25. júní - dagur sextán í göngu

Við vöknuðum snemma þennan sunnudagsmorgun.  Þokuslæður í hlíðum fjalla, logn og sól komin en bara 5 gráðu hiti.  Lögðum í hann klukkan hálf átta og gengum bílveginn upp og niður en það var rétt í byrjun.  Yndislegt útsýni eins og áður. Stoppuðum eftir einn og hálfan tíma, smá hvíld og vatn að drekka, ef það gleymist er ég í vondum málum, og svo var súkkulaði í lokin af því að það er sunnudagur.  

Um hádegi var okkur farið að langa í kaffi.  Komum til bæjarins Favang, þar var bakarí og veitingastaður en allt lokað, sunnudagur, en við björguðum okkur.  Í hverjum bæ er nú oftast bensínstöð og þarna var ein.  Kaffi og súkkulaðimöffins með stórum súkkulaðibitum smakkaðist guðdómlega og þetta má því það er sunnudagur eins og ég sagði hér fyrr.  

Þurrt og fínt allt þar til þrír kílómetrar voru eftir, þá kom smá rigning.  Ger smellti upp regnhlífinni og ég í úlpuna en ekki varð mikið úr þessu, smá sýnishorn.  Þessi ganga var bara fín í dag en alltaf upp og niður en núna var oft flatt á milli og þá næ ég andanum áður en næsta hæð birtist.  

Komum til Ringebu kirkjunnar en turninn á henni sést langt að.  Þessi kirkja er eina stafkirkjan á þessari leið.  Ótrúlegt mannvirki, svo stór og mikil að utan en einhvern veginn ótrúlega lítil að innan.  Mjög falleg og gaman að koma þarna.  100 metrum fyrir neðan kirkjuna var gististaðurinn okkar Gildesvollen. Þar búa norskur maður og hollensk kona hans.  Þau eru með býflugnarækt og tréútskurð.  Mikið af fallegum hlutum en hér fljúga býflugur um allt og ég ekkert spennt fyrir þeim!!  

Þar sem Ger var búinn að panta gistingu fyrir okkur hér fengum við bestu herbergin og kannski líka af því að hann er samlandi konunnar.  Sturtan fín, bjórinn líka og hér í húsinu er par frá Puerto Rico sem er búið að sofa síðan við komum klukkan eitt og voru að vakna núna klukkan sex.  Væntanlegir eru tveir þjóðverjar.  

Hér er gott að vera og allt til alls, komin í hús klukkan eitt og 22 km að baki í dag.  Ég held að við séum u.þ.b hálfnuð með gönguna núna, 325 km komnir, en inni í þeim eru útúrdúrar sem við höfum tekið svo það er kannski ekki alveg að marka.  Sólin skín úti og við hvílumst vel af því að við komum svona snemma - það er svo gott.  

"snúðu andlitinu í átt til sólarinnar og þá sérðu ekki skuggana"

Það er gaman að vera pílagrími þegar vel gengur.

Kær kveðja


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að heyra hversu vel þér gengur Rúna mín, kannast við þetta upp og niður sem varð ansi oft á vegi okkar á Jersey í maí s.l.

Langþráður sólardagur var hér í gær sunnudag, en í dag er skýjað og hitatölur ná varla tveggja stafa tölu. Gangi þér áfram vel á veginum og njóttu hverrar stundar.

Kær kveðja,

Hildur

Hildur Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 26.6.2017 kl. 10:42

2 identicon

Þú ert alveg ótrúlega dugleg! Gangi þér vel áfram og njóttu fegurðarinnar á þessari leið!

Bestu kveðjur, Guðrún

gfinnbjarnar (IP-tala skráð) 27.6.2017 kl. 10:15

3 identicon

Elskuleg. Takk fyrir bloggið þitt og að leyfa okkur hinum að skyggnast ögn inn í heim pílagrímans. Gangi þér allt í haginn. Góðar kveðjur af Fróni

Birna G Konradsdottir (IP-tala skráð) 27.6.2017 kl. 15:47

4 identicon

Sæl frænka. Ég nýt þess að fylgjast með þér og dást að dugnaði þínum og jákvæðni. Góða ferð áfram!

Sigþrúður frænka (IP-tala skráð) 28.6.2017 kl. 14:34

5 identicon

Gott að heyra að vel gengur.  Njóttu daganna duglega kona.  Hlakka til að hitta þig í ágúst.

Agnes M. Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 28.6.2017 kl. 15:18

6 identicon

Sæl Rúna, gaman að lesa og sjá. Ef ég man rétt þá er sóknarpresturinn í Ringebu, séra Gunnar Jóhannesson, fyrrum sóknarprestur fyrir norðan, vinur minn og samnemi úr Guðfræðideildinni:-) Kærar kveðjur til þín og gangi þér allt í haginn.

Þorvaldur (IP-tala skráð) 28.6.2017 kl. 16:47

7 identicon

Gott að veðrið fer bel með ykkur elsku sys.Skil ekki hvaðan þessi kradtur sem þú hefur kemur.Kanski Hvítárbakkagenið😄😄Yndislegt að heyra röddina þína og heura hláturinn þinn.Gangi ykkur mikið mikið vel og risa knús frã mér.❤💜

Púlla (IP-tala skráð) 28.6.2017 kl. 18:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband