7. júlí - 28. göngudagur

Ég svaf eins og þægt ungabarn í prinsessuherberginu til klukkan 6 í morgun.  Við áttum notalega samveru við morgunverðarborðið.  Allir slakir og kátir þessir pílagrímar.  

Það komu fjórir pílagrímar og gistu þar sem við vorum í Meslo gard svo það var nóg að gera hjá Ingrid bónda.  Hún býr þarna ein með 25 kýr og svo þessa gistingu, hörkubóndi, og er svo í samfloti með tveimur öðrum bændum í sambandi við mjaltir.  Þau skipta með sér einni viku í senn, mjólka þá á þremur bæjum og eiga svo frí í tvær vikur á milli.  Þetta finnst mér sniðugt.  Það er allt hreint og fallegt í kringum hana og frábært að gista þar.  

Jæja við gengum af stað í fínu veðri og sólin skein.  Eins og undanfarið var gengið frekar hratt.  Framundan mikið jafnslétt og ein og ein lítil brekka.  Nú voru sveitabæjir á leið okkar og græn og nýslegin tún.  Kýr, kindur og hestar voru myndaefni en ekki náðum við mynd af Elgnum sem við sáum - þeir eru fljótir að forða sér.  

Svo kom að fyrri uppákomu dagsins hjá þeim félögum sem ganga með mér.  Gps tækið hjá Ger sýndi leið til hægri inn í skóginn, engar merkingar.  Daníel tók af skarið niður brekku sem lá beint áfram.    Það var bara klifrað yfir girðingar og klöngrast milli trjáa og endað niður á vegi.  Þarna myndaðist smá spenna milli þeirra, hver hefur valdið hahaha.  

Við höfðum gengið meðfram ánni Orkla frá því um morguninn, þetta er ótrúlega breið og falleg á.  Í langan tíma heyrðist ekkert hljóð frá henni, hún liðaðist bara áfram inn dalinn.  Skrýtið að upplifa þetta.  Svo komu flúðir og þá lét hún heyra í sér.  Það var ljúft að ganga með ánni, lítil sem engin umferð og því lítið sem raskaði ró okkar.  

Við komum til Segard Hoel, bóndabæjar, klukkan 12:10 eftir 5 1/2 klukkustund og 24,6 kílómetra.  Hér eru litlar byggingar, lítil hytta sem við verðum í ásamt pari frá Þýskalandi.  Bærinn stendur uppi í hlíð og við sitjum úti á verönd og horfum niður í dalinn.  Yndislegt og fallegt.  

Ungur bóndasonur hér er tekinn við býlinu, 50 kúm, pabbinn rúmlega fimmtugur að leita að starfi annarsstaðar.  Móðirin er kennari og kennir hér í skóla í sveitinni. Allt þetta fólk hér býr saman í sátt og samlyndi á stórri og mikilli jörð.  Allir hafa hlutverk og hér koma margir pílagrímar.  

Þegar við áttum eftir 2 1/2 kílómetra hingað kom aftur uppákoma hjá þeim félögum.  Aftur var það staðsetningartækið sem ekki var að standa sig, sagði að við værum komin framhjá bænum.   Snúið við og rölt einhverja hundruði metra, ég síðust, stoppaði hjá konu sem var úti að sýsla og spurði hana hvar þetta gistiheimili væri.  Hún benti mér í áttina þar sem við höfðum gengið í byrjun, karlarnir komnir langt frá mér þráttandi um það hvar þetta væri.  

Ég kallaði og sagði þeim að koma - og þeir hlýddu mér bara!!!  Ég sagði þeim að það væri nú vaninn að það væri skilti við veginn þar sem gistiheimili væru sem við hefðum hingað til gist á og að við yrðum að ganga lengra.  Og auðvitað hafði íslenska pílagrímakonan rétt fyrir sér svo Daníel sagði Ger að hér eftir yrði hlustað á þá íslensku!!  

Nú er bara brosað og hlegið, öll spenna horfin, búin að panta kvöldmat og morgunmat hérna á staðnum og nú á að njóta.  Lækjarniður í tveggja metra fjarlægð þar sem ég sit og falleg kisulóra sniglast hér í kringum mig.  Það er smá andvari, sól og lífið er yndislegt.  

"Ljúft er að stíga lífsins spor,

ljúf er gleðin sanna,

þegar eilíft æskuvor,

er í hugum manna."

Pílagrímakonan sem á langan dag fyrir höndum á morgun og þá styttist ennþá meira - ég hlakka til.         


Bloggfærslur 7. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband