29.6.2017 | 11:33
27. júní - átjándi göngudagur
Vöknuðum á undan öllum hinum, drifið sig að borða og klukkan sjö klifrað beint upp! Ég var varla komin úr rúminu - úff hvað þetta var erfitt. Úr 300 metrum í 600 metra, niður í 500 og aftur upp í 600, niður í 300 upp í 450, niður í 350 upp í 500, smá niður og upp í 600 og loksins niður í 250 metra.
En dagurinn var sólardagur, kaldur vindur. Þegar við vorum uppi var kaldara en hlýtt þegar neðar dró, þetta gekk ágætlega en mikið rosalega reyndi þetta á fæturna og ég tala nú ekki um öndunarfærin. En ég reyndi að sjá eitthvað skemmtilegt og þegar við vorum komin í fyrstu hæstu hæðir þá blasti við þvílík fegurð. Áin liðaðist um dalinn, bæir kúrandi upp um öll fjöll, kindur og kýr á beit, klingjandi bjöllur sem fengu mig til að brosa. Heyskapur um allt, ilmur af nýslegnu grasi, þetta allt gerði mér gott og stoppin hjá okkur voru ekki mörg því hvergi var hægt að setjast niður nema á harðan steininn og það var ekkert sérlega notalegt.
Þá hófust heljarinnar slagsmál við mýið sem var mikið í dag. Við gengum fram á risastóra styttu af gíraffa á leiðinni niður, einhver hefur haft gaman af að búa hana til og setja þarna. Málaðir póstkassar glöddu mig, svo fallegar myndir á mörgum þeirra.
Þegar við loksins sáum til Kvam þar sem við ætlum að gista voru samt einir 5-6 km eftir. Við þurftum að ganga þessa kílómetra ofan við bæinn eiginlega, alveg í hálfhring og þetta ætlaði aldrei að enda. Steyptur bílvegur undir, ekki það vinsælasta hjá mér, sérstaklega ekki í lok erfiðs dags. Við komum kl tvö á hytte og tjaldsvæðið, yfir okkur glöð.
Fengum hyttu númer 4, tvær kojur og ég í efri. Það verður ljúft að sofna. 25 km í dag og nú á ég að vera hálfnuð. Sólin skín, þvotturinn þornaður, sturtan æði og maturinn líka. Á morgun kemur nýr dagur.
"Guð er vinur þagnarinnar, tré, blóm og gras vex í þögn. Sjáðu stjörnurnar, tunglið og sólina hvernig þau hreyfast í þögn".
Kær kveðja til ykkar
þreytt pílagrímakona sem efaðist um getu sína í kvöld.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.