28. júní - nítjándi göngudagur.

Fyrst er það ömmustrákurinn minn sem á afmæli í dag - elsku Kristófer minn, innilega til hamingju með 16 ára afmælið þitt og hafðu það sem best í Póllandi.  Kær kveðja til þín og mömmu og pabba.  

Jæja í gær efaðist ég um það hvort ég gæti haldið áfram.  Dagurinn í gær var ótrúlega erfiður en í morgun leið mér betur og ég var full bjartsýni.  Í litlu hyttunni númer fjögur var vaknað rúmlega 6 eftir 10 tíma svefn sem var sko vel þeginn.  

Miklar umræður hjá okkur Ger í gær um daginn í dag.  Þessi dagur er nefnilega, samkvæmt leiðsögubókinni, ekki léttari en sá í gær og sá dagur kallaði fram eymsli í hægri ökklanum mínum svo nú voru góð ráð dýr!  Áttum við að ráðast í fjöllinn, taka sénsinn að allt yrði í lagi, taka strætó og sleppa þessum legg eða ganga legginn á veginum?  Ger var búinn að finna leið eftir veginum og ég samþykkti hana.  

Hún er 22 km, allt steyptur vegur, ekki mikið upp og niður og það var ekki mikil umferð.  Hún lá með ánni, yfir brýr og ljúft að hlusta á árniðinn í bland við fuglasönginn.  Svo komu traktorar á fullri ferð, bændur á fullu í heyskap og hundarnir geltu er við gengum hjá.  Sólin skein í allan dag og það var ansi heitt.  Mér leið bara ágætlega í ökklanum, var með gott teygjuband og ég verð bara að vona að þetta gangi hjá mér.  

Við komum við í lítilli búð við bensínstöð, fengum okkur kaffi og sátum úti í tröllagarði.  Þar er allt fullt af útskornum fígúrum í öllum stærðum og gaman að skoða þetta.  Inn á milli tröllanna var útskorinn Elvis - skemmtilegt.  Og enn halda myndirnar á póstkössunum áfram að gleðja mig.  Í byrjun var Ger alveg hissa á mér að taka þessar myndir en hver er það í dag sem alltaf er fyrstur að kíkja á póstkassana, nema Ger.  Hann er orðinn spenntur fyrir þessu og hefur gaman af.  

Og í dag sáum við það sem við erum búin að bíða eftir, Dofre fjöllin blöstu við okkur í fyrsta sinn, allavega svona almennilega.  Þarna vonast ég til að byrja á að klifra á föstudaginn og það skal ég segja ykkur að það gladdi mig að sjá loksins FJALL, ekki skógivaxnar hlíðar á báða vegu dalsins.  Stundum þrengja þessi óendanlegu tré að mér og þá hugsa ég um víðáttuna heima og gleðst.  

Nú erum við komin á Pensjon hér í Otta, uppábúin rúm og ég ætla út að borða í kvöld.  Við gengum 23 km í dag, 22 tilheyrðu göngunni, hinn fór í að leita að gististað og kaupa bj..!

Og bara svo að fólkið mitt viti það þá er ég ALLTAF tilbúin á undan þeim hollenska.  Hann er stundum ansi fyndinn, utan við sig, finnur ekki þetta og hitt og fer oft lengri leiðina að hinu og þessu.  En mér er alveg sama því án hans væri ég ekki hér og þessi draumur minn væri ekki að rætast.  Jæja elskurnar, nú er ég farin að telja niður.  19 dagar komnir og 13 eftir ef allt gengur vel.  Þið hugsið til mín og þá hefst þetta.  

"Hamingjan er þar sem þú finnur hana"

Rúnan, svo lánsöm og heppin.


27. júní - átjándi göngudagur

Vöknuðum á undan öllum hinum, drifið sig að borða og klukkan sjö klifrað beint upp!  Ég var varla komin úr rúminu - úff hvað þetta var erfitt.  Úr 300 metrum í 600 metra, niður í 500 og aftur upp í 600, niður í 300 upp í 450, niður í 350 upp í 500, smá niður og upp í 600 og loksins niður í 250 metra.  

En dagurinn var sólardagur, kaldur vindur.  Þegar við vorum uppi var kaldara en hlýtt þegar neðar dró, þetta gekk ágætlega en mikið rosalega reyndi þetta á fæturna og ég tala nú ekki um öndunarfærin.  En ég reyndi að sjá eitthvað skemmtilegt og þegar við vorum komin í fyrstu hæstu hæðir þá blasti við þvílík fegurð.  Áin liðaðist um dalinn, bæir kúrandi upp um öll fjöll, kindur og kýr á beit, klingjandi bjöllur sem fengu mig til að brosa.  Heyskapur um allt, ilmur af nýslegnu grasi, þetta allt gerði mér gott og stoppin hjá okkur voru ekki mörg því hvergi var hægt að setjast niður nema á harðan steininn og það var ekkert sérlega notalegt.  

Þá hófust heljarinnar slagsmál við mýið sem var mikið í dag.  Við gengum fram á risastóra styttu af gíraffa á leiðinni niður, einhver hefur haft gaman af að búa hana til og setja þarna.  Málaðir póstkassar glöddu mig, svo fallegar myndir á mörgum þeirra.  

Þegar við loksins sáum til Kvam þar sem við ætlum að gista voru samt einir 5-6 km eftir.  Við þurftum að ganga þessa kílómetra ofan við bæinn eiginlega, alveg í hálfhring og þetta ætlaði aldrei að enda.  Steyptur bílvegur undir, ekki það vinsælasta hjá mér, sérstaklega ekki í lok erfiðs dags.  Við komum kl tvö á hytte og tjaldsvæðið, yfir okkur glöð.  

Fengum hyttu númer 4, tvær kojur og ég í efri.  Það verður ljúft að sofna.  25 km í dag og nú á ég að vera hálfnuð.  Sólin skín, þvotturinn þornaður, sturtan æði og maturinn líka.  Á morgun kemur nýr dagur.  

"Guð er vinur þagnarinnar, tré, blóm og gras vex í þögn.  Sjáðu stjörnurnar, tunglið og sólina hvernig þau hreyfast í þögn".

Kær kveðja til ykkar

þreytt pílagrímakona sem efaðist um getu sína í kvöld.


Bloggfærslur 29. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband