5.7.2017 | 08:15
3. júlí - 24 göngudagur
Við Ger borðuðum kvöldmat ásamt Daníel, manninum frá Sviss sem braut saman þvottinn fyrir mig, og Erik frá Noregi í gærkvöldi á hóteli á hótelinu við hliðina á kojugistingunni okkar. Fínn matur og ég sofnaði fljótt og svaf vel í því efra.
Í morgun var blautt og þokuslæður í fjöllum. Við fengum morgunmat á hótelinu klukkan sjö og hálfátta héldum við af stað, ég, Ger og Daníel sem vildi endilega ganga með okkur. Við vorum vopnuð gúmmígöllunum og fyrstu þrjá og hálfa kílómetrana þurftum við að ganga veginn en svo var haldið á brattann, já heldur betur, snarbratt, örmjótt, blautur stígur, ég taldi mörgum sinnum upp á 50 og fór jafnvel upp í 60, þar til við vorum komin upp í 1200 metra hæð. Þá tóku við góðir stígar, ekki mikið upp og niður. Það var þokusúld og kalt en logn.
Við vorum ekki mikið að stoppa, bara rétt til að drekka og nærast aðeins. Falleg vötn, kindur með lömbin sín, lóusöngur enn og aftur, allt þetta lét mig gleyma því að stundum var þetta erfitt. Og svo kom að því að hæsta toppi á Ólafsvegi yrði náð! Daníel var alltaf aðeins á undan okkur Ger en nú stoppaði hann allt í einu og sagði: "Rúna þú átt að vera fyrst á toppinn" - tillitssamur kallinn. Ég dreif mig alla leið og fagnaði eins og sigurvegari - 1314 metra hæð!!
Við höfðum farið úr 800 metrum í 1200 svo niður í 900 og loks í 1314 - alveg æðislega gaman - búin að bíða eftir þessu lengi. En það var kalt á toppnum, rok, súld og tveggja gráðu hiti. Gangan gekk vel og í albergið Ryphuset komum við klukkan hálf eitt eftir snarpa 21 kílómetra göngu á 5 klukkutímum. Þetta er dalakofi með 11 dýnuplássum, gashitara og eldavél, nóg af öllu og hægt að versla ýmislegt ef maður er svangur. Daníel náði í vatn í lækinn, kveikt á öllu og vatnið soðið til að hita mat og te og auðvitað strjúka sér létt um andlit til að hressa sig við.
Ekkert rafmagn, ekkert símasamband en ég er bara svo glöð að vera komin hingað. Við vorum þau fyrstu sem litum hér inn og gátum því valið okkur rúmstæði. Nú er ég búin að borða, búa um mig og svo skín sólin hér fyrir utan og þurrkar skóna mína. Þetta var góður dagur og á morgun verða það víst 28 kílómetrar, niður að mestu leyti.
Klukkan hálf fimm í dag birtust hér fimm norskar konur sem eru að ganga veginn í nokkrum hlutum árlega. Mikið fjör, spjallað og hlegið. Það verður gaman að sjá hamaganginn í fyrramálið ef við verðum ekki farin á undan þeim. Klukkan hálf fimm kom annar maður hingað og þá vorum við orðin níu - þröngt á þingi. Svo klukkan hálf tólf komu tvær konur í viðbót! Allt fullt, ekki þverfótað fyrir fólki út um allt.
"Hve indælt það er að gera ekki neitt og hvíla sig svo vel á eftir"
Pílagrímakonan í dalakofa
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.