24. júní - fimmtándi göngudagur.

Fyrst er það afmæliskveðja til elsku ömmustelpunnar minnar hennar Lísu Ránar.  Elsku hjartans Lísa mín, amma sendir þér innilegar hamingjuóskir með 23 ára afmælið og vonar að þú eigir góðan og gleðilegan dag.  Knús og kossar frá ömmu á Ólafsvegi í Noregi.

Ég svaf réttlátum svefni til klukkan sjö.  Búist af stað klukkan 8:30.  Það var þoka yfir dalnum þegar ég vaknaði og hafði rignt vel um nóttina.  Gúmmígallinn notaður en engin þörf á úlpunni þegar líða tók á daginn og fór hún því aftur í pokann.  

Fyrst gengum við á litlum og stuttum skógarstígum og á milli komu malarvegir.  Svo ákváðum við að ganga veginn til næsta gististaðar Mageli sem er sumardvalarstaður fyrir hjólhýsi, útleiga á hyttum og tjaldsvæði.  Þetta voru 18 kílómetrar.  Staðurinn er alveg niður við ána Lagen þannig að lækkunin í dag voru rúmir 600 metrar.  Það var gott að ganga og þurfa ekki að fara inn í skógana því við vissum að þar væri allt blautt og drulla meira og minna.  Fórum við léttari leiðina, þó þurftum við að klífa upp tvisvar ansi hátt áður en haldið var niður að ánni.  

Það var gaman að ganga, veðrið lék við okkur eftir að þokunni létti og við bara ótrúlega hress eftir erfiðið í gær.  Um tíuleytið gengum við fram á tvo sofandi ferðalanga í Gapahuk.  Þetta er opið rými en gott skjól þegar þess er þörf.  Ger bauð góðan daginn og upp úr svefnpokaopunum kíktu tvö syfjuð andlit.  Þeir voru þreyttir strákarnir, höfðu lítið sofið nóttina áður en ekki veit ég á hvaða ferðalagi þeir voru, sögðust vera norskir og með það kvöddumst við.  

Um eittleytið komum við á áfangastað, Mageli svæðið.  Sólin skein yfir um og allt um kring.  Við vorum glöð að eiga langa hvíld fyrir höndum, náðum í lykil að Grandbu hyttunni, og þetta var algjört dúkkuhús.  Ekkert vatn eða klósett en ljós og hiti, fjórar kojur og eldavél með fjórum hellum.  Bara gaman.  Og svo borguðum við sitthvorar 10 krónurnar norskar fyrir 6 mínútna sturtu og þær voru þess virði.  Fötin þvegin, hengd á verandarhandriðið því sólin skein og það var smá vindur.  En um hálf fjögurleytið gránaði himinn yfir okkar byggð, allt tekið inn og nú skall á úrhellisrigning.  Alveg ótrúlegt hvað við höfum sloppið vel!  

Klukkan hálf fimm rignir og gengur á með heljarinnar þrumum.  Það er stafalogn og hlýtt inni hjá okkur og þá er allt í lagi.  Það var gaman hjá mér að fá hringingu að heiman, gott að spjalla.  Mér finnst eins og ég sé búin að vera margar vikur í burtu en þetta styttist með hverjum deginum og við gætum jafnvel náð því á morgun eftir gönguna að vera hálfnuð.  

Á leiðinni hingað gengum við ofan við bæinn Tretten sem er lítill bær hinum megin við ána og því komum við ekki þar við.  Það er yfirleitt ekki í boði að taka útúrdúra eða stoppa lengi því hver klukkustund í hvíld og auðvitað matseld er dýrmæt.  Ég hlakka til að komast á einhvern stað til að borða MAT hahaha þá verður sko gaman!  

Fæturnir eru ágætir, fá klapp í lok dags og ég held bara að það verði dekrað við þá í lokin.  Jæja þessi dagur í göngu var fljótur að líða.  Dalurinn, fjöllin, áin, sveitabæirnir, ilmurinn af túnunum, allt gefur þetta og gleður mig.  

"það er auðvelt að segja nokkur hlýleg orð en bergmál þeirra er svo sannarlega endalaust"

Pílagrímakonan í þrumum og rigningu


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband