28. júní - nítjándi göngudagur.

Fyrst er það ömmustrákurinn minn sem á afmæli í dag - elsku Kristófer minn, innilega til hamingju með 16 ára afmælið þitt og hafðu það sem best í Póllandi.  Kær kveðja til þín og mömmu og pabba.  

Jæja í gær efaðist ég um það hvort ég gæti haldið áfram.  Dagurinn í gær var ótrúlega erfiður en í morgun leið mér betur og ég var full bjartsýni.  Í litlu hyttunni númer fjögur var vaknað rúmlega 6 eftir 10 tíma svefn sem var sko vel þeginn.  

Miklar umræður hjá okkur Ger í gær um daginn í dag.  Þessi dagur er nefnilega, samkvæmt leiðsögubókinni, ekki léttari en sá í gær og sá dagur kallaði fram eymsli í hægri ökklanum mínum svo nú voru góð ráð dýr!  Áttum við að ráðast í fjöllinn, taka sénsinn að allt yrði í lagi, taka strætó og sleppa þessum legg eða ganga legginn á veginum?  Ger var búinn að finna leið eftir veginum og ég samþykkti hana.  

Hún er 22 km, allt steyptur vegur, ekki mikið upp og niður og það var ekki mikil umferð.  Hún lá með ánni, yfir brýr og ljúft að hlusta á árniðinn í bland við fuglasönginn.  Svo komu traktorar á fullri ferð, bændur á fullu í heyskap og hundarnir geltu er við gengum hjá.  Sólin skein í allan dag og það var ansi heitt.  Mér leið bara ágætlega í ökklanum, var með gott teygjuband og ég verð bara að vona að þetta gangi hjá mér.  

Við komum við í lítilli búð við bensínstöð, fengum okkur kaffi og sátum úti í tröllagarði.  Þar er allt fullt af útskornum fígúrum í öllum stærðum og gaman að skoða þetta.  Inn á milli tröllanna var útskorinn Elvis - skemmtilegt.  Og enn halda myndirnar á póstkössunum áfram að gleðja mig.  Í byrjun var Ger alveg hissa á mér að taka þessar myndir en hver er það í dag sem alltaf er fyrstur að kíkja á póstkassana, nema Ger.  Hann er orðinn spenntur fyrir þessu og hefur gaman af.  

Og í dag sáum við það sem við erum búin að bíða eftir, Dofre fjöllin blöstu við okkur í fyrsta sinn, allavega svona almennilega.  Þarna vonast ég til að byrja á að klifra á föstudaginn og það skal ég segja ykkur að það gladdi mig að sjá loksins FJALL, ekki skógivaxnar hlíðar á báða vegu dalsins.  Stundum þrengja þessi óendanlegu tré að mér og þá hugsa ég um víðáttuna heima og gleðst.  

Nú erum við komin á Pensjon hér í Otta, uppábúin rúm og ég ætla út að borða í kvöld.  Við gengum 23 km í dag, 22 tilheyrðu göngunni, hinn fór í að leita að gististað og kaupa bj..!

Og bara svo að fólkið mitt viti það þá er ég ALLTAF tilbúin á undan þeim hollenska.  Hann er stundum ansi fyndinn, utan við sig, finnur ekki þetta og hitt og fer oft lengri leiðina að hinu og þessu.  En mér er alveg sama því án hans væri ég ekki hér og þessi draumur minn væri ekki að rætast.  Jæja elskurnar, nú er ég farin að telja niður.  19 dagar komnir og 13 eftir ef allt gengur vel.  Þið hugsið til mín og þá hefst þetta.  

"Hamingjan er þar sem þú finnur hana"

Rúnan, svo lánsöm og heppin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já þú kallar ekki allt ömmu þína mamma mín - þvílíkur dagur hjá þér í gær og eina sem þú finnur er verkur í öðrum ökklanum.  Þú ert mögnuð!!!  

Ekki er ég hissa á að þú skulir ALLTAF vera tilbúin á undan göngufélaganum - skil ekkert í því að þú sért ekki búin að finna leið til að vera tilbúin á undan sjálfri þér!!!  Þú ert svo dugleg mamma mín og ég hlakka svo til þess að fá þig aftur heim.  Hér er allt í góðu, blómin dafna áfram, sá hvíti bíður rólegur hér fyrir utan, búið að skipta um gluggana á blokkinni þinni svo hún lítur ansi vel út og íbúðin bara í góðum málum.  Ég nýt þess að skoða myndirnar þínar á fésbókinni - dásamlegt að fylgja þér í þessu.  Knús og kossar frá öllum hér sem öll eru svo stolt af tengdó og ömmu.

dóttirin (IP-tala skráð) 29.6.2017 kl. 12:06

2 identicon

Bíð allataf spennt eftir pistlunum þínum :-) Bangsaknús á þig og vona að ökklinn jafni sig :-) Kv. Dúna

Guðrún Marta Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 29.6.2017 kl. 13:19

3 identicon

Þú ert nú meiri dugnaðarforkurinn elsku Rúna mín. Gangi þér sem allra best.  Hugsa oft til þín. Þetta er rétt að koma hjá þér.laughing

Sigga Hermanns (IP-tala skráð) 29.6.2017 kl. 17:39

4 identicon

Komdu sæl

Ég er búin að eiga ánægjulega kvöldstund við að lesa ferðasöguna þína og dáist að dugnaðinum í þér. Mér til mikillar ánægju hef ég komist að því að það eru þrjár aðrar vefdagbækur úr pílagrímaferðum þínum sem bíða mín og ég hlakka til að lesa þær síðar.  

Ég hef mikinn áhuga á pílagrímaferðum og því mikill fengur fyrir mig að komast í svona ferðasögur - og ég tók mér það bessaleyfi að vísa í síðurnar þínar á vefsíðu sem ég er með um pílagrímaferðir og vona að það sé í lagi þín vegna.  

Gangi ykkur vel - hlakka til að lesa meira um ferðina ykkar næstu daga.  

Sonja (IP-tala skráð) 29.6.2017 kl. 23:41

5 identicon

Elsku Rúna mín!

Ég hef því miður ekki getað fylgst með þér sem skildi. Var fyrst í hjólaferð  á Ítalíu og kom svo með 2 litla grísi með mér norður og þá er nú búið að vera fjör í kotinu. Hef aðeins kíkt á Fb á kvöldin og séð frábæru myndirnar þínar. Ekki að spurja að fegurðinni í Noregi og mikið hlýtur þetta að vera skemmtilegt og yndislegt landslag sem þú ert að fara í gegnum og húsin og gististaðirnir, þetta er allt eitthvað svo frábært og öðruvísi að sjá. Veit að þú nýtur þín. Hlakka til að hitta þig þegar þú kemur heim, þá verður það bara IC nr. 2 eða er það ekki bara :-) Knús í hús til þín Rúna mín, kveðja, Gunna.

Guðrún Pálsdóttir (IP-tala skráð) 30.6.2017 kl. 08:10

6 identicon

Heillakerlingin svona gengur það maður er víst ekki eldri en maður vill vera en þú ert ótrúlega seig miðað við aldur og fyrri gönguferðir. Þegar hæðamunurinn er svona mikill verður þú að telja upp að 60 einusinni og aftur og aftur þetta þekkjum við. Besta við þetta allt er að geta hvílst og gulrótin segir nú sitt. Þú ert að ganga í ótrúlega fallegu landslagi það hjálpar verra væri það erf það væri ekki fallegt og einnig er gott að hann vinur þinn er góður ferðafélagi auðvitað ert þú alltaf tilbúinn á undan honum það varstu líka oftast þegar við þrömmuðum saman. Ég vona bara að þetta gangi áfram vel og öklinn plagi þig ekki of mikið nú getur þú farið að telja niður sem er viss áfangi út af fyrir sig. Ég var með 47 Rauðakrosskonur í ferð upp á Akranes enduðum á Bjarteyjarsandi (í kvöldverði og dásamlegum söng ung upprennandi stúlka tónlistarkennari söng fyrir okkur) í gær tók þetta fyrir Önnu Þrúði hún er ansi léleg og treysti sér ekki ég hljóp í skarðið við fengum frábærf veður af og til súldaði aðeins en þá vorum við inni í rútunni gettu bílstjórinn sem við fengum var Guðjón Þórðarson hinn eini sanni hann þekkti auðvitað allt á Skaganum en hann var hinn ljúfasti lipur og þjónustulundin í góðu lagi. Konurnar voru ánægðar og þá er maður glaður og ein hringdi áðan til að þakka mér fyrir ferðina.

ÉG STAPPA Í ÞIG STÁLINU MÍN KÆRA OG HLAKKA TIL ÞEGAR ÞÚ KEMUR HEIM. GÓÐAR KVEÐJUR TIL ÞÍN RÚNA MÍN.

Helga Jörgensen (IP-tala skráð) 30.6.2017 kl. 14:59

7 identicon

Rúna mín, ég hef ekkert skrifað til þín, en hugsað því meir.

Góðar óskir og kveðjur,

Sveinbjörg

Sveinbjörg Pálsdóttir (IP-tala skráð) 30.6.2017 kl. 17:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband