17.6.2017 | 18:54
15. júní - gamaldags rúm!
Rúmið var svona eins og lokrekkja en ekki með himnasæng. Yndislegt rúm eins og ég svaf í þegar ég var barn í sveitinni hjá ömmu. Þegar ég lagðist í rúmið sökk ég bara niður í mjúka dýnu og það var bara frábært. En nú er 15. júní runninn upp og hann gefur mér ýmislegt. Í fyrsta lagi svaf ég ekki vel í nótt því ein lítil fluga getur gert manni lífið leitt. Og í öðru lagi var Morten ekki búinn að koma sér upp gardínum svo birtan varð líka til þess ég svaf ekki vel. En strákurinn bætti þetta upp með góðum morgunverði og við kvöddum hann og kisu klukkan hálf níu. Sól og logn í byrjun en nú fór ég í flísið því ég er dálítið sólbrunnin á handleggjunum, en það lagast allt. Við gengum niður í bæinn Brandbu þar sem um 7 þúsund manns búa. Nú þurfti að gera innkaup því kvöldmatur og morgunmatur verður víst í okkar höndum. Leiðin til Brandbu lá niður á við, já já kom ekki á óvart. Eftir verslunarferðina, sem setti mig nú ekki á höfuðið, hófst 15 km ganga upp, upp og það tók á. Við stoppuðum eins og áður og nutum, dagurinn í gær og hluti af deginum í dag er Toscana Noregs enda hægt að gleyma sér við að horfa. En það var bæði steypa og mjúkir stígar í dag og endalaus kyrrð. Ég er bara mjög glöð þrátt fyrir að hver dagur taki á, þannig eflist þrjóskan og ég færist einum degi nær takmarkinu. Ég hef átt góð samtöl við hinn ósýnilega ferðafélaga og hann stappar í mig stálinu, þess vegna get ég þetta. So far so good. Við komum á áfangastað klukkan hálf tvö - yndislegan stað í miðjum skógi og hann heitir Ástjörn. Þessi staður er mitt á milli Brandbu og Lena. Við þurftum reyndar að lækka hæðina ansi mikið en það var vel þess virði. Þetta er vin í skóginum, margar hyttur, þjónustuhús og við fengum meira að segja aðgang að netinu. Og svo skutlaðist hún Monika, forstöðukonan hér sem tók á móti okkur, í búðina fyrir okkur til að kaupa tvo bjóra. Það er dagsskammturinn - alltaf. Hún lét okkur vita af því að upp úr klukkan fimm kæmu hér blaðamenn og ljósmyndarar því von væri á forsætisráðherra Noregs og hún kæmi í þyrlu. Og hér hópaðist að fólk úr öllum áttum og krakkahópar sem eru hér í sumarbúðum biðu spennt eftir þyrlunni. Um sjöleytið birtist hér þessi flotta, glansandi, svarta þyrla, lenti um 100 metrum frá hyttunni okkar og út steig frúin. Sportlega klædd spjallaði hún við fólkið hér, fékk sér kaffi og gekk um svæðið. Hér voru líka bændur og dýraverndunarsinnar. Í héruðunum í sveitinni hefur mikið gengið á því villiúlfur hefur verið að ráðast á kindur og lömb. Bændur vilja að reynt verði að ná honum og aflífa en það vilja dýraverndunarsinnar ekki svo þetta er bara orðin pólitík. Ja hérna hér og við Ger mitt í þessu öllu saman - spennandi. Skemmtilegt að sjá þetta allt saman og upplifa einstakan atburð í raun og veru. Við göngufélagarnir elduðum okkur spaghetti með fínni sterkri sósu sem rann ljúflega niður. Um níuleytið bankaði hér upp ung stúlka, Jane að nafni. Hún vinnur á pílagrímaskrifstofu í Grönvollen og hafði frétt af okkur. Hún bauð okkur að hringja til sín hvenær sem við vildum og tók mynd af okkur fyrir Grönvollen síðuna, já við Ger erum alltaf að sjá eitthvað nýtt á þessari göngu. Ég sofnaði um tíuleytið og svaf mikið vel til morguns. Pílagrímakonan í miðju ævintýri með Ernu forsætisráðherra.
"Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast"
Hjartans kveðjur til ykkar allra frá pílagrímakonunni í Hyttunni sinni sem heitir Björk.
Athugasemdir
Forsætisráðherran að elta þig upp til fjalla :) Gangi þér áfram vel mamma mín - gaman að fylgjast með þér, kveðja frá öllu hér í litla húsinu í Vogunum.
Davíð Harðarson (IP-tala skráð) 17.6.2017 kl. 21:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.