13. júní - fjórði dagur - búin að finna lausn á vatnsvandamálinu!!

Við yfirgáfum General hótel um hálf níu, sól og þessi kona kát.  Allt í góðu lagi og nú var fjórði dagurinn hafinn.  sólin skein, malbikið beið okkar en þegar líða tók á komu góðu stígarnir aftur og þó þeir væru blautir og á köflum forarsvað var ég fegin.  Á einu tré í skóginum hékk lítið fuglahús með pínulitlu opi.  Þar kíkti út agnarsmár ungi, gulur að lit og ég held að hann hafi gert þetta bara fyrir mig.  Hann var yndislega fallegur.  Við göngufélagarnir, ég og Ger, erum búin að finna það út að í öllum kirkjugörðum er hægt að ná í vatn.  Það hefur nefnilega ekki verið hlaupið að því að finna vatn á leiðinni enn sem komið er.  Á tveggja tíma fresti stoppum við, setjumst niður, skórnir losaðir af þreyttum og heitum fótum.  Þetta er gert á hverjum degi og jafnvel gengið berfætt um tún ef það er hægt.  Ég er ennþá íbúalaus (blöðrulaus), enginn hefur bankað upp á til að fá leigt hjá mér sem betur fer og ekki hefur flugnabitunum fjölgað en landslagið á höfðinu mínu er orðið dálítið skrítið.  Þar er allt í hólum og hæðum og einn og einn hóll sést líka á handleggjunum og eru þetta bitin eftir flugurnar.  Þær gáfu mér líka tvö stór kýli á sitthvort gagnaugað, þeim hefur greinilega litist vel á mig en ég kvarta ekki, þetta hefur bara sinn tíma.  Við komum til Jevnaker klukkan hálf þrjú eftir 6 tíma göngu svolítið upp og niður og stopp til að hvíla sig, 23 km að baki.  Ég hef sér herbergi með útsýni út á Randsfjörðinn.  Fengum okkur að borða á Tælenskum stað og ég var himinlifandi með matinn.  Fer alltaf snemma í rúmið - veitir ekki af hvíldinni.  

"Hver dagur þér færi gleði og gæfu

geislandi morgunsól

hver dagur þér færi farsæld og frið

fegurstu kvöldsól"

Góða nótt elskurnar, sakna ykkar og elska ykkur.

Pílagríminn á leið í rúmið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband