12.6.2017 | 23:09
10. júní - fyrsti göngudagur
Ég svaf ekki vel í nótt en ég hvíldist samt. Eftir morgunmatinn lögðum við fjögur af stað klukkan 9:15. Blautt úti en hann hékk þurr til klukkan rúmlega tvö. Steyptir stígar að mestu í dag og það var erfitt svona fyrsta daginn. Fallegt hvert sem litið var, tré, blóm, frussandi fossar og flæðandi ár. Það er mikill vöxtur í öllum ám enda búið að rigna síðastliðna viku. Það var jafnvel lokað á tveimur gönguleiðum okkar vegna vatnavaxta. En allt gekk vel og ekkert vesen. Þegar líða tók á daginn fór nú ýmislegt að gerast. Þá hugsaði ég "fall er fararheill". Mario hinn þýski var greinilega ekki tilbúinn. Hann er sykursjúkur og virðist ekki vera í góðri þjálfun, frekar þrjóskur og vildi ekki borða nóg. Hann var alveg að gefast upp, ekki bara einu sinni heldur mörgum sinnum. Þetta tafði okkur í langan tíma og loksins tók hann sönsum og ákvað að fara aftur til Osló. Við kvöddum hann og vonuðum að allt yrði í lagi. Við komum á gististaðinn um klukkan 17. Erum í lítilli, sætri, rauðri hyttu á stað sem heitir Sæterengard. Ekkert rafmagn, ekkert vatn og þá er bara kveikt á kertum. Þessi kona keypti sér íslenskt skyr og alveg var ég að elska það. Sturtan var svo toppurinn á deginum. Engir óæskilegir íbúar í skónum og mér líður vel en fyrstu dagarnir eru alltaf erfiðastir. Og þessi dagur var allur upp og niður. Við gengum í gegnum skóg, yndislegur fuglasöngur, hestafólk, fólk í sumarleyfi með krökkunum sínum hlaupandi um allt. Rúmlega sex hringdi Mario í Ger og sagðist ætla að halda áfram en ekki veit ég hvernig það fer. Það kemur í ljós á morgun. Ger er góður ferðafélagi, búinn að setja ferðina inn á eitthvað GPS. Það fóru margar hugsanir í gegnum hugann í dag. Það sem ég hef séð af Noregi er fallegt en dýrt, ekki ódýrara en heima, en ég er ekkert að stressa mig á því. 22 kílómetrar í dag. Á morgun verður dagurinn lengri en ætti ekki að tefjast mikið því Mario er ekki með. Dagurinn liðinn og hvílan bíður. Ég er þreytt og ætla snemma í pokann mig góða.
"Nýttu sem best það sem er á þínu valdi, taktu öðru bara eins og það kemur fyrir"
Rúna, sæl og sátt í bleytunni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.