5.7.2017 | 16:24
4. júlí - 25. göngudagur
100 ára afmælisdagur Ástu heitinnar tengdamömmu minnar fyrrverandi, yndislegrar konu sem ég minnist með mikilli hlýju.
Það var kalt í kofanum í nótt. Fengum okkur te og kex og héldum út í kuldann klukkan sex. Við vorum vel dúðuð enda í 1200 metra hæð og það slyddaði um tíma á okkur. Það var hratt gengið niður og maður fann hvernig hlýnaði eftir því sem við færðumst neðar.
Það voru malarvegir í byrjun en svo komu skógarstígar og steyptir vegir. Það var gengið mjög hratt og það kom að því að Ger lét í sér heyra. Hann sagðist ekki geta gengið svona hratt, hann var ekki kátur og Daníel sagði honum að vera þá fyrstur og ráða bara hraðanum þannig að vonandi verður þetta í lagi ef við verðum þrjú saman áfram. Ótrúlega fyndið þegar fullorðnir karlar láta svona, jæja ég hlæ bara að þessu haha.
Það gekk vel að ganga niður, alveg niður í dalverpið, og við komum við í sjoppu á leið okkar í gistinguna og ég fékk mér pylsu. Gat fengið ýmislegt á pylsuna en þurfti að borga auka fyrir allt nema tómat, sinnep og remúlaði. Ég spjallaði nú aðeins við afgreiðslumanninn, sagðist geta fengið allt á pylsuna ókeypis heima og þá lét hann mig hafa laukinn með, sagðist vera í góðu skapi haha.
Nú erum við komin í Hytte Furulund. Lítil, falleg og notaleg hytta með heitu vatni, eldavél og öllum græjum og meira að segja wi-fi. Nú er ég lúin, gott var að fá þvottavél og þurrkara eftir slarkið í gær. Sluppum betur í dag, aðeins smá rigning í byrjun og hér skein sól þegar við komum í hyttuna.
Daníel ætlar að bjóða okkur í mat, búinn að versla ýmislegt blessaður, en það verður farið snemma í háttinn enda allir þreyttir. Það gengur bara vel hjá mér, engir íbúar og ökklinn bara ágætur. Nú tel ég niður, 9-10 dagar eftir þar til ég dett niður til Niðaróss. Ég er farin að finna fyrir meiri þreytu í fótum, farið að langa í soðna ýsu, knúsa fólkið mitt og hitta alla vini mína.
Margt sem kemur í hugann á langri leið - hvað ég er rík að eiga ykkur að. En ég er bara kát og tek dag í senn.
"Ekki gráta vegna þess að það er afstaðið - brostu vegna þess að það átti sér stað"
Takk elsku vinir fyrir að fylgjast með mér og skrifa mér kveðjur!
Pílagríminn sem er enn hress og hlakkar til næsta dags.
PS - Sonja sem skrifaðir hjá mér um daginn - hvað heitir pílagrímasíðan þín??
Athugasemdir
Mikið er gaman að fá að fylgja þér Ólafsveginn Rúna mín. Og ekki að spyrja að því að þú næðir að bæta við einum karli til viðbótar í gönguhópinn. Vonum það besta, að hananir haldi friðinn :D :D Dásamleg frásögn hjá þér :D <3
Er alltaf að verða spenntari og spenntari að hitta þig að lokinni göngu!! <3
Harpa (IP-tala skráð) 5.7.2017 kl. 17:47
Áfram veginn.Nú fer að styttast hjá þer Rúna mín,og er viss um að ævintýrin eiga enn eftir að banka upp á hjá ykkur.❤❤😄
Pulla (IP-tala skráð) 5.7.2017 kl. 19:01
Já ekki spyr maður að þegar tveir hanar eru komnir í hópinn og aldurinn er mismundandi þá skeður eith. vonandi geta þeir verið til friðs það sem eftir ef þið eigið samleið áfram. E.t.v. er Daníel að bjóða ykkur í mat (hann flaggar friðarfánanum) gott er það. Ég er búin að hafa 12 manns í te partí í dag ótrúlegt hvað kemstu fyrir í minni litlu íbúð en allt gekk vel. Það rignir nú hjá okkur eins og endranær en ég læt það ekki hafa áhrif á skapið. Hann var svo ótrúlega skemmtilegur prestuinn á Akranesi einn frasinn hans var "Það sem aldrei hefur gerst getur alltaf gerst aftur" Ég hlusta á hann vin minn
Andre Riu hann er að leika Ave María. Eitt var það sem þessi prestur uppi á skaga sagði hann var kvaddur að dánarbeði konu og hún hafði ákveðnar skoðanir á því sem hún vildi láta syngja yfir sér hvað er það spurði prestur "Afi er að ríja getur þú sungið eith. úr því það gat hún ekki en hún vildi fá Kristján Jóhannesson til að syngja þá kviknaði á perunni hjá presti er það Ave María já það er það.
Þú sér það er eins gott að passa sig á því sem sagt er. Nóg í bili.
ÁFRAM BESTU KVEÐJUR OG ÉG VEIT ÞÚ HEFUR ÞETTA KOMIN SVONA LANGT KÆRA VINKONA UM AÐ GERA AÐ TELJA SIG UPP OG NIÐUR. KVEÐJA HJ.
Helga Jörgensen (IP-tala skráð) 5.7.2017 kl. 19:05
Elsku frænka. Enn fylgist ég með og er orðin frekar spennt að lesa frásögn lokasprettsins. Gangi þér allt í haginn og haltu bara áfram að líta á björtu hliðarnar. Kveðja úr Þorlákshöfn 😉
Sigþrúður frænka (IP-tala skráð) 5.7.2017 kl. 19:40
Sæl
Það er gaman að fylgjast með hvernig gengur hjá ykkur,þetta styttist með hverjum deginum. Það er mikill kraftur í ykkur.
Hér er linkurinn á bloggsíðunua mína, https://fotsporjakobs.wordpress.com
þetta er í sjálfu sér ekki merkileg síða, þetta var skólaverkefni í námi hjá mér fyrir einu og hálfu ári, en þar sem viðfangsefnið hefur verið áhugaefni mitt í nokkur ár, þá finnst mér gaman að halda henni við.
Gangi ykkur áfram vel á göngunni.
Með kveðju,
Sonja
Sonja (IP-tala skráð) 5.7.2017 kl. 23:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.