Færsluflokkur: Bloggar
15.6.2017 | 22:52
14. júní - fimmti dagur og sólin baðar okkur!
Vaknað í sól klukkan korter fyrir sjö eftir góðan svefn. Tekið saman, borðaður morgunverður og við Ger héldum út í daginn klukkan 8:15 eftir að hafa kvatt Tune hina norsku. Veðrið lék við okkur og í byrjun var það steyptur gangstígur og vegur sem beið okkar og nú var það bratt. Já það var bratt aftur og aftur og ég hélt í vonina um að síðasta brekkan væri sú síðasta en svo var ekki, en "ein brekka í einu" það er mottóið þessa dagana. Um hádegið fengum við okkur sæti á bekk við veginn, nærðumst og hvíldum okkur. Það gerðum við líka tveimur klukkustundum áður en sætin sem við fengum okkur þá var steinveggur við hús eitt þar sem við gengum hjá. Fiðrildi, fuglar, klingjandi kindur, hoppandi lömb og jórtrandi kýr urðu á vegi okkar og nutu sín í sólinni eins og við. Við vorum heppin upp úr hádegi, þá komu góðu stígarnir - mjúkir fyrir þreytta fætur og það kunnum við að meta. Um klukkan 14:30 komum við til Granavollen sem er fallegur staður og einstakur fyrir það að þar standa tvær kirkjur með nokkurra metra millibili. Báðar kirkjurnar eru reistar á svipuðum tíma frá 1100-1150 - Nikolaikirkjan heldur íburðarmeiri heldur en Mariekirkjan. Þarna vorum við í meira en klukkutíma og okkur Ger til mikillar gleði hittum við þar Thomas hinn svissnesska sem var á Gjestvold gard um leið og við. Þarna urðu fagnaðarfundir. Við Ger áttum eftir 4 km til staðarins þar sem við gistum. Það er stórt hús frá 1650 og eigandinn er ungur maður trúlega milli fertugs og fimmtugs - ungur já. Hann hefur verið að gera þetta mikla hús upp síðustu 24 árin og það er ekki hægt að lýsa þessu. Það má segja að maður sé að ganga inn í hús frá 16-1700. Þessi maður heitir Morten og hann eldaði handa okkur fínan lax og alls konar grænmeti um kvöldið. Við sátum síðan úti í sólinni og létum fara vel um okkur. 26 km í dag og samkvæmt mínum útreikningum höfum við gengið rúma 118 km til þessa. Nú verður ljúft að leggjast á koddann í kvöld.
"Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast"
Segi ykkur á morgun í hvernig rúmi ég svaf - aldeilis með ólíkindum. Góða nótt elskurnar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.6.2017 | 22:30
13. júní - fjórði dagur - búin að finna lausn á vatnsvandamálinu!!
Við yfirgáfum General hótel um hálf níu, sól og þessi kona kát. Allt í góðu lagi og nú var fjórði dagurinn hafinn. sólin skein, malbikið beið okkar en þegar líða tók á komu góðu stígarnir aftur og þó þeir væru blautir og á köflum forarsvað var ég fegin. Á einu tré í skóginum hékk lítið fuglahús með pínulitlu opi. Þar kíkti út agnarsmár ungi, gulur að lit og ég held að hann hafi gert þetta bara fyrir mig. Hann var yndislega fallegur. Við göngufélagarnir, ég og Ger, erum búin að finna það út að í öllum kirkjugörðum er hægt að ná í vatn. Það hefur nefnilega ekki verið hlaupið að því að finna vatn á leiðinni enn sem komið er. Á tveggja tíma fresti stoppum við, setjumst niður, skórnir losaðir af þreyttum og heitum fótum. Þetta er gert á hverjum degi og jafnvel gengið berfætt um tún ef það er hægt. Ég er ennþá íbúalaus (blöðrulaus), enginn hefur bankað upp á til að fá leigt hjá mér sem betur fer og ekki hefur flugnabitunum fjölgað en landslagið á höfðinu mínu er orðið dálítið skrítið. Þar er allt í hólum og hæðum og einn og einn hóll sést líka á handleggjunum og eru þetta bitin eftir flugurnar. Þær gáfu mér líka tvö stór kýli á sitthvort gagnaugað, þeim hefur greinilega litist vel á mig en ég kvarta ekki, þetta hefur bara sinn tíma. Við komum til Jevnaker klukkan hálf þrjú eftir 6 tíma göngu svolítið upp og niður og stopp til að hvíla sig, 23 km að baki. Ég hef sér herbergi með útsýni út á Randsfjörðinn. Fengum okkur að borða á Tælenskum stað og ég var himinlifandi með matinn. Fer alltaf snemma í rúmið - veitir ekki af hvíldinni.
"Hver dagur þér færi gleði og gæfu
geislandi morgunsól
hver dagur þér færi farsæld og frið
fegurstu kvöldsól"
Góða nótt elskurnar, sakna ykkar og elska ykkur.
Pílagríminn á leið í rúmið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2017 | 22:16
Alltaf fækkar í hópnum! Göngudagur þrjú
12. júní runninn upp. Ég svaf eins og ljúft ungabarn og við fengum mjög góðan morgun mat hjá Christian og Haraldi klukkan hálf átta. Sólin skein og nú voru það ég og Ger sem vorum orðin ein eftir. Hanne fer allavega ekki lengra með okkur og við kvöddumst á þessum fallega stað og gangan okkar hófst klukkan 8:45. Nú var ekki eins mikið upp og niður, leiðin lá meðfram Tyrifirði. Fegurðin allt um kring, fallegir bóndabæir, grænmetisakrar og fólk við vinnu þar. Stútungskonur sátu fáklæddar á litlum sláttuvélum og brunuðu fram og til baka um túnin við húsin sín. Þetta eru ekki neinir smáblettir, þar sem smáblettir eru aka sjálfvirkar litlar sláttuvélar um lóðina. Þá datt mér í hug tækin sem þeytast um gólfin hjá fólki og þrífa. Við komum til Bosneskirkju en hún var lokuð. Sagan segir að þar hafi pílagrímar komið við hér fyrrum. Við Ger settumst niður við kirkjuna og hvíldum okkur og alltaf er jafn gott að fara úr skónum og viðra þreytta, sveitta fætur. Áfram hélst sólin og útsýnið var ógleymanlegt, ekki hægt að lýsa því. Fjörðurinn skartaði sínu fegursta fyrir okkur. Við héldum aftur af stað og enn og aftur komum við að fallegri kirkju, Holekirkju, en hún var líka læst. Við hana er fallegur kirkjugarður og nú var útigangskonan heppin því þarna gat ég fyllt á vatnsflöskuna mína. Það er nefnilega dálítið erfitt að finna vatn á gönguleiðinni. Ger hafði pantað gistingu fyrir okkur á General hótelinu. Þetta hótel er aðeins úr leið en nú er ég bara í lúxus, fallegt hótel og herbergið mitt fínt. Ég er algjör prinsessa í dag finnst mér. Við komum hingað klukkan 13:45 og tæpir 20 km að baki. Þá erum við komin undir 600 kílómetrana, búin að ganga tæpa 69 km af 650 - jibbí!! Mér líður ágætlega en auðvitað tekur þetta á, sveittir fætur og flugubit en vonandi verð ég í lagi. Mikið gott að vera komin í hús svona snemma, fara í sturtuna sína, þvo fötin sín og bara liggja í leti. Við fengum okkur æðislega pizzu í kvöldmat og bjórinn rann ljúflega niður, fórum að sofa um níuleytið - að sjálfsögðu í sitthvoru herberginu!
Í lokin til ykkar heima sem ég sakna nú dálítið mikið - þetta er alltaf erfitt á kvöldin þegar ég fer að sofa:
"Bros kostar minna en rafmagn en ber meiri birtu"
Pílagríminn að ganga sína þrautargöngu vægast sagt - en gaman.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.6.2017 | 22:52
11. júní - annar göngudagur
Svaf frábærlega vel, alveg frá níu til hálf sjö - alveg ótrúlega gott . Í gær hringdi hinn þýski Mario og var ekki alveg á því að hætta göngunni. Hann kom svo þangað sem við gistum á Sæteren Gard og Ger fór og talaði við hann. Hann lét hann vita að þetta gengi alls ekki að hann héldi áfram með okkur. Sá þýski lét undan en við vitum ekkert hvað verður hjá honum. Við lögðum af stað frá Sæteren Gard klukkan níu næsta morgun og það var blautt, ekki mikil rigning og logn. Ef þið viljið finna á kortinu þá er Sæteren Gard aðeins lengra en Haslum. Við gengum á malarstígum til að byrja með, svo tóku við skógarstígar með grjóthellum, upp og niður í allan dag. Hæst gengum við upp í 540 metra og það tók á. Fyrst um morguninn gekk ég í stuttermabol því það var hlýtt , en um hálf tólf tók að rigna. Er líða tók á daginn hætti alveg að dropa en það var smá blástur. Þegar ég gekk í gegnum þéttan skóginn þeytti vindurinn stórum dropum af trjánum og ég var svolitla stund að átta mig á að það var hætt að rigna. Þetta kom allt af blöðum trjánna. Mín svolítið lengi að kveikja á perunni. Leiðin þennan dag lá að mestu um þennan skóg. Inn á milli voru bændabýli og rosalega flottir golfvellir. Við stoppuðum á einum slíkum og fengum okkur kaffi og með því og maður minn! Þetta var besta kaffi "ever" og stór nýbakaður kanilsnúður með. Þetta var ótrúlega gott og ég tvíefldist við það.
Á þessari leið í dag voru mörg upplýsingaskilti sem sögðu frá bæjum, brúm, stríðinu síðara og ýmsu öðru sem hafði gerst hafði á þessum slóðum .
Við gengum mikið í þögn í dag og mér fannst það gott. Hanne er þreytt enda 73 ára gömul og gengur miklu hægar en við. Eftir alla skógargönguna komum við að Kleivstue, lítilli húsaþyrpingu með hóteli, og við hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að fá okkur að borða en allt var lokað.
Ég náði skemmtilegri mynd við Kleivstue hótelið en þar var rolla á beit með tvö lömb. Hún var ekkert að stressa sig yfir mér heldur hélt bara áfram að bíta sitt gras. Þegar hún hreyfði sig klingdi í bjöllu sem hún var með um hálsinn. Þetta minnti mig á Jakobsveginn.
Frá Kleivstue héldum við niður stórt og mikið gil. Ekki veit ég hversu langt það var niður en það var ótrúlega langt. Ég held að þetta sé á einhverri verndarskrá. Það var erfitt að ganga, mikið af sléttum hellum, og það fellur falleg á niður gilið.
Þegar ég var rúmlega hálfnuð niður, hvað gerðist þá? Sú gula lét sjá sig - dásamlegt. Og hún skein á okkur það sem eftir lifði dags. Við gengum gegnum Sundvallen og ekkert stoppað þar því nú styttist í gististað. Þegar 1. km var eftir að gististaðnum hætti Hanne að ganga. Við vorum komin svolítið á undan henni og stoppuðum. Hún stóð bara á veginum og við veifuðu næsta bíl, báðum bílstjórann að sækja Hanne og fara með hana á gististaðinn. Og það var sko ekkert mál. Þegar við komum á þangað stuttu síðar var Hanne þar í góðu yfirlæti. Við Ger vorum himinsæl að komast loksins á leiðarenda. Þessi gististaður heitir Gjestvold gard og þar býr norskur maður sem heitir Christian. Hann tók á móti okkur ásamt tveimur börnum sínum, þeim Haraldi og Ídu. Kona Christian var íslensk í móðurætt, en móðir hennar hafði komið til Noregs á húsmæðraskóla og hitt draumaprinsinn. Þarna bjuggu þau og nú býr Christian þarna en konan hans lést fyrir tveimur árum.
Þessi litla fjölskylda dekraði við okkur pílagrímana. Það var allt fyrir okkur gert. Við Ger fengum sitt hvora hyttuna og Hanne svaf í húsi sem áður var fjós. Þar var betra fyrir hana að komast um.
Við fengum fínan kvöldverð, bjór á undan, þvotturinn þveginn og þurrkaður. Þarna hittum við fyrsta pílagrímann á leið okkar. Hann heitir Tómas, er frá Sviss en nýr í Berlín. Hann hafði ekki heldur hitt neinn pílagrím fyrr en okkur. Það varð úr þegar leið á kvöldið að Hanne héldi ekki áfram með okkur. Alltaf fækkar í hópnum- hvar endar þetta????
Gjestvold gard var fyrrum bóndabýli og þar var búskapur til ársins 2012. Nú hefur fjósinu og haughúsinu verið breytt í stóra sali og eldhús og þar er allt til útleigu fyrir ýmis konar atburði. Allt svo fallega gert og smekklega. Við fórum snemma í rúmið enda þreytt eftir 27.km göngu.
Á morgun er nýr dagur
"leynilega uppskriftin að árangri er eldmóður"
Pílagrímakonan svo glöð að hafa hitt Íslendinga sem gátu talað íslensku.
Bloggar | Breytt 12.1.2018 kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.6.2017 | 23:09
10. júní - fyrsti göngudagur
Ég svaf ekki vel í nótt en ég hvíldist samt. Eftir morgunmatinn lögðum við fjögur af stað klukkan 9:15. Blautt úti en hann hékk þurr til klukkan rúmlega tvö. Steyptir stígar að mestu í dag og það var erfitt svona fyrsta daginn. Fallegt hvert sem litið var, tré, blóm, frussandi fossar og flæðandi ár. Það er mikill vöxtur í öllum ám enda búið að rigna síðastliðna viku. Það var jafnvel lokað á tveimur gönguleiðum okkar vegna vatnavaxta. En allt gekk vel og ekkert vesen. Þegar líða tók á daginn fór nú ýmislegt að gerast. Þá hugsaði ég "fall er fararheill". Mario hinn þýski var greinilega ekki tilbúinn. Hann er sykursjúkur og virðist ekki vera í góðri þjálfun, frekar þrjóskur og vildi ekki borða nóg. Hann var alveg að gefast upp, ekki bara einu sinni heldur mörgum sinnum. Þetta tafði okkur í langan tíma og loksins tók hann sönsum og ákvað að fara aftur til Osló. Við kvöddum hann og vonuðum að allt yrði í lagi. Við komum á gististaðinn um klukkan 17. Erum í lítilli, sætri, rauðri hyttu á stað sem heitir Sæterengard. Ekkert rafmagn, ekkert vatn og þá er bara kveikt á kertum. Þessi kona keypti sér íslenskt skyr og alveg var ég að elska það. Sturtan var svo toppurinn á deginum. Engir óæskilegir íbúar í skónum og mér líður vel en fyrstu dagarnir eru alltaf erfiðastir. Og þessi dagur var allur upp og niður. Við gengum í gegnum skóg, yndislegur fuglasöngur, hestafólk, fólk í sumarleyfi með krökkunum sínum hlaupandi um allt. Rúmlega sex hringdi Mario í Ger og sagðist ætla að halda áfram en ekki veit ég hvernig það fer. Það kemur í ljós á morgun. Ger er góður ferðafélagi, búinn að setja ferðina inn á eitthvað GPS. Það fóru margar hugsanir í gegnum hugann í dag. Það sem ég hef séð af Noregi er fallegt en dýrt, ekki ódýrara en heima, en ég er ekkert að stressa mig á því. 22 kílómetrar í dag. Á morgun verður dagurinn lengri en ætti ekki að tefjast mikið því Mario er ekki með. Dagurinn liðinn og hvílan bíður. Ég er þreytt og ætla snemma í pokann mig góða.
"Nýttu sem best það sem er á þínu valdi, taktu öðru bara eins og það kemur fyrir"
Rúna, sæl og sátt í bleytunni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2017 | 21:16
Að kveðjast og heilsast
Jæja, þá er ferðalagið hafið. Seinkun á flugi um eina klukkustund en það var í fínu lagi. Ég var í góðum félagsskap. Arndís Lind og hennar góði maki, sem mig minnir að hún hafi kallað Kidda (fyrirgefið ef ég man þetta ekki rétt) voru með mér á flugvellinum og einnig séra Ragnheiður Karítas og Lilja Kristín prestar íslenska safnaðarins í Noregi. Þær stöllur lóðsuðu mig og hjálpuðu mér að skrá mig inn á einhverri maskínu. Þær fylgdu mér á Gardemoen þegar við lentum þar og ég þurfti að kaupa lestarmiða. Þar græjuðu þær allt fyrir útigangskonuna (nafngift sem ég er mjög hreykin af og Hanna vinkona gaf mér). Takk elsku þið öll fyrir að vera með mér á flugvellinum!
Nú þegar ég kom út úr lestarstöðinn hringdi Ger, hinn hollenski. Hann kom svo upp að lestarstöð til að lóðsa mig á hostelið. Við gengum saman að hostelinu mínu og hver beið þar nema Mario hinn þýski, týndi sauðurinn. Það var gaman að hann skuli ætla að vera með okkur. Hanne kom svo og hitti okkur og við fórum út að borða. Við ákváðum að leggja af stað fyrsta daginn klukkan 9:00 í fyrramálið. Hér er grenjandi rigning en logn og hlýtt.
"Ferðalag með þúsund kílómetrum byrjar alltaf á fyrsta skrefinu"
Ég ætla nú bara að ganga 640 km ef allt gengur vel.
Hamingjusöm Rúna á leiðinni í rúmið.
PS - smá eftirmáli hér frá dótturinni (sem einnig er einkaritari þessarar ferðar). Mamma hefur ekki verið mikið í netsambandi en hún hringdi í morgun og sagði að allt gengi vel. Þau gengu 22 km í gær, upp og niður alla leiðina og því fremur erfitt, auk þess sem ringt hefur meira og minna síðustu daga. En andi hennar er léttur eins og við var að búast - það bítur ekkert á þessa konu!
Bloggar | Breytt 12.6.2017 kl. 19:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.5.2017 | 13:55
Svolítið um Ólaf konung og leiðina mína.
Ég set hér inn smá upplýsingar sem ég fann á netinu um þessa gönguleið og Ólaf konung. Þetta er nú kannski meira fyrir mig til þess að hafa hér í blogginu mínu,en e.t.v. hafa einhverjir gaman af þessu líka.
Leiðin um Guðbrandsdalinn er lengsta pílagrímaleiðin í Noregi og var á miðöldum aðalleiðin milli Oslóar og Þrándheims (Niðaróss). Leiðin er vel merkt og býður uppá fallega náttúru um sveitir, þorp og bæi eftir því sem ég hef lesið.
Á þeirri leið sem við ætlum að ganga, sem er kölluð vesturleiðin getum við heimsótt fæðingarstað Ólafs helga og örugglega marga fleiri áhugaverða staði, og þegar til Lillehammer er komið sameinast vestur og austurleiðirnar í eina. Og leiðin liggur svo yfir Dovre fjöllin allt til Þrándheims og ef allt gengur vel mun þetta taka rúmlega mánuð.
Og hér fyrir neðan eru upplýsingar af vefnum á ensku um Olav konung.
The Norwegina king Olav II Haraldsson was born in 995 as a son og the Viking king Harald Grenske, who was the great grandson of Harald Fairhair.
This was highly advantageous in a time when the country had several small kings and earls, because direct lineage from Harald Fairhair gave the right to inherit the Norwegian throne.
Only 12 years old Olav was introduced to the life as a Viking at sea. His mother, Ásta sent with him the experienced Viking Rane, who became an importand teacher for the young boy.
Olav became a successful Viking chief, who was an alliance with several of the rulers of Europe, but he also had dangerous enemies. King Ethelred got back his country and king Olav was richly rewarded.
Another of king Olav´s allied was the Duke Richard II of Normandy. 19 years old Olav stayed in Rouen, France for many months at the Duke´s court. Though Christianity had been introduced to many places in Norway and King Olav Haraldsson probably knew about this new faith, it was during his stay in Normandy that he was taught Christianity by the Duke´s own brother, Archbishop Robert of Rouen, and was babtized in Rouen 1014.
He came back to Norway with the vision and the call to unite his kingdom to become one Christian country under a new Christian legislation.
During the year 1015/16, he was elected king all over Norway and the "things" which were the Viking´s form for democracy. Free men who owned their land were able to vote. In 1016 Olav was hailed as king at Oyrething in Trondheim. He was then the first to be elected as king over the whole country. During this procedure the king also introduced a Christian legislation, which was fully adopted in 1023 at Mosterthing.
During his 15 years as king of Norway, Olav experienced great progress for his project in the country, but also some resistance from important people who made an alliance with the Danish king. Olav had to flee Norway in 1028 and spent a couple of years in Novgorod at the court of Yaroslav I, Grand Prince of Rus(sia), who was not only his brohter-in-law, but also the foster father of his son, Magnus the Good.
1030 king Olav had a dream which he interpreted as a call to go back home and fight for his country. He arrived at Stiklestad with a small army and was killed at a battle there.
The St.Olav´s saga, writthen by the Icelandic historian Snorri Sturluson, tells about miracles that occurred at the b attle scene and later around the king´s grave in Trondheim.
People started to think that he was a holy man and one year later they convinced the bishop to open the grave. The king looked like he had been sleeping, his hair and nails had grown, his skin was fresh and a wonderful fragrance came up from the coffin. The king was declared a martyr and a saint in the year 1031. The relics were placed in the church and the pilgrimages to the holy king´s relics started immediately.
In 1153 the archbishopric of Nidaros was established by the Pope and the first archbishop, Oystein, started the building of the magnificent cathedral of Nidaros in Trondheim. Archbishop Oystein had studied in France and England and was familiar with the architecture of the European cathedral. He brought both the knowledge and stonemasons with him to Trondheim. Archbishop Oystein was an important person for the venetation of St.Olav. He wrote a book about the life and miracles of St. Olav: "Passio et miracula beati Olavi". This book was spread and copied all over Northern Europe and we can still find some copies, among them in libraries in France and Oxford, England.
Bloggar | Breytt 12.1.2018 kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2017 | 10:46
Noregur kallar!
Jæja, nú er fjórða pílagrímagangan mín á döfinni og eru það frændur mínir í Noregi sem ég ætla að heimsækja og ganga svokallaða leið heilags Ólafs, sem er kennd við Ólaf helga Haraldsson konung.
Ég mun ganga frá Osló til Þrándheims, sem eru u.þ.b. 650 km og legg af stað þann 10. júní. Nú fáum við "ferðafélaginn minn" frá fyrri göngum félagsskap, Hanne sem kemur frá Ameríku og Ger frá Hollandi.
Þegar ég fór að velta þessari gönguleið fyrir mér var eitt sem ég var alveg með á hreinu. Ég vildi ekki ganga þessa leið án þess að vera í samfylgd annarra pílagríma. Leiðin er fáfarin miðað við göngurnar á Spáni og mun erfiðari og ekki eins mikið um gististaði, þannig að það verður ýmislegt öðruvísi en á Jakobsveginum og meira um að hugsa varðandi mat og gistingu og ekki má gleyma því sem miklu máli skiptir - VEÐRINU
Og því voru góð ráð dýr! Eða ekki;o)
Hvernig átti ég að finna mér göngufélaga? Jú, ég fór á síðuna Camino Forum, þar sem upplýsingar eru um allt milli himins og jarðar er varðar pílagrímagöngur. Þar setti ég inn fyrirspurn um hvort einhver hefði hugsað sér að ganga þessa leið 2017.
Og vitið menn!!!! Ég fékk svör frá þremur aðilum, Hanne, Ger og Mario frá Þýskalandi en hann hefur ekki látið heyra í sér í langan tíma þannig að við verðum trúlega þrjú sem höldum í gönguna.
Ég kem til Osló 9. júní og þar munum við pílagrímarnir hittast í fyrsta sinn. Það eru blendnar tilfinningar sem bærast innra með mér, bæði tilhlökkun og einnig smá kvíði. Ég veit að þetta verður erfitt en vonandi líka skemmtilegt.
Allavega hlakka ég mikið til þess að koma til Noregs í fyrsta sinn og fá að upplifa það sem fyrir augu ber.
Hér til vinstri á síðunni er kort af leiðinni sem við ætlum að ganga og förum við leiðina sem kölluð er "vesturleiðin", sem er í byrjun sú sem er vinsta megin á kortinu, en síðar sameinumst við austurleiðinni.
Bara klikka með músinni á kortið og þá stækkar það;o)
Það eru ekki nein tímamörk hjá mér, tek bara einn dag í einu og vonandi nýt þess sem hann færir mér í hvert sinn, (vona að ég þurfi ekki mikið að kljást við íbúa á fótunum mínum, þ.e. blöðrur) En ef það skyldi einhver banka uppá í skónum mínum, þá verður vel hugsað um þann eða þá íbúa.
Það væri gaman fyrir mig ef þið sem áhuga hafið á að fylgja mér hér á síðunni minni, að þið settuð nafnið/nöfnin ykkar í athugasemdir eða gestabókina.
Ég hef bloggað í göngunum mínum þremur og það er alveg frábært að geta lesið bloggin og horfið aftur í tímann - upplifað og glaðst yfir því að hafa getað gengið þessar göngur og að sjá hvað það eru þó margir sem hafa "fylgt" mér. Og ekki síst að lesa fallegu hvatningarorðin sem þar eru - þau fluttu mig langar leiðir.
Þar til næst, sjáumst vonandi hér fyrr en síðar
Rúna - á leið til Noregs
Bloggar | Breytt 5.6.2017 kl. 14:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)