26. júní - sautjándi göngudagur!

Ég svaf bara ágætlega í nótt og við Ger vorum komin á fætur rúmlega 6 því nú þurftum við að deila eldhúsi með hinum göngugörpunum og því gott að vera fyrstur á fætur.  Sólarlaust og ekki hátt hitastigið er við héldum af stað í átt til Ringebu bæjarins sem var tæplega 4 km í burtu. Fórum í innkaup þar og lögðum í hann rúmlega átta.  

Flísið var notað í allan dag því það blés hressilega þegar leið á gönguna.  Þetta var ganga frekar af léttara taginu fannst okkur, þó oft væri farið á milli nokkurra hæða.  Mjúkir þurrir skógarstígar og við komum að stóru og djúpu gili með hörkufossi sem steyptist niður.  Þetta fannst hollendingnum áhugavert, myndaði í allar áttir og selfí fyrir konuna.  Þarna sátum við góða stund, nutum og nærðumst og hvíldum okkur.  

Við komum loks um tólfleytið til Hundorp þar sem pílagrímacenter er og þar var okkur vel tekið.  Rjúkandi gott kaffi, setið og spjallað og skórnir teknir af fótunum og hvílst í c.a. hálftíma.  Puerto rico parið kom þangað líka og sat ennþá þegar við fórum og við komum að Sör Fron kirkjunni stuttu síðar.  Hún er ótrúlegt mannvirki, stærsta kirkjan í Guðbrandsdalnum.  Þarna áttum við góða stund, orgeltónar ómuðu og kertaljós loguðu og yljuðu hjartakorninu mínu.  

Göngudagurinn farinn að styttast og allt í einu birtist dýrðin, mörg svört og brún hús af öllum stærðum og gerðum og í einni lítilli hyttu sef ég í kvöld.  Það er eins og að ganga langt aftur í tímann að koma hér, pínulítið eldhús, tvö rúm upp að veggnum, ég hugsaði bara til fólksins í Sjálfstæðu fólki nema hér er þetta lúxus.  

Það var ekki kveikt á rafmagnsofninum því hér er ekki bruðlað með rafmagn svo það var frekar kalt í húsinu þegar við komum.  Hinir pílagrímarnir eru komnir og þeir fá ekki svona lúxus eins og við.  Þeir fjórir sem einnig gista hér eru á svokölluðu Lofti sem er salur með mörgum rúmum en koma til okkar að elda.  Ég er svo heppin að þurfa ekki að fara út til að elda eða gera eitthvað annað, bara get haldið mig hér í litlu hyttunni.  

Í þessum hluta Guðbrandsdalsins sem við gengum í dag er mikið af sveitabæjum og húsum upp um allar hlíðar - miklu meira en þar sem við höfum verið að rölta áður.  Nú er ég búin að fá það staðfest að á morgun þegar við komum í gistingu verðum við hálfnuð.  Leiðinni virðist eitthvað hafa verið breytt og er því trúlega lengri en við eigum eftir að fá nokkra langa daga og vonandi gengur jafn vel og hingað til.  

Auðvitað er ég þreytt í fótunum og finn svolítið til þegar líður á daginn og þá geri ég eins og ein góð kona sagði hér í den tid !!bara taka verk og vindeyðandi - þá lagast allt!! hahaha.  

Í dag þurfti ég að nota salerni á einum stað og spurði eina norska konu hvað "salerni" væri á norsku og hún sagði: "toilet" eða "vesen" - mér fannst þetta með "vesenið" alveg frábært.  Jæja góður dagur í dag, sólin skín núna þegar hún er 16:30 hjá mér og 14:30 heima.  

Takk elsku þið öll sem sendir mér góðar óskir og kveðjur, líka takk til ykkar sem kíkið á bloggið mitt og eruð nafnlaus, gleðst líka yfir því að þið gefið ykkur tíma til að lesa bullið mitt.  Hjartans kveðjur heim til ykkar.  

"það styrkir sálina að erfiða og amstra, einnig að svitna og hrjóta í svefnskála pílagríma"

Rúna, glöð og kát þegar allt hefur gengið svona vel er ég þakklát. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jæja núna hálfnuð, en styttist þó úr því að miðlínu er náð. Ég sé að þú færð góð svefnstæði sem er mikilvægt þegar maður þarf aÐ hvílast vel. Það ber margt skemmtilegt fyrir ykkar augu, hann þarna Hollendingurinn þyrfti að koma til Ísl. hann mundi ekki komast langt fyrir myndatökum af fossum. Ef kalt er þá er bara að vera í flísinu á nóttunni líka. Ég lét plata mig til að taka konuferð upp á Akranes á morgun ég hélt að ég væri hætt öllu slíku en Anna Þr. er vön að taka svona ferðir en er svo lastin að hún treystir sér ekki vona að allt gangi vel hjá mér.

Auðvitað óska ég þér góðs gengis áfram og þú haldir áfram að fá gott svefnstæði.

Áfram mín kæra með baráttukveðju.

Þín vinkona Helga

Helga Jörgensen (IP-tala skráð) 28.6.2017 kl. 21:12

2 identicon

Mikið er gaman að lesa bloggið þitt min kæra. Ég bíð spennt eftir þvi næsta 😄 Myndirnar eru fallegar og útsýnið sem þú sýnir okkur með þeim er æðislegt. 

Góða ferð áfram 😘

Þóra (IP-tala skráð) 28.6.2017 kl. 21:33

3 identicon

"verk og vindeyðandi" hahahahaha minnir á Margarituna okkar, getur það verið???  Takk fyrir að leyfa okkur að njóta með þér mamma mín - elska þig og er svo stolt af þér!!

dóttirin (IP-tala skráð) 29.6.2017 kl. 12:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband