14. júní - fimmti dagur og sólin baðar okkur!

Vaknað í sól klukkan korter fyrir sjö eftir góðan svefn.  Tekið saman, borðaður morgunverður og við Ger héldum út í daginn klukkan 8:15 eftir að hafa kvatt Tune hina norsku.  Veðrið lék við okkur og í byrjun var það steyptur gangstígur og vegur sem beið okkar og nú var það bratt.  Já það var bratt aftur og aftur og ég hélt í vonina um að síðasta brekkan væri sú síðasta en svo var ekki, en "ein brekka í einu" það er mottóið þessa dagana.  Um hádegið fengum við okkur sæti á bekk við veginn, nærðumst og hvíldum okkur.  Það gerðum við líka tveimur klukkustundum áður en sætin sem við fengum okkur þá var steinveggur við hús eitt þar sem við gengum hjá.  Fiðrildi, fuglar, klingjandi kindur, hoppandi lömb og jórtrandi kýr urðu á vegi okkar og nutu sín í sólinni eins og við.  Við vorum heppin upp úr hádegi, þá komu góðu stígarnir - mjúkir fyrir þreytta fætur og það kunnum við að meta.  Um klukkan 14:30 komum við til Granavollen sem er fallegur staður og einstakur fyrir það að þar standa tvær kirkjur með nokkurra metra millibili.  Báðar kirkjurnar eru reistar á svipuðum tíma frá 1100-1150 - Nikolaikirkjan heldur íburðarmeiri heldur en Mariekirkjan.  Þarna vorum við í meira en klukkutíma og okkur Ger til mikillar gleði hittum við þar Thomas hinn svissnesska sem var á Gjestvold gard um leið og við.  Þarna urðu fagnaðarfundir.  Við Ger áttum eftir 4 km til staðarins þar sem við gistum.  Það er stórt hús frá 1650 og eigandinn er ungur maður trúlega milli fertugs og fimmtugs - ungur já.  Hann hefur verið að gera þetta mikla hús upp síðustu 24 árin og það er ekki hægt að lýsa þessu.  Það má segja að maður sé að ganga inn í hús frá 16-1700.  Þessi maður heitir Morten og hann eldaði handa okkur fínan lax og alls konar grænmeti um kvöldið. Við sátum síðan úti í sólinni og létum fara vel um okkur.  26 km í dag og samkvæmt mínum útreikningum höfum við gengið rúma 118 km til þessa.  Nú verður ljúft að leggjast á koddann í kvöld.

"Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast"

 Segi ykkur á morgun í hvernig rúmi ég svaf - aldeilis með ólíkindum.  Góða nótt elskurnar!


13. júní - fjórði dagur - búin að finna lausn á vatnsvandamálinu!!

Við yfirgáfum General hótel um hálf níu, sól og þessi kona kát.  Allt í góðu lagi og nú var fjórði dagurinn hafinn.  sólin skein, malbikið beið okkar en þegar líða tók á komu góðu stígarnir aftur og þó þeir væru blautir og á köflum forarsvað var ég fegin.  Á einu tré í skóginum hékk lítið fuglahús með pínulitlu opi.  Þar kíkti út agnarsmár ungi, gulur að lit og ég held að hann hafi gert þetta bara fyrir mig.  Hann var yndislega fallegur.  Við göngufélagarnir, ég og Ger, erum búin að finna það út að í öllum kirkjugörðum er hægt að ná í vatn.  Það hefur nefnilega ekki verið hlaupið að því að finna vatn á leiðinni enn sem komið er.  Á tveggja tíma fresti stoppum við, setjumst niður, skórnir losaðir af þreyttum og heitum fótum.  Þetta er gert á hverjum degi og jafnvel gengið berfætt um tún ef það er hægt.  Ég er ennþá íbúalaus (blöðrulaus), enginn hefur bankað upp á til að fá leigt hjá mér sem betur fer og ekki hefur flugnabitunum fjölgað en landslagið á höfðinu mínu er orðið dálítið skrítið.  Þar er allt í hólum og hæðum og einn og einn hóll sést líka á handleggjunum og eru þetta bitin eftir flugurnar.  Þær gáfu mér líka tvö stór kýli á sitthvort gagnaugað, þeim hefur greinilega litist vel á mig en ég kvarta ekki, þetta hefur bara sinn tíma.  Við komum til Jevnaker klukkan hálf þrjú eftir 6 tíma göngu svolítið upp og niður og stopp til að hvíla sig, 23 km að baki.  Ég hef sér herbergi með útsýni út á Randsfjörðinn.  Fengum okkur að borða á Tælenskum stað og ég var himinlifandi með matinn.  Fer alltaf snemma í rúmið - veitir ekki af hvíldinni.  

"Hver dagur þér færi gleði og gæfu

geislandi morgunsól

hver dagur þér færi farsæld og frið

fegurstu kvöldsól"

Góða nótt elskurnar, sakna ykkar og elska ykkur.

Pílagríminn á leið í rúmið. 


Alltaf fækkar í hópnum! Göngudagur þrjú

12. júní runninn upp.  Ég svaf eins og ljúft ungabarn og við fengum mjög góðan morgun mat hjá Christian og Haraldi klukkan hálf átta.  Sólin skein og nú voru það ég og Ger sem vorum orðin ein eftir.  Hanne fer allavega ekki lengra með okkur og við kvöddumst á þessum fallega stað og gangan okkar hófst klukkan 8:45.  Nú var ekki eins mikið upp og niður, leiðin lá meðfram Tyrifirði.  Fegurðin allt um kring, fallegir bóndabæir, grænmetisakrar og fólk við vinnu þar.  Stútungskonur sátu fáklæddar á litlum sláttuvélum og brunuðu fram og til baka um túnin við húsin sín.  Þetta eru ekki neinir smáblettir, þar sem smáblettir eru aka sjálfvirkar litlar sláttuvélar um lóðina.  Þá datt mér í hug tækin sem þeytast um gólfin hjá fólki og þrífa.  Við komum til Bosneskirkju en hún var lokuð.  Sagan segir að þar hafi pílagrímar komið við hér fyrrum.  Við Ger settumst niður við kirkjuna og hvíldum okkur og alltaf er jafn gott að fara úr skónum og viðra þreytta, sveitta fætur.  Áfram hélst sólin og útsýnið var ógleymanlegt, ekki hægt að lýsa því.  Fjörðurinn skartaði sínu fegursta fyrir okkur.  Við héldum aftur af stað og enn og aftur komum við að fallegri kirkju, Holekirkju, en hún var líka læst.  Við hana er fallegur kirkjugarður og nú var útigangskonan heppin því þarna gat ég fyllt á vatnsflöskuna mína.  Það er nefnilega dálítið erfitt að finna vatn á gönguleiðinni.  Ger hafði pantað gistingu fyrir okkur á General hótelinu.  Þetta hótel er aðeins úr leið en nú er ég bara í lúxus, fallegt hótel og herbergið mitt fínt.  Ég er algjör prinsessa í dag finnst mér.  Við komum hingað klukkan 13:45 og tæpir 20 km að baki.  Þá erum við komin undir 600 kílómetrana, búin að ganga tæpa 69 km af 650 - jibbí!!  Mér líður ágætlega en auðvitað tekur þetta á, sveittir fætur og flugubit en vonandi verð ég í lagi.  Mikið gott að vera komin í hús svona snemma, fara í sturtuna sína, þvo fötin sín og bara liggja í leti.  Við fengum okkur æðislega pizzu í kvöldmat og bjórinn rann ljúflega niður, fórum að sofa um níuleytið - að sjálfsögðu í sitthvoru herberginu!

Í lokin til ykkar heima sem ég sakna nú dálítið mikið - þetta er alltaf erfitt á kvöldin þegar ég fer að sofa: 

"Bros kostar minna en rafmagn en ber meiri birtu"

Pílagríminn að ganga sína þrautargöngu vægast sagt - en gaman.


Bloggfærslur 15. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband