5. júlí - 26 göngudagur

Vöknuðum klukkan sex, fengum okkur góðan morgunmat, tókum okkar pjönkur saman og örkuðum inn í daginn.  Það var gott að gista í Vekve hyttetun.  Ég svaf vel og hvíldist vel.  

Leiðin okkar lá út úr bænum á steyptum vegi upp í sveitina, malarvegina og kyrrðina.  Blómin brostu til mín í fallegu litunum sínum, kindurnar horfðu og það var frekar svalt.  En það var gott að ganga, mikið af jafnsléttu og litlar brekkur sem ekki tóku úr mér allan mátt.  Einn bóndi ók hjá á traktornum sínum, mikið að gera hjá þeim á þessum tíma árs.  

Það var gott að finna lyktina af nýslegnum túnum og þegar við gengum í gegnum skóg þá voru allnokkur hliðin sem við þurftum að opna.  Það minnti mig á sveitina, stór breið hlið sem var lokað með því að smeygja járnlykkju og jafnvel gaddavírslykkju yfir hliðstaurinn.  Bara gaman að hugsa til ömmu og afa úr barnæsku minni.  

Það komu smá dropar úr lofti, ekkert sem angraði, sólin lét líka sjá sig og veðrið var því hið besta gönguveður.  Við komum í gististaðinn klukkan 12 eftir 5 klukkustunda göngu og 25 kílómetra.  Við erum á hestabúgarði og þar eru margir unglingar á reiðnámskeiði.  Hér eru hestar um allt í yndislegu umhverfi og gaman að fylgjast með þeim.  

Nú skín sólin þegar klukkan er hálf fjögur og við erum í afslöppun það sem eftir er af þessum degi.  Nú pöntuðum við okkur mat og í fyrramálið fáum við morgunmat áður en við leggjum af stað.  Eigendurnir hér sjá um þetta og það verður gott að ganga bara að borði og þurfa ekkert að gera nema njóta.  Ég hlakka mikið til og nú er tíminn að líða ansi hratt.  Örfáir dagar í Niðarós - ótrúlegt.  

Fyrir hálftíma komu þær hingað í gististaðinn Erna og Jórunn, þessar tvær norsku sem hafa verið svona í samfloti við okkur annað slagið, gaman að hitta þær aftur.  

"Bestu vinur minn er sá sem þekkir galla mína en er samt vinur minn"

Kær kveðja heim og takk fyrir innlitið

konan á Ólafsvegi 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband