21. júní - tólfti göngudagur

Byrjuðum að ganga klukkan átta, sólarlaust, vindur og kaldur var hann.  Steypan var undir fótum okkar og fyrstu kílómetrarnir fóru í uppgang.  Síðan tóku við moldarstígar og norskir bílstjórar voru ekki mikið að taka tillit til okkar, brunuðu framhjá, spýttu grjóti í allar áttir og rykið yfir okkur.  En við sluppum samt ótrúlega vel miðað við allan bílafjöldann sem fór framhjá okkur.  Við stoppuðum mörgum sinnum á leiðinni upp frá bænum til þess að njóta útsýnisins og alltaf klifruðum við hærra og hærra.  

Í dag var ég flíspeysunni minni alla gönguna því það blæs líka köldum vindi hér eins og heima.  Það voru hvítar kýr með agnarsmáa kálfa, alltaf jafn gaman að sjá hversu forvitnar þær eru.  Á leið okkar framhjá einu húsi kom kona hlaupandi á eftir okkur kallandi og við stoppuðum og snerum við.  Hún færði okkur tvo ísa til að hressa okkur - þetta var skemmtilegt.  Hún spjallaði aðeins og síðan kvöddumst við.  Þetta eru óvænt ævintýri og alltaf jafn skemmtileg.  

Bændur eru hér um allar sléttur að slá falleg tún og á leiðinni sá ég tvö ný fjós, ótrúlega snyrtilegt og fallegar byggingarnar.  Allt eitthvað svo hreint og fínt.  Ilmurinn sem við fundum í morgun þegar við gengum af stað var af nýslegnum túnum og svo lyktin þegar nýbúið er að bera kúask... á tún - þetta fékk misjafnar undirtektir hjá okkur!!

Og svo komum við að hvíldinni, fundum fallega litla byggingu, tröppur upp og sæti inni.  Þarna var gott að setjast, taka af sér skóna og fá sér að borða.  Leið okkar lá síðan inn í lítinn bæ sem heitir Brottum og þar þurftum við smávegis að bæta í búskapinn - aðeins að versla inn.  Eftir þriggja kílómetra viðbótargöngu vorum við komin að bænum þar sem við ætlum að gista og heitir hann Johannes gard.  Þetta er það besta á þessari göngu sem ég hef komið á - flottasti gististaðurinn - alveg hreint magnað.  Þetta er tveggja hæða hús, 6 herbergi og 5 baðherbergi, eldhús á báðum hæðum, sér garður og algjör kyrrð og ró.  Þetta verður erfitt að toppa.  

Það er fernt sem okkur Ger kemur saman um að sé alveg bráðnauðsynlegt.  Í fyrsta lagi: að geta sest niður til að hvíla sig og borða.  Í öðru lagi: að geta farið úr skónum á meðan og hvílt sig.  Í þriðja lagi: að komast í sturtuna á áfangastað, þvo af sér rykið og þvo fötin sín.  Og í fjórða lagi:  einn ískaldur - það toppar þetta allt.  

Mér líður vel, fann smá verk í hægra hné í gær svo í dag gekk ég með hitaband og það virkaði ágætlega svo ég held því bara áfram.  Sólin, þvottur á snúru og slökun í gangi.  21 km í dag.  

"það tilheyrir að villast stundum af vegi og það er bæði gott og rétt að fá sér blund í hlíðinni"

 Rúna sem lifir eins og drottning!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband