17.6.2017 | 19:15
16. júní - það rignir!
Fyrst langar mig að senda Hauki mínum, Agötu minni og Kristófer mínum góðar óskir um farsæla ferð til Póllands - njótið elskurnar mínar. Þessi dagur heilsar okkur með rigningu en lognið er algjört og þá er allt í lagi að ganga. Við gengum frá í litlu hyttunni okkar í Bjarkarhúsi, skelltum okkur í gúmmígallana og skunduðum af stað. Fyrstu kílómetrarnir voru upp í móti, að sjálfsögðu, en síðan tók að halla undan fæti. Ég hreinlega elska svona niðurgang!! Við fundum Gapahuk, sem er eins konar skýli til að hvílast í og það var gott eftir 2 klukkutíma göngu frá því klukkan 8:30 þegar við lögðum af stað í morgun. Og ef ég hef þetta rétt vorum við í enda Einarsfjarðar. Það rigndi ekki mikið og það var heitt. Ég alltaf að fara úr eða í gúmmíklæðin. Leiðin í dag var fallegt sveitahérað. Bæir kúrandi um allar hlíðar beggja vegna fjarðarins og í dag vorum við um tíma í 680 metra hæð og það birti alltaf á milli skúra og við nutum útsýnisins. Eftir Gapahuppið var hvergi að finna stað til að hvílast. Við gengum og gengum til klukkan hálf þrjú og eftir þriggja tíma göngu birtist okkur norskur engill, Ole Johann að nafni. Hann var fyrir utan einn sveitabæinn að vinna og við ákváðum að spyrja hvort við gætum fengið að tylla okkur á tröppurnar í 10 mínútur. Það var mikið sjálfsagt. Hann fór inn í bæinn, lét foreldra sína vita af okkur og pabbi hans sem líka heitir Ole kom með tvo stóla handa okkur. Síðan birtist mamman, Berit, og vildi endilega að við kæmum inn í kaffi. Nú vorum við sannarlega heppin. Þeir sem þekkja mig vita vel að ég hef ekki mikið á móti sætum kökum og þarna fékk ég ósk mína uppfyllta - svo sannarlega. Heimabakaða furstakakan bráðnaði upp í mér og ég fékk ljósrit af uppskriftinni sem er aldeilis frábært. Þetta fólk var yndislegt og við sátum hjá þeim í eina klukkustund. Það sem var svo krúttlegt við þetta var tölvan þeirra. Pínulítil og í útliti eins og túbusjónvarp. Ég missti mig alveg yfir þessu krútti en kunni samt ekki við að taka mynd af henni. Við kvöddum þessi dásemdarhjón og son þeirra og nú fór að styttast í Holthegard. Hann var ekki langt frá Lena. Lena er bær aðeins norðar, 22 km gengnir í dag. Og frúin á Holthegard heitir Lena og tók hún aldeilis höfðinglega á móti okkur. Hún lét okkur hafa hús með þremur svefnherbergjum, sturta fyrir hvern, eldhús, uppábúin rúm, kvöldmat og allt fyrir morgunmatinn líka. Þvotturinn okkar beint í þvottavél og blásaraþurrka til að þurrka blautu skóna okkur - allt þetta fyrir 600 krónur - ekki stór upphæð finnst mér. Þessi dagur var sá léttasti hingað til og fyrsta vikan að baki, hugsa sér 7 dagar liðnir. Ég er svo glöð að geta þetta og litli íbúinn er ekkert að angra mig. Og svo er það besta af öllu, það er að fá símtal frá öllum heima. Það yljar pílagrímanum. Rúnan öll að hressast af harðsperrum og vonandi á allt eftir að ganga vel áfram. Dag í senn - það er mottóið. Svanapar flaug yfir hjá okkur í dag og við fengum fallegan svanasöng á heiði - það toppar daginn. Elska ykkur og sakna ykkar - hafið það sem best.
"Því betur sem ég kynnist heiminum, því eldri verð ég"
Athugasemdir
þú ert óborganleg mín kæra. Njóttu þessa ævintýris... heyrumst...síðar
Birna G Konradsdottir (IP-tala skráð) 17.6.2017 kl. 21:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.