjá Ingrid bónda.  Hún býr þarna ein með 25 kýr og svo þessa gistingu, hörkubóndi, og er svo í samfloti með tveimur öðrum bændum í sambandi við mjaltir.  Þau skipta með sér einni viku í senn, mjólka þá á þremur bæjum og eiga svo frí í tvær vikur á milli.  Þetta finnst mér sniðugt.  Það er allt hreint og fallegt í kringum hana og frábært að gista þar.  

Jæja við gengum af stað í fínu veðri og sólin skein.  Eins og undanfarið var gengið frekar hratt.  Framundan mikið jafnslétt og ein og ein lítil brekka.  Nú voru sveitabæjir á leið okkar og græn og nýslegin tún.  Kýr, kindur og hestar voru myndaefni en ekki náðum við mynd af Elgnum sem við sáum - þeir eru fljótir að forða sér.  

Svo kom að fyrri uppákomu dagsins hjá þeim félögum sem ganga með mér.  Gps tækið hjá Ger sýndi leið til hægri inn í skóginn, engar merkingar.  Daníel tók af skarið niður brekku sem lá beint áfram.    Það var bara klifrað yfir girðingar og klöngrast milli trjáa og endað niður á vegi.  Þarna myndaðist smá spenna milli þeirra, hver hefur valdið hahaha.  

Við höfðum gengið meðfram ánni Orkla frá því um morguninn, þetta er ótrúlega breið og falleg á.  Í langan tíma heyrðist ekkert hljóð frá henni, hún liðaðist bara áfram inn dalinn.  Skrýtið að upplifa þetta.  Svo komu flúðir og þá lét hún heyra í sér.  Það var ljúft að ganga með ánni, lítil sem engin umferð og því lítið sem raskaði ró okkar.  

Við komum til Segard Hoel, bóndabæjar, klukkan 12:10 eftir 5 1/2 klukkustund og 24,6 kílómetra.  Hér eru litlar byggingar, lítil hytta sem við verðum í ásamt pari frá Þýskalandi.  Bærinn stendur uppi í hlíð og við sitjum úti á verönd og horfum niður í dalinn.  Yndislegt og fallegt.  

Ungur bóndasonur hér er tekinn við býlinu, 50 kúm, pabbinn rúmlega fimmtugur að leita að starfi annarsstaðar.  Móðirin er kennari og kennir hér í skóla í sveitinni. Allt þetta fólk hér býr saman í sátt og samlyndi á stórri og mikilli jörð.  Allir hafa hlutverk og hér koma margir pílagrímar.  

Þegar við áttum eftir 2 1/2 kílómetra hingað kom aftur uppákoma hjá þeim félögum.  Aftur var það staðsetningartækið sem ekki var að standa sig, sagði að við værum komin framhjá bænum.   Snúið við og rölt einhverja hundruði metra, ég síðust, stoppaði hjá konu sem var úti að sýsla og spurði hana hvar þetta gistiheimili væri.  Hún benti mér í áttina þar sem við höfðum gengið í byrjun, karlarnir komnir langt frá mér þráttandi um það hvar þetta væri.  

Ég kallaði og sagði þeim að koma - og þeir hlýddu mér bara!!!  Ég sagði þeim að það væri nú vaninn að það væri skilti við veginn þar sem gistiheimili væru sem við hefðum hingað til gist á og að við yrðum að ganga lengra.  Og auðvitað hafði íslenska pílagrímakonan rétt fyrir sér svo Daníel sagði Ger að hér eftir yrði hlustað á þá íslensku!!  

Nú er bara brosað og hlegið, öll spenna horfin, búin að panta kvöldmat og morgunmat hérna á staðnum og nú á að njóta.  Lækjarniður í tveggja metra fjarlægð þar sem ég sit og falleg kisulóra sniglast hér í kringum mig.  Það er smá andvari, sól og lífið er yndislegt.  

"Ljúft er að stíga lífsins spor,

ljúf er gleðin sanna,

þegar eilíft æskuvor,

er í hugum manna."

Pílagrímakonan sem á langan dag fyrir höndum á morgun og þá styttist ennþá meira - ég hlakka til.         


6. júli - 27. göngudagur

Vaknað klukkan sex og morgunmatur á borðum húsfreyjunnar í Langklopp.  Svo gott að láta dekra aðeins við sig.  Lögðum af stað klukkan sjö í sól og blíðu.  Dalurinn skartaði sínu fegursta og á leið okkar út úr bænum sáum við Elg á hlaupum, tignarlegt dýr en ekki vildi ég mæta einu slíku.  

Gönguleiðin fín í dag, jafnslétt og mikil lækkun, blautir stígar í skógi, malarvegir og í lokin sá steypti.  Við mættum gráhvítum kálfi á hlaupum sem hefur greinilega viljað meira frelsi.  Hann horfði á okkur, sperrti eyrun og hljóp svo í gagnstæða átt - mikið krúttlegur.  Tveir bílar komu að og það var greinilega verið að leita að strokudýrinu.  

Fallegir skýjabólstrar á bláum himni og gleði var í hjartanu mínu.  Annað slagið hjöluðu lækjarsprænur er urðu á vegi okkar, alltaf eitthvað róandi við það, fiðrildi flögruðu í kringum okkur og mauraþúfur í skógi og ein þeirra var ótrúlega stór.  Við gengum rösklega, stoppað í skýli fyrir fólk á göngu, aðeins teknir af sér bakpokar og nartað í nesti og drukkið.  

Karlarnir Ger og Daníel eru í góðum gír og það er gantast og hlegið.  En það sem mér finnst best er að við göngum mikið í þögn, ótrúlega gott að láta hugann reika um allt og ekkert.  Komum í Meslo gard gistinguna, lítil og sæt gisting á tveimur hæðum.  Tvö herbergi uppi, eitt fjögurra manna og eitt eins manns, sem ég prinsessan fékk auðvitað.  Stundum er nefnilega gott að koma snemma í náttstað því þá getur maður valið.  

Yndisleg kona tók á móti okkur hér með kaffi og kökum og konfektmola.  Þau reka hér kúabú og konan er alveg hörkunagli - ég sá það strax.  Núna er hún keyrandi hér á túninu með skítadreifarann í eftirdragi - alveg hreint á fullu, það gengur sko undan þessari.  Daníel sá litla mús á neðri hæðinni í húsinu og ég fríkaði út - get örugglega ekkert sofið í nótt!!

Sólin skín, sveitin angar og hér í Meslo gard er gott að vera.  Allt til alls og allt gert til að láta okkur líða sem best.  Í dag gengum við frá klukkan 7 til 11:20 og kílómetrarnir urðu 21.  Og nú er það komið á hreint að þann 11. júlí mun ég ganga inn í Niðarós og ljúka 32 daga göngu minni, það er ef allt gengur vel, sem ég vona og bið góða "ferðafélagann" að hjálpa mér við.  Hann er alltaf með mér og það er svo gott að hafa hann með í för.  Það er hraðferð á köllunum og ég elti bara, það gengur vel og mér líður vel, engar blöðrur og ekkert vesen.  

"Það er gott að geta glaðst yfir öllu smáu, leiftrandi daggarperlu á laufi og niði lækjarins"

Pílagríminn,

tíminn líður, bara fimm dagar eftir og hlakka mikið til.   


5. júlí - 26 göngudagur

Vöknuðum klukkan sex, fengum okkur góðan morgunmat, tókum okkar pjönkur saman og örkuðum inn í daginn.  Það var gott að gista í Vekve hyttetun.  Ég svaf vel og hvíldist vel.  

Leiðin okkar lá út úr bænum á steyptum vegi upp í sveitina, malarvegina og kyrrðina.  Blómin brostu til mín í fallegu litunum sínum, kindurnar horfðu og það var frekar svalt.  En það var gott að ganga, mikið af jafnsléttu og litlar brekkur sem ekki tóku úr mér allan mátt.  Einn bóndi ók hjá á traktornum sínum, mikið að gera hjá þeim á þessum tíma árs.  

Það var gott að finna lyktina af nýslegnum túnum og þegar við gengum í gegnum skóg þá voru allnokkur hliðin sem við þurftum að opna.  Það minnti mig á sveitina, stór breið hlið sem var lokað með því að smeygja járnlykkju og jafnvel gaddavírslykkju yfir hliðstaurinn.  Bara gaman að hugsa til ömmu og afa úr barnæsku minni.  

Það komu smá dropar úr lofti, ekkert sem angraði, sólin lét líka sjá sig og veðrið var því hið besta gönguveður.  Við komum í gististaðinn klukkan 12 eftir 5 klukkustunda göngu og 25 kílómetra.  Við erum á hestabúgarði og þar eru margir unglingar á reiðnámskeiði.  Hér eru hestar um allt í yndislegu umhverfi og gaman að fylgjast með þeim.  

Nú skín sólin þegar klukkan er hálf fjögur og við erum í afslöppun það sem eftir er af þessum degi.  Nú pöntuðum við okkur mat og í fyrramálið fáum við morgunmat áður en við leggjum af stað.  Eigendurnir hér sjá um þetta og það verður gott að ganga bara að borði og þurfa ekkert að gera nema njóta.  Ég hlakka mikið til og nú er tíminn að líða ansi hratt.  Örfáir dagar í Niðarós - ótrúlegt.  

Fyrir hálftíma komu þær hingað í gististaðinn Erna og Jórunn, þessar tvær norsku sem hafa verið svona í samfloti við okkur annað slagið, gaman að hitta þær aftur.  

"Bestu vinur minn er sá sem þekkir galla mína en er samt vinur minn"

Kær kveðja heim og takk fyrir innlitið

konan á Ólafsvegi 


4. júlí - 25. göngudagur

100 ára afmælisdagur Ástu heitinnar tengdamömmu minnar fyrrverandi, yndislegrar konu sem ég minnist með mikilli hlýju.  

Það var kalt í kofanum í nótt.  Fengum okkur te og kex og héldum út í kuldann klukkan sex.  Við vorum vel dúðuð enda í 1200 metra hæð og það slyddaði um tíma á okkur.  Það var hratt gengið niður og maður fann hvernig hlýnaði eftir því sem við færðumst neðar.  

Það voru malarvegir í byrjun en svo komu skógarstígar og steyptir vegir.  Það var gengið mjög hratt og það kom að því að Ger lét í sér heyra.  Hann sagðist ekki geta gengið svona hratt, hann var ekki kátur og Daníel sagði honum að vera þá fyrstur og ráða bara hraðanum þannig að vonandi verður þetta í lagi ef við verðum þrjú saman áfram.  Ótrúlega fyndið þegar fullorðnir karlar láta svona, jæja ég hlæ bara að þessu haha.  

Það gekk vel að ganga niður, alveg niður í dalverpið, og við komum við í sjoppu á leið okkar í gistinguna og ég fékk mér pylsu.  Gat fengið ýmislegt á pylsuna en þurfti að borga auka fyrir allt nema tómat, sinnep og remúlaði.  Ég spjallaði nú aðeins við afgreiðslumanninn, sagðist geta fengið allt á pylsuna ókeypis heima og þá lét hann mig hafa laukinn með, sagðist vera í góðu skapi haha.  

Nú erum við komin í Hytte Furulund.  Lítil, falleg og notaleg hytta með heitu vatni, eldavél og öllum græjum og meira að segja wi-fi.  Nú er ég lúin, gott var að fá þvottavél og þurrkara eftir slarkið í gær.  Sluppum betur í dag, aðeins smá rigning í byrjun og hér skein sól þegar við komum í hyttuna.  

Daníel ætlar að bjóða okkur í mat, búinn að versla ýmislegt blessaður, en það verður farið snemma í háttinn enda allir þreyttir.  Það gengur bara vel hjá mér, engir íbúar og ökklinn bara ágætur.  Nú tel ég niður, 9-10 dagar eftir þar til ég dett niður til Niðaróss.  Ég er farin að finna fyrir meiri þreytu í fótum, farið að langa í soðna ýsu, knúsa fólkið mitt og hitta alla vini mína.  

Margt sem kemur í hugann á langri leið - hvað ég er rík að eiga ykkur að.  En ég er bara kát og tek dag í senn.

"Ekki gráta vegna þess að það er afstaðið - brostu vegna þess að það átti sér stað"

Takk elsku vinir fyrir að fylgjast með mér og skrifa mér kveðjur!

Pílagríminn sem er enn hress og hlakkar til næsta dags.

 

PS - Sonja sem skrifaðir hjá mér um daginn - hvað heitir pílagrímasíðan þín??


3. júlí - 24 göngudagur

Við Ger borðuðum kvöldmat ásamt Daníel, manninum frá Sviss sem braut saman þvottinn fyrir mig, og Erik frá Noregi í gærkvöldi á hóteli á hótelinu við hliðina á kojugistingunni okkar.  Fínn matur og ég sofnaði fljótt og svaf vel í því efra.  

Í morgun var blautt og þokuslæður í fjöllum.  Við fengum morgunmat á hótelinu klukkan sjö og hálfátta héldum við af stað, ég, Ger og Daníel sem vildi endilega ganga með okkur.  Við vorum vopnuð gúmmígöllunum og fyrstu þrjá og hálfa kílómetrana þurftum við að ganga veginn en svo var haldið á brattann, já heldur betur, snarbratt, örmjótt, blautur stígur, ég taldi mörgum sinnum upp á 50 og fór jafnvel upp í 60, þar til við vorum komin upp í 1200 metra hæð.  Þá tóku við góðir stígar, ekki mikið upp og niður.  Það var þokusúld og kalt en logn.  

Við vorum ekki mikið að stoppa, bara rétt til að drekka og nærast aðeins.  Falleg vötn, kindur með lömbin sín, lóusöngur enn og aftur, allt þetta lét mig gleyma því að stundum var þetta erfitt.  Og svo kom að því að hæsta toppi á Ólafsvegi yrði náð!  Daníel var alltaf aðeins á undan okkur Ger en nú stoppaði hann allt í einu og sagði:  "Rúna þú átt að vera fyrst á toppinn" - tillitssamur kallinn.  Ég dreif mig alla leið og fagnaði eins og sigurvegari - 1314 metra hæð!!  

Við höfðum farið úr 800 metrum í 1200 svo niður í 900 og loks í 1314 - alveg æðislega gaman - búin að bíða eftir þessu lengi.  En það var kalt á toppnum, rok, súld og tveggja gráðu hiti.  Gangan gekk vel og í albergið Ryphuset komum við klukkan hálf eitt eftir snarpa 21 kílómetra göngu á 5 klukkutímum.  Þetta er dalakofi með 11 dýnuplássum, gashitara og eldavél, nóg af öllu og hægt að versla ýmislegt ef maður er svangur.  Daníel náði í vatn í lækinn, kveikt á öllu og vatnið soðið til að hita mat og te og auðvitað strjúka sér létt um andlit til að hressa sig við.

 Ekkert rafmagn, ekkert símasamband en ég er bara svo glöð að vera komin hingað.  Við vorum þau fyrstu sem litum hér inn og gátum því valið okkur rúmstæði.  Nú er ég búin að borða, búa um mig og svo skín sólin hér fyrir utan og þurrkar skóna mína.  Þetta var góður dagur og á morgun verða það víst 28 kílómetrar, niður að mestu leyti.  

Klukkan hálf fimm í dag birtust hér fimm norskar konur sem eru að ganga veginn í nokkrum hlutum árlega.  Mikið fjör, spjallað og hlegið.  Það verður gaman að sjá hamaganginn í fyrramálið ef við verðum ekki farin á undan þeim.  Klukkan hálf fimm kom annar maður hingað og þá vorum við orðin níu - þröngt á þingi.  Svo klukkan hálf tólf komu tvær konur í viðbót!  Allt fullt, ekki þverfótað fyrir fólki út um allt.  

"Hve indælt það er að gera ekki neitt og hvíla sig svo vel á eftir"

Pílagrímakonan í dalakofa


2.júlí - 23. göngudagur

Þoka í fjallshlíðum og það hafði rignt, við lögðum í hann kl 7 og hækkunin í dag úr 800m í 1200, niður aftur í 900 og upp í 1100 og endað í 800m. Það var hlýtt og logn, engin fluga á uppleiðinni sem betur fer.

Þessi leið kom mér á óvart, hélt þetta yrði mjög erfitt. Við gengum í byrjun á jafnsléttu, þá tók fjallgangan við, ég var ekkert að missa andann. Hægt og rólega liðum við upp hlíðarnar og á toppnum vorum við umlukin þoku, svolítið sérstakt að sitja þarna og horfa inn í þokuveggina allan hringinn. Og þarna setti ég upp vettlingana, það var kalt í þokunni. En ekki stóð þetta lengi og brátt birti til, falleg lítil vötn víða, Lóu söngur og gúgú fuglinn lét vita af sér.

Á þessari leið í dag mættum við þónokkuð af fólki sem kom á móti okkur, greinilega vinsælt að ganga héðan yfir fjallgarðinn niður til Hjerkinn.

Þar er meðal annars Pílagríma-center en við vorum svo snemma á ferðinn í morgun að það var ekki opið. Nú erum við komin í koju herbergi og ég í þeirri efri, ekkert mál. Við fáum morgunmat í fyrramálið hér í birtingunni, góð tilbreyting.

Gangan var frekar létt 17 km og síðustu 15 mínúturnar komu dropar úr lofti, þegar við komum í hlaðið á Kongsvoll skein sólin, þetta var stuttur og góður dagur 5 klst að rölta þessa kílómetra, nú erum við komin undir þessa 200 km sem eftir eru.

Það verður spennandi að sjá hvort við fáum gistingu á morgun, gátum ekki pantað það svo nú er bara að leggjast á bæn og vona að þetta gangi upp.

 

“Bros er vegabréf sem kemur þér hvert sem þú vilt”

 

Kveðjur til ykkar allra frá konunni í sólinni, telur niður og er farin að finna spennu vaxa innra með sér.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband