20. júní - ellefti göngudagur.

Ég vaknaði klukkan sjö eftir góða hvíld og ljúft símtal í gærkvöldi.  Sól, já sól og útsýnið ægifagurt.  Eins og venjulega fengum við okkur morgunmat og lögðum síðan af stað, komum við í Veldre kirkju og okkur að óvörum var kirkjan opin.  Falleg kirkja með fallegri altaristöflu og við hliðina á kirkjunni stendur lítil kapella, Maríukapella.  Kapellan er alltaf opin á meðan á "pílagrímaútgerðinni" stendur.  

Við héldum síðan leið okkar áfram og komum að risastóru furutré sem er friðað og girt er í kringum það.  Árið 2016 var haldið upp á 500 ára afmæli trésins!  Það var heljarinnar upplifun að standa þarna og hugsa um þessi 500 ár sem þetta tré á að hafa staðið þarna.  Og áfram var haldið, komum við á bensínstöð og keyptum okkur kaffi og þar komu tvær norskar eldri konur til okkar þar sem við sátum úti í sólinni. Þær höfðu tekið eftir fánanum glampandi á pokanum mínum og vildu spjalla - höfðu báðar komið til Íslands.  Það er alltaf yndislegt þegar fólk gefur sig á tal við mann og sýnir áhuga á því sem maður er að gera.  

Nú tók við notaleg skógarganga og og í gegnum hana komum að stað þar sem skáldið Alf Proysen var ættaður frá.  Hann skrifaði margar barnabækur, m.a. um Little mrs Petterpot.  Það var falleg stytta af honum þarna og einnig var búið að koma upp safni um líf hans og starf.  

Allt gekk þetta vel hjá okkur og að lokum komum við að Ringsaker kirkju um hádegið, settumst á bekk í kirkjugarðinum og þar var snæddur hádegismatur.  Alveg er það ótrúlega magnað að taka af sér skóna, láta líða úr sér, ganga um á sokkaleistunum og bara njóta.  Ringsaker kirkjan var opin.  Við fórum inn eftir matinn og fyrir dyrum stóð jarðaför.  Kistan og mikið af blómum komið inn í kirkjuna.  Kirkjuvörður sýndi okkur það sem okkur langaði að sjá og leyfði okkur að skoða okkur um.  Í lokin kveikti ég á kerti fyrir mína.  Svo var auðvitað stimplað í passann, það má ekki gleymast.  

Leiðin lá nú meðfram  Mjösavatni, í gegnum hjólhýsa og tjaldsvæði.  Ekki mikið prívatlíf þar, hús við hús, en þessi staður er fallegur.  Og nú var komið að því sem ég vissi að við myndum gera einhvern tímann á leið okkar, að ganga undir Mjösebrúna stóru sem við höfðum ekið yfir fyrir tveimur dögum.  Það var ótrúlegt að ganga þarna undir.  Og alltaf kem ég auga á eitthvað fyndið og skemmtilegt á leiðinni, sniðug skilti við veginn, fallegar myndir á póstkössum, fljúgandi fiðrildi og Ger er búinn að þola mig í 11 daga!!  

Um klukkan þrjú urðum við mikið kát þegar við náðum í náttstað, á sveitabæ sem heitir Ringli.  Þar ráða ríkjum hjónin Harald og Sovli og hann er fæddur hér á þessum bæ.  Það er verið að byggja hér upp hús eins og þau voru í gamla daga, aldeilis fallegt, og mín sefur uppi á lofti undir súð.  Harald hefur oft komið til Íslands.  Hann var í norska hernum og eitthvað var hann að aðstoða víkingasveitina okkar, kannski að kenna þeim, hress og kátur kallinn.  Aftur lá leiðin okkar í dag fyrst á steyptu, síðan mjúkir stígar, innst í skógi var sveitavegur og 22 km gengnir í dag.  Veðrið var gott í dag eins og alla undanfarna daga og ég er lánsöm.  Hjartans kveðjur til ykkar.

Í lokin: "Ásetningur - haltu ótrauð áfram, farðu ferða þinna, gerðu pílagrímagönguna að öðru og meiru en venjulegum garðsstíg.

Það verður gott að leggjast á koddann í kvöld!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki er að sökum að spyrja hvar sem þú ferð er alltaf einhver sem þekkir þig (af endemum ef ekki annað) man vel eftir því þegar við vorum í Skotlandi og við gengum um Fort Willam að það var kallað á þig.

Það er góð vísbending að vera með fánann Ísl. steima að man eftir í S. Afríku þegar við settum hann út því Álfheiður nokkur átti að vera komin að aðrir landar komu sem var ekki leiðinlegt.

Heldurðu ekki að konan hans Gerd sé bara hrækkur um hann á feðalagi með þér. Ha,ha. Margar fallegar kirkjur eru allstaðar og alltaf gaman að skoða þær.

Kveðaj til þín mín kæra þeir hafa sent út viðvörun frá veðurstofunni það er s.s. sumar á Fróni. 

Helga Jörgensen (IP-tala skráð) 22.6.2017 kl. 20:28

2 identicon

Mikið er gaman að fá að fylgjast með ferðum þínum um Noreg,...... þetta hlýtur að verða heilt ævintýri - mitt 1/4 norska hjarta tekur aukakippi :-)  Dáist að þér að koma þessu í verk.... á mínum sveitabæ er ég búin að vera að væflast með í marga áratugi að fá mér gróðurhús, vonast til að mér takist það ætlunarverk í haust eða snemma næsta vor !

Ég vona að mér takist að fylgjast með ferð þinni í gegnum bloggið - takk fyrir að deila sögu þinni og "gangi" þér allt í haginn mín kæra!

Þórunn Reykdal (IP-tala skráð) 22.6.2017 kl. 20:51

3 identicon

Gaman að fylgjast með Rúna mín og gott að heyra að allt gengur vel og ekki síst hvernig veðrið leikur við þig :) Vonandi mun lukkan fylgja þér restina af leiðinni.  Bestu kveðjur frá okkur Grétari.

Erla María (IP-tala skráð) 22.6.2017 kl. 21:19

4 identicon

Áfram gakk elsku mamma mín - ég hlakka svo til að fá þig heim, sakna þín endalaust.  Kossar og knús frá okkur öllum 

Dóttirin (IP-tala skráð) 22.6.2017 kl. 23:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband