19. júní-sólar og kvennadagur.

Ég svaf vel, hvíldist og vöknuð um sjöleytið. Dagurinn í dag verður nokkurs konar letidagur, farið í Kiwi verslunina til að kaupa nesti, skoða rústir miðaldakirkju sem nú er undir gleri. Þetta glerhýsi er sko engin smásmíði, aldeilis magnað að sjá þetta. Rústirnar voru sífellt að skemmast meira og meira og því var glerhöllin reist.

Við gengum líka út að Víkingaskipinu en það er skautahöllin sem reist var fyrir vetrarólympíuleikana 1994. Höllin var lokuð því miður en gaman var að sjá hana þrátt fyrir það.

 

Eftir þennan leiðangur lá leiðin til Pílagríma center til þess að ná í okkar pjönkur og taka strætó til móts við Gjövik handan vatnsins því við ætluðum að byrja á svipuðum slóðum austan megin og þar sem við hættum vestan megin. 

Það var enn sama blíðan sem lék við kinnar og fólk sendi okkur falleg bros og veifaði þegar við yfirgáfum Brumunddal. 

Það var gott að komast aftur í kyrrðina þó uppgangur biði okkar. Við vorum búin að panta gistingu rétt hjá Veldre kirkjunni og þangað var förinni heitið.

Á leiðinni upp einn veginn stóðu tveir menn fyrir utan hús og þegar við komum nær sá ég mann sem ég þekki. Þetta var enginn annar en Örn Bárður og hann ætlaði ekki að trúa sínum eigin augum frekar en ég. Hann sagðist hafa komið auga á islenska fánann en ekki hvarflað að honum að þetta væri ég. 

Og nú fékk ég hlýtt faðmlag og kossa á kinnar. Þetta var svo skemmtilegt og óvænt, við spjölluðum í dálitla stund og þegar við kvöddumst fékk ég hlýjar kveðjur í farteskið. 

Svona getur það verið lífið á veginum, óvænt, yndislegt, erfitt, auðvelt og oftast skemmtilegt.

Húsið þar sem við gistum þessa nótt er tveggja hæða hús og þar er allt til alls og við erum bara tvö í stórum sæl en það má alltaf búast við fleirum.

Nú var kokkað eins og oft áður enda ekki boðið upp á restauranta hér í sveitinni. Svo undarlegt sem það er þá er ég orðin eldklár að sjóða spaghetti og hugmyndaflugið um meðlætið fær að njóta sín til fulls en verður ekki opinberað hér í þessu bloggi mínu. 

Ger skrifar blogg á hverjum degi og frúin hans hringir á hverju kvöldi til að heyra hvernig gengur. Hún hefur kannski áhyggjur af honum þar sem hann er með sykursýki og glútenóþol. Hann passar mjög vel upp á þetta allt saman og allt hefur gengið vel. 

Nú er tíundi dagurinn að kvöldi kominn og 18.km gengnir í dag - ekki nokkur gangur í þessu. 

Fallegt veður og fallegt land - bið ekki um meira í bili.

Í lokin: Hver vegur að heiman er vegurinn heim.

Sæl og sátt sendi ég kveðjur til ykkar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband