11. júní - annar göngudagur

Svaf frábærlega vel, alveg frá níu til hálf sjö - alveg ótrúlega gott .  Í gær hringdi hinn þýski Mario og var ekki alveg á því að hætta göngunni.  Hann kom svo þangað sem við gistum á Sæteren Gard og Ger fór og talaði við hann.  Hann lét hann vita að þetta gengi alls ekki að hann héldi áfram með okkur.   Sá þýski lét undan en við vitum ekkert hvað verður hjá honum.  Við lögðum af stað frá Sæteren Gard klukkan níu næsta morgun og það var blautt, ekki mikil rigning og logn.  Ef þið viljið finna á kortinu þá er Sæteren Gard aðeins lengra en Haslum.  Við gengum á malarstígum til að byrja með, svo tóku við skógarstígar með grjóthellum, upp og niður í allan dag.  Hæst gengum við upp í 540 metra og það tók á.  Fyrst um morguninn gekk ég í stuttermabol því það var hlýtt , en um hálf tólf tók að rigna.  Er líða tók á daginn hætti alveg að dropa en það var smá blástur.  Þegar ég gekk í gegnum þéttan skóginn þeytti vindurinn stórum dropum  af trjánum og ég var svolitla stund að átta mig á að það var hætt að rigna.  Þetta kom allt af blöðum trjánna.  Mín svolítið lengi að kveikja á perunni. Leiðin þennan dag lá að mestu um þennan skóg.  Inn á milli voru bændabýli og rosalega flottir golfvellir.    Við stoppuðum á einum slíkum og fengum okkur kaffi og með því og maður minn! Þetta var besta kaffi "ever" og stór nýbakaður kanilsnúður með.  Þetta var ótrúlega gott og ég tvíefldist við það.

Á þessari leið í dag voru mörg upplýsingaskilti sem sögðu frá bæjum, brúm, stríðinu síðara og ýmsu öðru sem  hafði gerst hafði á  þessum slóðum .  

Við gengum mikið í þögn í dag og mér fannst það gott.  Hanne er þreytt enda 73 ára gömul og gengur miklu hægar en við.  Eftir alla skógargönguna komum við að Kleivstue, lítilli húsaþyrpingu með hóteli, og við hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að fá okkur að borða  en allt var lokað.  

Ég náði skemmtilegri mynd við Kleivstue hótelið en þar var rolla á beit með tvö lömb. Hún var ekkert að stressa sig yfir mér heldur hélt bara áfram að bíta sitt gras. Þegar hún hreyfði sig klingdi í bjöllu sem hún var með um hálsinn.  Þetta minnti mig á Jakobsveginn.

Frá Kleivstue héldum við niður stórt og mikið gil.  Ekki veit ég hversu langt það var niður en það var ótrúlega langt.  Ég held að þetta sé á einhverri verndarskrá.  Það var erfitt að ganga, mikið af sléttum hellum, og það fellur falleg á niður gilið.  

Þegar ég var rúmlega hálfnuð niður, hvað gerðist þá?  Sú gula lét sjá sig - dásamlegt.  Og hún skein á okkur það sem eftir lifði dags.  Við gengum gegnum Sundvallen og ekkert stoppað þar því nú styttist í gististað.  Þegar 1. km var eftir að gististaðnum hætti Hanne að ganga.  Við vorum komin svolítið á undan henni og stoppuðum.  Hún stóð bara á veginum og við veifuðu  næsta bíl, báðum bílstjórann að sækja Hanne og fara með hana á gististaðinn. Og það var sko ekkert mál.  Þegar við komum á þangað stuttu síðar var Hanne þar í góðu yfirlæti.  Við Ger vorum himinsæl að komast loksins á leiðarenda. Þessi gististaður heitir Gjestvold gard og þar býr norskur maður sem heitir Christian. Hann tók á móti okkur ásamt tveimur börnum sínum, þeim Haraldi og Ídu. Kona Christian var íslensk í móðurætt, en móðir hennar hafði komið til Noregs á húsmæðraskóla og hitt draumaprinsinn. Þarna bjuggu þau og nú býr Christian þarna en konan hans lést fyrir tveimur árum. 

Þessi litla fjölskylda dekraði við okkur pílagrímana. Það var allt fyrir okkur gert. Við Ger fengum sitt hvora hyttuna  og Hanne svaf í húsi sem áður var fjós.  Þar var betra fyrir hana að komast um. 

Við fengum fínan kvöldverð, bjór á undan, þvotturinn þveginn og þurrkaður. Þarna hittum við fyrsta pílagrímann á leið okkar. Hann heitir Tómas, er frá Sviss en nýr í Berlín. Hann hafði ekki heldur hitt neinn pílagrím fyrr en okkur. Það varð úr þegar leið á kvöldið að Hanne héldi ekki áfram með okkur. Alltaf fækkar í hópnum- hvar endar þetta????

Gjestvold gard var fyrrum bóndabýli og þar var búskapur til ársins 2012. Nú hefur fjósinu og haughúsinu verið breytt í stóra sali og eldhús og þar er allt til útleigu fyrir ýmis konar atburði. Allt svo fallega gert og smekklega. Við fórum snemma í rúmið enda þreytt eftir 27.km göngu. 

Á morgun er nýr dagur 

 

"leynilega uppskriftin að árangri er eldmóður"

Pílagrímakonan svo glöð að hafa hitt Íslendinga sem gátu talað íslensku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góðan  dagEginn.Skrifa hér því það gengur ekkert hjá mér annarsstaðar😄Er búin að finna titil á ferðasögubókina þína þegar þú gefur hana út.Gengið með þínum finmst þér ekki😄Gaman að fulgjat með þér og hugsunum þínum elsku Rúna mín.Kærleikskveðja frá okkur Hólmurunum ❤❤

Púlla (IP-tala skráð) 14.6.2017 kl. 13:44

2 identicon

Gott að heyra frá þér elsku systir mín. Ég geng með mínum er góður titill Púlla mín. ❤❤ Ástarkveðjur til ykkar. 

Rúna systir (IP-tala skráð) 15.6.2017 kl. 13:45

3 identicon

Gaman að lesa bloggið þitt elsku Rúna mín og gangi þér vel.

Sigga Hermanns (IP-tala skráð) 15.6.2017 kl. 17:42

4 identicon

Duglega konan mín. Gangi þér gríðarlega vel og njóttu hins fagra landlags í Noregi. Ég mun guða á gluggann þinn öðru hvoru hér á blogginu og fylgjast með þér. Guð veri með þér laughing

Birna G Konradsdottir (IP-tala skráð) 15.6.2017 kl. 18:02

5 identicon

Ég hef unun af því að fylgjast með ferðum þínum duglega frænka mín. Gangi þér allt í haginn ❤

Sigþrúður frænka (IP-tala skráð) 15.6.2017 kl. 20:05

6 identicon

Gaman að fá að fylgjast með ferðasögunni - þú ert algjör nagli:) Bestu kveðjur!

Soffía (IP-tala skráð) 15.6.2017 kl. 21:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband