10.7.2017 | 23:20
9. júlí - þrítugasti göngudagur
Svaf mjög vel og þegar ég kíkti út um litla herbergisgluggann minn var hætt að rigna. Allir klárir klukkan 6:30 og við byrjuðum frekar sporlétt enda vissum við ekki hvað beið okkar. Það var kyrrt og hljótt er við gengum með fallegu vatni, Solsjoen.
Fyrsta klukkutímann var það malarvegur og það var hlýtt úti, logn og sólarlaust. Aldeilis besta veðrið. Eftir liðlega klukkustund tóku við skógarstígar sem voru ekki það sem mig langaði í eftir rigninguna í gær en ekki var um neitt annað að ræða. Næstu sjö til átta kílómetrana var ekkert annað gert en að ganga í mýrarbleytunni og drullunni í skóginum, ekkert útsýni til að gleyma sér við og kannski eins gott því öll athygli varð að vera á því hvar þú stigir niður fæti. Við vorum öll holdvot, það bullaði í skónum og rúsínutær litu dagsins ljós í lok dags. Þetta var erfitt og hægfarið - maður sökk í vatnið við hvert spor og moldin og grjótið í skóginum var hált.
En allt tók þetta enda, sólin lét sjá sig og þegar við áttum eftir um 6 kílómetra í gististaðinn komum við loks á veg. Það var kærkomið þó hann væri steyptur. Það er farið að tala um það hversu stutt sé í lokin og komin spenna í fólk enda erum við búin að vera á þessu ferðalagi í heilan mánuð. Þegar við sáum í kirkjuturninn hér í Skaun urðum við yfir okkur kát og fegin. Aftan við kirkjuna í Skaun er gististaðurinn okkar og heitir hann Menighetshuset. Þar tóku hjón á móti okkur, þau Rut og Leif. Þau voru rétt að klára að þrífa þegar við komum klukkan hálf tólf eftir 5 klukkustunda göngu og 21 kílómeter.
Hér gistum við í sal sem er með heilmörgum ferðarúmum, svona gestarúmum eins og við köllum það. Hér getum við eldað okkur og svo ætla þau hjónin að fara með okkur í kvöld að skoða kirkjuna. Þetta hús sem við gistum í virðist vera einhverskonar safnaðarheimili, fallegar kristilegar myndir á veggjunum og útsaumur og vefnaður líka. Hér er gott að vera, félagarnir mínir í fínu lagi og eins er með mig. Nú er það hvíld fram að kvöldmat og hún er kærkomin.
Klukkan hálf þrjú birtist sú hollenska, Marlene, og var hún orðin ansi þreytt eftir 7 1/2 klukkustunda ferðalag. Klukkan hálf sex komu svo par og ungur drengur frá Þýskalandi og Martha frá Danmörku en hún var ein á ferð. Hún er búin að ganga í viku eins og þýski strákurinn en þýska parið hefur verið á göngu frá Lillehammer. Í dag tóku þau öll lest í áttina hingað, orðin eitthvað tímabundin, og nú verður kátt í kotinu í kvöld.
Mér líður vel og ég er orðin ofboðslega spennt að klára. Ég hlakka svo mikið til - tveir dagar í endamarkið.
"Við öll, á einhverju stigi lífs okkar, þurfum að taka heilræðum og móttaka hjálp frá öðru fólki"
Elska ykkur og sakna ykkar
Rúsínurúna
Athugasemdir
Ótrúlegt ferðalag sem þú hefur nú næstum klárað elsku mamma mín og það sem ég er STOLT AF ÞÉR!! og við öll hér heima! Þú ert algjört kraftaverk og svo mikil fyrirmynd fyrir okkur hin. Það var gott að heyra í þér í dag og pakkinn er lagður af stað til þín elsku mamma. Njóttu nú síðustu sporanna og svo hvíldarinnar sem á eftir kemur. Ég hlakka svo mikið til að fá þig heim
Knús og kossar frá okkur öllum
Dóttirin (IP-tala skráð) 10.7.2017 kl. 23:22
Jæja það styttist heldur betur í annan endann mér dettur í hug þegar við vorum að ganga einu sinni á Þingvöllum mannstu ekki eftir því við gátum varla dregið fæturnar upp úr drullunni án þess að heyrðis sog, sog sjaldan gengið í annari eins drullu en það hafðist. Svefnplássið er eins og í einskonar Héraðskóla vonandi sefur þú samt vel ekki of mikið um hrotur. Í svona Mennigarhúsi ættu að vera betri aðstaða til gistingar en svona er það bara. Það í heitara lagi hér þessa dagana 11 manna fljölskylda lagaði af stað á tveim bílum og m/ kerru og 10 manna tjald frá Hafnarfirði ég vona að það gangi vel og allir klæði sig vel í pokann það er vandamál að láta fólk skilja að við erum hér á klakanum.
ÁFRAM VELGENGNI Á ÞINNI FERð MÍN KÆAR VINKONA ÞAÐ VERÐUR GOTT Á FÁ ÞIG HEIM AFTUR.
ÁHYGGJUFULL AMMA OG LANGAMMA.
Helga Jörgensen (IP-tala skráð) 10.7.2017 kl. 23:43
Spennandi! Gangi þér vel á lokasprettinum duglega frænka!
Sigþrúður frænka (IP-tala skráð) 11.7.2017 kl. 00:36
Lokadagur runninn upp - mikið verður gaman að heyra í þér og lesa hér hvernig síðustu metrarnir voru. Njóttu hvíldarinnar sem nú tekur við og við hlökkum til að fá þig heim. Kveðja frá okkur öllum hér í Hólagötunni :)
Davíð Harðarson (IP-tala skráð) 11.7.2017 kl. 11:40
Alltaf gaman að lesa um ykkur.Skil vel að þú sért orðin spennt að hitta fólkið þitt og knúsa.Segi bara gleðilega rest elsku sys😄❤
Pulla (IP-tala skráð) 11.7.2017 kl. 11:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.