2.7.2017 | 22:33
2.júlí - 23. göngudagur
Þoka í fjallshlíðum og það hafði rignt, við lögðum í hann kl 7 og hækkunin í dag úr 800m í 1200, niður aftur í 900 og upp í 1100 og endað í 800m. Það var hlýtt og logn, engin fluga á uppleiðinni sem betur fer.
Þessi leið kom mér á óvart, hélt þetta yrði mjög erfitt. Við gengum í byrjun á jafnsléttu, þá tók fjallgangan við, ég var ekkert að missa andann. Hægt og rólega liðum við upp hlíðarnar og á toppnum vorum við umlukin þoku, svolítið sérstakt að sitja þarna og horfa inn í þokuveggina allan hringinn. Og þarna setti ég upp vettlingana, það var kalt í þokunni. En ekki stóð þetta lengi og brátt birti til, falleg lítil vötn víða, Lóu söngur og gúgú fuglinn lét vita af sér.
Á þessari leið í dag mættum við þónokkuð af fólki sem kom á móti okkur, greinilega vinsælt að ganga héðan yfir fjallgarðinn niður til Hjerkinn.
Þar er meðal annars Pílagríma-center en við vorum svo snemma á ferðinn í morgun að það var ekki opið. Nú erum við komin í koju herbergi og ég í þeirri efri, ekkert mál. Við fáum morgunmat í fyrramálið hér í birtingunni, góð tilbreyting.
Gangan var frekar létt 17 km og síðustu 15 mínúturnar komu dropar úr lofti, þegar við komum í hlaðið á Kongsvoll skein sólin, þetta var stuttur og góður dagur 5 klst að rölta þessa kílómetra, nú erum við komin undir þessa 200 km sem eftir eru.
Það verður spennandi að sjá hvort við fáum gistingu á morgun, gátum ekki pantað það svo nú er bara að leggjast á bæn og vona að þetta gangi upp.
Bros er vegabréf sem kemur þér hvert sem þú vilt
Kveðjur til ykkar allra frá konunni í sólinni, telur niður og er farin að finna spennu vaxa innra með sér.
Athugasemdir
Sæll heillin allt í lagi að búast við því versta og svo reynist það ekki ver svo slæmt. Já það styttist í annan endan en það er ekki búið fyrr en það er búið. Þið eruð nú oftast komin snemma í náttstað svo það verður e.t.v. ekki erfitt fyrir ykkur að finna náttstað næst vona ég. Fólkið í dag hefur verið í helgargöngu geri ég ráð fyrir. Það var yndislegt að hitta fólkið sitt í dag börnin blaðrandi á öllum tungum en það er verið að kenna þeim að tala Ísl. og Markús minn 6 ára er bestur í þessu en það gengur erfiðlega að kenna honum að segja R á ísl. það vill endilega lenda svo neðarlega í kokinu en það er búið að lofa honum ís þegar hann er búinn að ná þessu. Langafi var með munnhörpu og þau fengu að reyna það gekk misjafnlega Emilía fjögra ára blés bara inn og út ég sagði við hana að hún væri eins og brunabíll þá hló hún en litla Emma tveggja og hálfs lagði svo mikið í bláturinn að hún var eldrauð í framan en svo syngjum við barnalög sem þau þekkja með undirspili það finnst þeim skemmtilegt. Emma hefur mikinn áhuga fyrir kongulóm og ég verða að sýna henni allar sem ég finn hún syngur konguló, konguló.
ÁFRAM RÚNA MÍN MEÐ SÖNG Í HJARTA KONGULÓ, KONGULÓ VÍSAÐU MÉR Á BERJAMÓ LENGRA FER ÉG EKKI.
Helga Jörgensen (IP-tala skráð) 2.7.2017 kl. 22:48
Gaman að lesa póstinn þinn. Þú ert nú meiri dugnaðarforkurinn. Hvað eruð þið mörg í hópnum? Ég fylgist með þér Runa mín.
Af okkur er allt gott að frétta, við látum okkur nægja að vera í 10-12 stiga hita. Um miðjan júlí förum við öll fjölskyldan norður. Við erum búin að fá hús á Hofsósi í nokkra daga, þarna þekki ég svolítið til, því eg var i sveit þarna allt um kring í 8 sumur. Við keyrum kannski til Siglufjarðar og eyðum deginum þar og það er margt skemmtilegt hægt að gera og skoða í sveitinni.
Gangi þér allt í haginn Rúna min, sjáumst vonandi fljótlega hressar og kátar. Guð fylgi þér.
Auður Aradóttir (IP-tala skráð) 3.7.2017 kl. 22:37
Búin að veta að lesa pistlana elsku sys.Bara dáist af þér,Dugnaður ,gleði,og gamansemin kemur þér áfram.Og ekki er verra að fá þvottinn samanbrotinn,albeg yndislegt.😄Þykir mikið vænt um þig og gangi ykkur mikið vel í göngunni ykkar.Kveðja úr Halakotinu.😄😄💗💗
Pulla (IP-tala skráð) 4.7.2017 kl. 11:34
Auður mín mikið var gaman að sjá nafnið þitt hér. Við höfum bara verið tvö þar til fyrir tveimur dögum að annar maður bættist í hópinn. Kær kveðja til ykkar
Rúna (IP-tala skráð) 4.7.2017 kl. 14:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.