22.6.2017 | 16:04
18. júní. Níundi göngudagur- Gjövik- Hamar.
Vaknaði í sól kl.6.30 því við erum með plan fyrir daginn. Snæddum okkar morgunmat, pökkuðum ofan í pokana og örkuðum af stað. Nú lá leiðin til Gjövik og við gengum að mestu með Mjösavatninu, tilbreyting frá fjallahéruðunum undanfarið.
En vatnið gerði okkur grikk oftar en einu sinni því mikið hafði ringt undanfarið og það flæddi yfir gönguleiðina á nokkrum stöðum. En við gerðumst útlagar og ruddum okkur leiðir gegnum skógarþykkni og allt gekk það stórslysalaust, einstaka skrámur sem gróa.
Dagurinn var mjúkur 90%, fallegir stíga þar sem ekki flæddi yfir. Þegar við komum til Gjövik var farið að svipast um eftir kaffi og það rættist heldur betur úr því. Við komum auga á útikaffi, Drengestue kafé og þar tók ilmandi nýbökuð kanelbolla á móti mér.
Það er ýmislegt sem rætt er þegar við stoppum í kirkjugörðum og fáum okkur vatn á pelana okkar. Við erum viss um að vatnið sé Holy water því það endist ótrúlega lengi hver svo sem ástæðan er.
Eftir kaffið góða og bolluna sem rann ljúflega niður héldum við niður á strætóstöð og tókum okkur far yfir Mjösebrúna yfir til Hamar. Nú verður haldið áfram austan megin til Þrándheims.
Við erum komin í gistingu hjá Pilgrims center í Hamar og þvílíkt flott, uppábúin rúm, handklæði, matur í ísskápnum sem við megum nota og fín sturta, then I am happy.
Þegar við komum hingað tók Henrik , ungur maður á móti okkur, hlýr og hjálpsamur og vildi allt fyrir okkur gera. Honum fannst gaman og merkilegt að ég væri að vinna hjá biskup Íslands og talaði um að biskupinn sem væri hjá þeim væri Solveig Fiske. Og auðvitað kannaðist ég við nafnið.
Gestabókin á pilgrimssetrinu var frá 2012 og ég fletti gegnum hana því þar eru skráð heimalönd pílagrímana sem þarna hafa komið og ég vonaðist til að sjá þar íslensk nöfn en svo var ekki.
Þegar ég var búin að vera þarna góða stund fór mér að líða svolítið einkennilegt, svitnaði og varð alveg orkulaus. Ég hafði nefnilega gleymt að borða og nú kom það niður á mér, en þetta gerist ekki aftur.
Allir fjalla og hólatindar horfnir úr höfðinu á mér, bólurnar á gagnaugum horfnar og þá sjaldan ég lít í spegil er ég bara nokkuð í lagi en það er nú bara mín skoðun.
Spaghetti í matinn og jarðarber í eftirmat. Fætur í lagi, finn ekki mikið fyrir pokanum nema þá helst þegar ég er nýbúin að kaupa inn.
Takk til ykkar allra sem hafið kíkt hér inn og hjartans þakkir til ykkar sem hafið sett inn kveðjur til mín. Það er yndislegt að lesa og yljar mér svo sannarlega.
Nú er nýr dagur framundan og ég á leiðinni inn í draumalandið.
Í lokin þetta: "fegursta blóm jarðarinnar er brosið."
Kær kveðja til ykkar allra frá sælum pílagríma í Hamar.
Athugasemdir
Gott að það gengur vel hjá ykkur. Nokkrum sinnum hef ég heyrt talað um Hamar frá móður minni það var tengiliður við fólk sem hún kynntist í gegnum söngin. Gott er að kirkugararnir eru ykkur hliðhollir í lifandi lífi.
Ég mundi nú ekkert vera að horfa í spegil ef maður á ekki von á góðu, nógur tími eftir það. Já það getur verið afleitt að gleyma að borða þú þarft á orkunni að halda gengur ekki að maður sé í aðhaldi á svona ferð. Áfram Rúna mín með baráttu kveðju til þín.
Helga Jörgensen (IP-tala skráð) 22.6.2017 kl. 16:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.