17. júní - okkar dagur!

Horthe bærinn þar sem við gistum síðastliðna nótt er sveitabær en enginn búskapur þar lengur.  Allt er svo hreint og fallegt og ofboðslega mikið af stórum húsum.  Ég sofnaði klukkan 8 í gærkvöldi og svaf til klukkan hálf sjö í morgun - endurnærð eftir góðan svefn.  Í dag munum við nálgast Gjovik en þangað eru um 30 km frá því sem við erum núna.  Þetta verður fyrsta borgin sem við komum til en þarna búa um 30 þúsund manns.  Það verður á morgun sem við munum koma þangað.  Við gætum nú alveg fengið nett sjokk eftir alla kyrrðina.  Flestir dagar hafa nefnilega verið í kyrrð - já bara eins og kyrrðardagar í Skálholti.  Við hlustum á skóhljóðin okkar, fuglasönginn og einstaka bíl eða traktor sem ekur hjá, þetta er alveg frábært.  Dagurinn byrjaði á smá hækkun, það verður sko að vera þannig, og við vorum böðuð í sólinni.  Héruðin um allt með sveitabæjunum fallegu í öllum litum og lífið var um allar jarðir.  Í dag lá leiðin um fallegan bæ sem heitir Lena og þar vorum við aftur heppin.  Þar var bæjarhátíð, fólk um allar götur, söngur, dans og sölutjöld og ég fékk mér kaffi og vöfflu með rjóma í tilefni dagsins.  Það hvarflaði nú aðeins að mér þegar ég sá öll lætin þegar við komum í bæinn að þetta væri allt fyrir okkur Ger en það var víst ekki (ég verð nú alltaf að hafa smá grín með).  Þarna var mikil gleði, allir í sumarskapi í sólinni, fólk gaf sig á tal við okkur og þetta var yndislegt.  Eftir rúmlega hálftíma hvíld héldum við áfram leið okkar og eftir ofurlitla uppgöngu þá blasti enn ein dýrðin við.  Mjosa vatnið með öllum sínum seglbátum, bæjum, þorpum og undurfallegu landslagi allt um kring.  Ég stóð bara og dró andann djúpt.  Þetta var ótrúlega fallegt.  Við ákváðum að finna okkur gistingu í Kapp, en sá bær stendur alveg við flæðarmálið á vatninu Mjosa.  Nú erum við komin í gistinguna og það er hús byggt úr bjálkum líkt og stafkirkjur voru gerðar í gamla daga og jafnvel enn í dag.  Fín herbergi, stór garður, sturtan æði, matur og veitingastaðir við höfnina, ekki hægt að biðja um meira.  Þessi dagur var með þeim léttari og 24 km í höfn.  Við förum að nálgast 200 kílómetrana, þetta er spennandi.  Hafið það gott, það reyni ég að gera á hverjum degi.

"Leitaðu að einhverju fögru og þú munt finna það"

Konan í bjálkahúsinu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl mín kæra.  Gaman að fylgjast með þér.  Gangi þér og þínum ferðafélögum áfram vel.  Kærleikskveðja.  Agnes

Agnes M. Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 17.6.2017 kl. 23:47

2 identicon

Sæl Rúna mín loksins er ég komin á rétta slóð ég er búin að vera leið yfir því að komast ekki í samband við þig. Ég sé að allt gengur vel hjá þér góðan ferðafélaga og undursamlegt landslag og veðurfar og ég tala ekki um gott fólk sem er allstaðar hvaða tungumál sem menn tala. Ég fæ fiðring þegar þú talar um að sofa í Hytta það hef ég prófað einu sinni einmitt í Noregi. Lífið gengur sinn vana gang hér smá úði á Þjóðhátíðardeginum en hellirigndi eftir öll skemmtiatriði. Ég fór ekki út, sennilega vaxin upp úr öllu húllum hæi. Smá saga af mér ég tók að mér að flagga hérna við húsið mitt áður en ég var búin að skoða aðstöðuna sem er vægast sagt hrykaleg maður verður að fara upp á steinvegg og teygja sig hátt til að ná í flaggalínuna ég hugsaði kl. tæplega átta um morguninn ég ætti ekki annað eftir en að brjóta mig við að koma upp fánanum en loks tókst það en um kvöldið þurfti ég aðstoð, fyrst upp á stól (upp á stór stendur hún amma ha ha) ég vildi ekki smána fánann svo vinkona mín hér í húsinu tók við honum. Maður á ekki að taka að sér verkefni sem maður er ekki fær um. Áframhaldandi góðar kveðjur til þín ÁFRAM MÍN KÆRA.

Helga Jörgensen (IP-tala skráð) 18.6.2017 kl. 17:41

3 identicon

Noregur virðist fara mikið vel með þig elsku sys.Mikil fegurð og gott veður bara yndislegt.Gangi ykkur áfram vel í ævintýrinu.Risaknús.💗

Púlla (IP-tala skráð) 21.6.2017 kl. 09:04

4 identicon

Sæl frænka mín! Þú hefur verið eins og við systkinin á 17.júní í gamla daga; héldum að það væri væri flaggað og haldin hátíð því mamma ætti afmæli! Gaman að fylgjast með þér og upplifa Noreg í gegnum skrifin 😉

Sigþrúður frænka (IP-tala skráð) 22.6.2017 kl. 05:51

5 identicon

Halló! cool Ekkert að gerast? Ekkert netsamband? smile Vonandi gengur allt vel, hlakka til að heyra meira!

kv

g

gfinnbjarnar (IP-tala skráð) 22.6.2017 kl. 15:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband