10. júlí - þrítugasti og fyrsti göngudagur

Ég vaknaði harkalega upp klukkan fimm um nóttina, hjartslátturinn fór á tvöfaldan hraða, því hávær hurðaskellir var á ferð.  Já Ger gat ekki sofið, ákvað að fara á fætur og þessi hávaði fylgdi honum.  Ég held að allir sem gistu þarna þessa nótt hafi vaknað en vonandi sofnað aftur því við Daníel fórum á fætur hægt og hljótt, fengum okkur að borða og út í sólina vorum við komin klukkan sex. Ekki veit ég hvenær verður farið á fætur á morgun, sem verður síðasti göngudagurinn okkar.

Í byrjun þessa dags voru gengnir tveir kílómetrar bratt upp, en svo tóku við malarvegir, stígar í skógi (ekki svo blautir) og aftur komið á malarveg meira og minna þokkalega sléttir.

Daníel gekk á undan okkur og við ein gatnamótin sást hann hvergi.  Við Ger ákváðum að ganga veginn því Ólafsleiðin var þarna ekkert sérlega spennandi, um 2 kílómetrar í mýri.  

Ekkert sást til Daníels en ég hafði ekki áhyggjur, hann er vanur maður.  Við Ger tókum okkur smá hvíld á gatnamótum þar sem við reiknuðum með að sá þriðji kæmi niður en ekkert bólaði á honum.  Og hann var auðvitað kominn langt á undan okkur, það kom í ljós síðar.  

Veðrið lék við okkur en í gærkvöldi var úrhelli í Skaun - við heppin, komin í hús.  Þegar við vorum að ganga niður í Öysand heyrðist fótatak að baki mér.  Þarna var Daníel mættur, skælbrosandi og kátur.  Ég auðvitað fegin að hann var kominn en Ger var frekar pirraður þarna.  Hófust umræður um það hvað hver hefði átt að gera og hvenær og hvernig skipulagið hefði átt að vera á þessari göngu og loks tók mín af skarið -  þetta væri liðið og allt væri í lagi svo við skyldum bara halda áfram.  

Ger var þögull lengi vel, tók ekki undir þegar Daníel talaði til hans  - þetta var svo ótrúlega fyndið, sól, logn og blíða og einhver í fýlu yfir einhverju sem ekki skiptir máli.  En þetta jafnaði sig allt þegar leið á gönguna og við vorum bara kát þegar líða tók á daginn.  

Við settumst inn á kaffihús í Öysand klukkan 10. niður við fallegt vatn að bíða eftir árabát, já árabát, til að ferja okkur yfir.  Kaffi og möffins með stórum súkkulaðibitum í boði Daníels.   Eftir góða hvíldarstund gengum við af stað um ellefuleytið til ferjustaðarins og sátum þar í steikjandi sól og hita til klukkan hálf eitt.  Þá kom ferjumaðurinn.  Hann heitir John og er bóndi á Sundet gard og er með 120 svín og svo pílagrímagistingu.  Bátskænan hans rann ljúflega yfir vatnsflötinn og þetta var gaman þegar ég var komin yfir hræðsluna að þurfa að fara í árabát.  

Það var gott að koma í hyttuna sem við fengum, ekkert rafmagn en sturta og hún var dásamleg.  Í dag gengum við 19 km. frá klukkan 6 til 11 í blíðu - við erum alltaf ótrúlega heppin með veðrið.  Hérna sitjum við göngufélagarnir þrír og njótum þess að vera í kyrrðinni.  Umræðan er til dæmis: "hversu margar nærbuxur þeir félagar eru með"!! haha.  Ég hló mig alveg máttlausa og ég sit undir þessu!!  

Og núna þegar líða tók á daginn kom hingað í hyttuna hún Marta frá Danmörku.  Hún fékk eitt rúm hjá okkur en hún hafði ekki útvegað sér gistingu áður svo við vorum með eitt aukarúm í hyttunni og buðum henni að gista þar. Og í kvöld mun verða fjölmenni í mat og í morgunmat á morgun hjá bændum hér.  Við þrjú og Marta, par frá Þýskalandi, Marlene frá Hollandi og trúlega ungur þjóðverji sem hraut hraustlega síðastliðna nótt.  

Í fyrramálið verður ekki lagt snemma af stað því morgunmatur er klukkan átta en trúlega verður tekið á sprett að honum loknum ef ég þekki mína félaga rétt.  Hér fljúga fiðrildi í fallegum litum í kringum okkur, smáfuglarnir syngja, ég búin að fá einn ískaldan pilsner og lifi eins og blóm í eggi.  

Það er bæði gleði og söknuður í hugum okkar.  Gleði yfir því að hafa gert þetta og að þessu sé að ljúka, söknuður yfir því að þetta ferðalag okkar er brátt á enda.  

"Hamingjan kemur inn um dyrnar sem þú veist ekki einu sinni að þú hafir opnað" 

Kveðjur til ykkar allra

Rúnan, á síðustu kílómetrunum


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já svona er það stundum með karlmenn þeim finnst smámunir skifta máli sem ekki er vert að velta sér upp úr, en eftir ferðina ertu skilin við þessa herra þó það sé alltaf erfitt að skilja en þakkaðu bara fyrir að þurfa ekki að búa með heim það sem eftir er. Nærbuxur já verðugT umræðuefni ha, ha. Hm. í árabát ég sé þig í anda tel að þú hafir andað djúpt áður en þú lagðir í þá ferð.

Já nú er þessi á enda kominn og þú getur verið ótrúlega slolt af þér að ná þessum áfanga, getur verið róleg næsta árið hér heima. Það verður dýrmætt að taka það rólega á næstunni mín kæra.

VERTU SVO VELKOMINN HEIM ÞVÍ ÞAÐ ER EKKI NÆST BEST HELDUR ALLRA BEST, BEST.

KVEÐJA HELGA.

Helga Jörgensen (IP-tala skráð) 11.7.2017 kl. 17:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband