8. júlí - tuttugasti og níundi göngudagur

Hann var blautur þegar við lögðum af stað klukkan 6:50 eftir góðan morgunverð á Segard hoel.  En það var logn, engin úrhellisrigning og þegar maður er með gúmmígallann þá er ekki kvartað.  

Í dag vorum við um 90% á steyptum vegi og það er ekki mitt uppáhald en svona eru bara sumir dagar.  Það var nokkurs konar kyrrðarmorgun hjá okkur, gengið um sveitirnar og allt iðagrænt, mikil kyrrð yfir öllu enda laugardagur.  Við vorum í góðum gír eftir langan svefn og hvíld.  Við fórum snemma í háttinn í gær og klukkan 20. var komin ró.  

Á leiðinni í dag komum við á Bergmannskrána því það var nefnilega kominn tími til að fá sé kaffisopa og eitthvað sætt. Og við fengum okkur ilmandi kaffi og dísætar kökur sem smakkaðist  hreint dásamlega.  Rigningin hélt áfram, hlýtt en enginn varð gegnblautur.  Nú þurftum við að versla í matinn, komum við í Coop verslun og það var ýmislegt sem rak á fjörur mínar þar, meðal annars Draumur súkkulaðið.  Ég splæsti í tvö stykki, súkkulaði frá Íslandi með lakkrís og nú á að njóta.  

Auðvitað var hraðbankinn heimsóttur í leiðinni í bænum Lokken en leiðin okkar þennan daginn lá þar í gegn.  Við komum klukkan eitt í gististaðinn og það var kærkomið.  Hann heitir Gumdal gard.  Þá var göngu dagsins lokið.  Við höfðum gengið 24,6 kílómetra á 6 klukkustundum og 45 mínútna stopp inni í því.  Ótrúlegur hraði á þessum köllum og ég elti bara.  

Á bænum tók á móti okkur brosandi kona sem leiddi okkur í allan sannleika um dýrðina sem beið okkar.  Falleg hytta, uppábúin rúm, hlýtt hús, allt til alls og ískaldur í ísskápnum - allt sem ég þurfti.  Og meira að segja þurrka til að þurrka skóna okkar blautu - aldeilis æðislegt.  Og nú eru þeir að verða þurrir, verða fínir á morgun þegar við förum í þá - þetta er svo frábær þjónusta.  

Rétt áður en við komum hingað þá gengum við að steini við brú og á steininum stóð:  "61 km til Niðaróss" - eru þið að trúa þessu?  Mér finnst þetta eiginlega ótrúlegt.  En okkur líður vel, erum komin inn í hlýtt hús, allir glaðir og hér er stúlka líka í nótt, Marlene frá Hollandi - sem sagt fámennt og góðmennt.  Það verður styttri dagur á morgun, blautt áfram eftir því sem mér er sagt en ég er bara sæl og sátt.  

Karlarnir voru að metast um það eitt kvöldið hvor þeirra hefði gengið lengri dagleið í þeim göngum sem þeir hafa farið í.  Ég sat þarna og hlustaði, brosti í huganum og hugsaði:  "pabbi minn er miklu sterkari en pabbi þinn".  Tveir kallar, 66 og 67 ára, að metast - það er ýmislegt sem kemur upp á hjá þeim og annar veit oftast betur en hinn.  Þetta er bara spurning um hvor er fyrri til að koma umræðu af stað, hahaha.  Það er gaman að þeim, þeir eru ótrúlega sérstakir og góðir - og ég er líka mjög sérstök sem betur fer erum við öll einstök.

 Ég er þakklát fyrir að hafa þá með mér hér á þessari göngu, þeir eru góðir göngufélagar og mér finnst gaman að vera með þeim.  Og metingurinn milli þeirra kryddar bara daginn í lokin.  

Nú eru þrír dagar í Niðarós.  Oh hvað ég hlakka til - ég get varla beðið.  Það er svo ótrúlegt að þetta skuli fara að verða búið.  

"Eitt mesta leyndarmál lífsins er að allt sem einhverju máli skiptir er það sem við gerum fyrir aðra"

Kær kveðja heim til ykkar elskurnar

Rúna í rigningunni 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þó styttist verulega er auðvitað þörf á kvatningu eiga að síður. Það er ótrúlegt hvað karlar geta þráttað þeir eru bara að verða eins og gamalt hjónaband. Þetta er e.t.v. viljandi gert til að lita hversdaginn. Þetta er að verða eins og söngurinn hans Ómars Ragnarssonar um strákana tvö sem alltaf voru að kíta. Ég er ánægð fyrir þína hönd að fá svona góða gistingu sem skiftir mestu máli þú átt það skilið að geta hvílst eins vel og kostur er mín kæra. Þessi skóþurka er alveg heilmikið raritet. Við hefðum getað þegið það á sínum tíma.

Í dag var verið að nefna níunda langömmubarnið það er auðvitað farið að kalla hana með nafni löngu áður en hún fæddist Aurora Rós fallegt nafn. Þau öll leggja af stað í ferð um landið á mogrun 11 stk. það er búið að gera áætlun um hvað fólk vill skoða og ég hef verið að bæta í hjá Ólafi allt sem ég man um á leið þeirra.

ÁFRAM MÍN KÆRA ÞAÐ STYTTIST ÓTRÚLEGA FLJÓTT Á NÆSTU DÖGUM OG AÐ LOKUM ERTU HISSA Á AÐ HAFA AFREKAÐ ÞESSA GÖNGU.

KVEÐJA ÞÍN VINKONA HJ.

Helga Jörgensen (IP-tala skráð) 9.7.2017 kl. 21:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband