14. júní - fimmti dagur og sólin baðar okkur!

Vaknað í sól klukkan korter fyrir sjö eftir góðan svefn.  Tekið saman, borðaður morgunverður og við Ger héldum út í daginn klukkan 8:15 eftir að hafa kvatt Tune hina norsku.  Veðrið lék við okkur og í byrjun var það steyptur gangstígur og vegur sem beið okkar og nú var það bratt.  Já það var bratt aftur og aftur og ég hélt í vonina um að síðasta brekkan væri sú síðasta en svo var ekki, en "ein brekka í einu" það er mottóið þessa dagana.  Um hádegið fengum við okkur sæti á bekk við veginn, nærðumst og hvíldum okkur.  Það gerðum við líka tveimur klukkustundum áður en sætin sem við fengum okkur þá var steinveggur við hús eitt þar sem við gengum hjá.  Fiðrildi, fuglar, klingjandi kindur, hoppandi lömb og jórtrandi kýr urðu á vegi okkar og nutu sín í sólinni eins og við.  Við vorum heppin upp úr hádegi, þá komu góðu stígarnir - mjúkir fyrir þreytta fætur og það kunnum við að meta.  Um klukkan 14:30 komum við til Granavollen sem er fallegur staður og einstakur fyrir það að þar standa tvær kirkjur með nokkurra metra millibili.  Báðar kirkjurnar eru reistar á svipuðum tíma frá 1100-1150 - Nikolaikirkjan heldur íburðarmeiri heldur en Mariekirkjan.  Þarna vorum við í meira en klukkutíma og okkur Ger til mikillar gleði hittum við þar Thomas hinn svissnesska sem var á Gjestvold gard um leið og við.  Þarna urðu fagnaðarfundir.  Við Ger áttum eftir 4 km til staðarins þar sem við gistum.  Það er stórt hús frá 1650 og eigandinn er ungur maður trúlega milli fertugs og fimmtugs - ungur já.  Hann hefur verið að gera þetta mikla hús upp síðustu 24 árin og það er ekki hægt að lýsa þessu.  Það má segja að maður sé að ganga inn í hús frá 16-1700.  Þessi maður heitir Morten og hann eldaði handa okkur fínan lax og alls konar grænmeti um kvöldið. Við sátum síðan úti í sólinni og létum fara vel um okkur.  26 km í dag og samkvæmt mínum útreikningum höfum við gengið rúma 118 km til þessa.  Nú verður ljúft að leggjast á koddann í kvöld.

"Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast"

 Segi ykkur á morgun í hvernig rúmi ég svaf - aldeilis með ólíkindum.  Góða nótt elskurnar!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku mamma mín,

þó ég sé að rita hér færslurnar fyrir þig þá vil ég samt skrifa hér smávegis frá eigin brjósti líka.  Þú ert alveg einstök, ég eiginlega get ekki lýst því almennilega hversu stolt og hrærð ég er af því að þú sért mamma mín.  Hversu dýrmætt það er fyrir börnin mín að eiga svona ömmu sem lætur ekkert stoppa sig heldur eltir drauma sína út um allar jarðir.  Það er sko ekkert smá veganesti í framtíðina fyrir þau og fyrir mig.  Takk elsku mamma, haltu áfram að feta veginn af staðfestu þinni og lífsgleði.  Ég held áfram að rita, brosa, sjá fyrir mér og bíða eftir heimkomu þinni.  Knús og kossar elsku mamma - ég elska þig óumræðanlega mikið.

Dóttirin (IP-tala skráð) 15.6.2017 kl. 22:59

2 identicon

Kíkti loksins á síðuna þína og eins og áður er bloggið þitt svo áhugavert og bjart :)
Gangi þér sem allra best elsku Rúna.

Hlakka til að sjá myndir af öllum þessum fallegu stöðum sem þú lýsir :)

kv

Unnur

Unnur G (IP-tala skráð) 16.6.2017 kl. 08:45

3 identicon

Elsku Rúna mín. 

Gaman að fylgjast með. Hef verið nokkru sinnum á Granavolden. Góða ferð og Guð geymi þig elsku Rúna

Halla Jónsdóttir (IP-tala skráð) 16.6.2017 kl. 18:34

4 identicon

Góðan daginn elsku sys.Sorry en ég hló mig máttlausa á hvernig höfuðið þitt virðist líta út.Engir leiguliðat á fótunum og vonandi skánar ásóknin í höfuðið 😄😄Gaman að ykkur gengur vel og njóttu❤💛💙

Púlla (IP-tala skráð) 17.6.2017 kl. 10:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband