22. júní - þrettándi göngudagurinn

Góður nætursvefn á Johannesar gard og dagurinn heilsaði sólarlaus í logni.  Eins og venjulega var byrjað á næringu, pakkað og lagt af stað klukkan átta.  Þetta var góður göngudagur, ekkert mikið svitnað eða staðið á öndinni.  Lítið erfiði semsagt.  Við gengum niður í langan tíma, langleiðina niður að Mjosevatni, og eftir tveggja klukkustunda göngu vorum við farin að skima eftir bekk til að setjast á en enginn var bekkurinn.  

Við gengum framhjá litlu fallegu húsi sem stóð c.a. 50-60m neðan við veginn.  Þar sátu kona og maður úti á bekk, hmmm þetta var of freistandi til þess að sleppa því.  Við röltum til þeirra, heilsuðum og spurðum hvort við mættum tylla okkur um stund.  Alveg sjálfsagt sagði kallinn og þar með var hann rokinn.  Konan sem heitir Mille og er áttræð talaði bara norsku svo nú þurfti ég að gera mitt besta til að spjalla við hana og merkilegt nokk, þetta gekk bara vel.  

Hún færði okkur kók og glös út á veröndina og sat svo á sínum stól og reykti.  Hvarf stutta stund inn og þegar við vorum búin að drekka kókið tók ég glösin og kókið sem eftir var og færði henni inn í dyrnar.  Þá var sú gamla búin að varalita sig og vildi endilega sýna mér fallega litla húsið sem var mikið fínt allt saman.  Og í lokin fékk ég að smella af henni mynd.  Þetta var góð stund með henni og svo vinkuðum við hvorri annarri þangað til við vorum komin í hvarf.  

Nú fór að styttast verulega til Lillehammer og skíðastökkpallurinn frá Ólympíuleikunum sást langar leiðir.  Við stoppuðum næst við Söre Al kirkjuna, borðuðum okkar hádegismat, fórum úr skóm og nutum.  Með stuttu millibili komu til okkar tveir eldri menn.  Þeir voru að fara í kirkjugarðinn og vildu spjalla við okkur.  Hvaðan við værum að koma, hvert við værum að fara, hvað við vorum búin að vera lengi og hvað við ætluðum að vera lengi.  Og alltaf koma hlýjar og góðar óskir í lokin - "God tur".  

Til Lillehammer komum við um eittleytið, fórum á göngugötuna, settumst á kaffihús úti og fengum okkur kaffi.  Mikið líf á göngugötunni, fullt af fólki og gaman að njóta.  Gistingin hjá okkur í dag er í gömlu húsi og er hún sú lélegasta hingað til en ég verð bara að taka því, enda búin að vera heppin.  Sturtan, þvotturinn og bjórinn - í þessari röð - allt í röð og reglu hér.  

Á meðan Ger sat við ipadinn sinn fór ég í smá göngu um bæinn, get nú varla sagt að ég hafi gengið um bæinn, fór hérna smá hring.  Ég verð bara að koma hingað seinna og njóta og skoða.  Eftir matinn sátum við og spjölluðum um næstu daga, við erum búin að panta gistingu fyrir næstu fjóra daga, og klukkan níu var farið í rúmið.  15 km í dag - þetta styttist elskurnar og ég vona bara að allt haldi áfram að ganga vel.  

"Lífið er lexía sem maður verður að upplifa til þess að skilja"

Sól í hjarta og sól í sinni hjá konunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl frænka mín. Las fjögurra daga skammt núna og hafði gaman af. Mikið dáist ég að þér! Gangi ykkur áfram allt til sólar 🌞

Sigþrúður frænka (IP-tala skráð) 23.6.2017 kl. 03:27

2 identicon

Gott og gaman aðlesa um að all gangi vel elsku sys.Knús til þín.❤😎

Púlla (IP-tala skráð) 23.6.2017 kl. 17:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband