6. júli - 27. göngudagur

Vaknað klukkan sex og morgunmatur á borðum húsfreyjunnar í Langklopp.  Svo gott að láta dekra aðeins við sig.  Lögðum af stað klukkan sjö í sól og blíðu.  Dalurinn skartaði sínu fegursta og á leið okkar út úr bænum sáum við Elg á hlaupum, tignarlegt dýr en ekki vildi ég mæta einu slíku.  

Gönguleiðin fín í dag, jafnslétt og mikil lækkun, blautir stígar í skógi, malarvegir og í lokin sá steypti.  Við mættum gráhvítum kálfi á hlaupum sem hefur greinilega viljað meira frelsi.  Hann horfði á okkur, sperrti eyrun og hljóp svo í gagnstæða átt - mikið krúttlegur.  Tveir bílar komu að og það var greinilega verið að leita að strokudýrinu.  

Fallegir skýjabólstrar á bláum himni og gleði var í hjartanu mínu.  Annað slagið hjöluðu lækjarsprænur er urðu á vegi okkar, alltaf eitthvað róandi við það, fiðrildi flögruðu í kringum okkur og mauraþúfur í skógi og ein þeirra var ótrúlega stór.  Við gengum rösklega, stoppað í skýli fyrir fólk á göngu, aðeins teknir af sér bakpokar og nartað í nesti og drukkið.  

Karlarnir Ger og Daníel eru í góðum gír og það er gantast og hlegið.  En það sem mér finnst best er að við göngum mikið í þögn, ótrúlega gott að láta hugann reika um allt og ekkert.  Komum í Meslo gard gistinguna, lítil og sæt gisting á tveimur hæðum.  Tvö herbergi uppi, eitt fjögurra manna og eitt eins manns, sem ég prinsessan fékk auðvitað.  Stundum er nefnilega gott að koma snemma í náttstað því þá getur maður valið.  

Yndisleg kona tók á móti okkur hér með kaffi og kökum og konfektmola.  Þau reka hér kúabú og konan er alveg hörkunagli - ég sá það strax.  Núna er hún keyrandi hér á túninu með skítadreifarann í eftirdragi - alveg hreint á fullu, það gengur sko undan þessari.  Daníel sá litla mús á neðri hæðinni í húsinu og ég fríkaði út - get örugglega ekkert sofið í nótt!!

Sólin skín, sveitin angar og hér í Meslo gard er gott að vera.  Allt til alls og allt gert til að láta okkur líða sem best.  Í dag gengum við frá klukkan 7 til 11:20 og kílómetrarnir urðu 21.  Og nú er það komið á hreint að þann 11. júlí mun ég ganga inn í Niðarós og ljúka 32 daga göngu minni, það er ef allt gengur vel, sem ég vona og bið góða "ferðafélagann" að hjálpa mér við.  Hann er alltaf með mér og það er svo gott að hafa hann með í för.  Það er hraðferð á köllunum og ég elti bara, það gengur vel og mér líður vel, engar blöðrur og ekkert vesen.  

"Það er gott að geta glaðst yfir öllu smáu, leiftrandi daggarperlu á laufi og niði lækjarins"

Pílagríminn,

tíminn líður, bara fimm dagar eftir og hlakka mikið til.   


5. júlí - 26 göngudagur

Vöknuðum klukkan sex, fengum okkur góðan morgunmat, tókum okkar pjönkur saman og örkuðum inn í daginn.  Það var gott að gista í Vekve hyttetun.  Ég svaf vel og hvíldist vel.  

Leiðin okkar lá út úr bænum á steyptum vegi upp í sveitina, malarvegina og kyrrðina.  Blómin brostu til mín í fallegu litunum sínum, kindurnar horfðu og það var frekar svalt.  En það var gott að ganga, mikið af jafnsléttu og litlar brekkur sem ekki tóku úr mér allan mátt.  Einn bóndi ók hjá á traktornum sínum, mikið að gera hjá þeim á þessum tíma árs.  

Það var gott að finna lyktina af nýslegnum túnum og þegar við gengum í gegnum skóg þá voru allnokkur hliðin sem við þurftum að opna.  Það minnti mig á sveitina, stór breið hlið sem var lokað með því að smeygja járnlykkju og jafnvel gaddavírslykkju yfir hliðstaurinn.  Bara gaman að hugsa til ömmu og afa úr barnæsku minni.  

Það komu smá dropar úr lofti, ekkert sem angraði, sólin lét líka sjá sig og veðrið var því hið besta gönguveður.  Við komum í gististaðinn klukkan 12 eftir 5 klukkustunda göngu og 25 kílómetra.  Við erum á hestabúgarði og þar eru margir unglingar á reiðnámskeiði.  Hér eru hestar um allt í yndislegu umhverfi og gaman að fylgjast með þeim.  

Nú skín sólin þegar klukkan er hálf fjögur og við erum í afslöppun það sem eftir er af þessum degi.  Nú pöntuðum við okkur mat og í fyrramálið fáum við morgunmat áður en við leggjum af stað.  Eigendurnir hér sjá um þetta og það verður gott að ganga bara að borði og þurfa ekkert að gera nema njóta.  Ég hlakka mikið til og nú er tíminn að líða ansi hratt.  Örfáir dagar í Niðarós - ótrúlegt.  

Fyrir hálftíma komu þær hingað í gististaðinn Erna og Jórunn, þessar tvær norsku sem hafa verið svona í samfloti við okkur annað slagið, gaman að hitta þær aftur.  

"Bestu vinur minn er sá sem þekkir galla mína en er samt vinur minn"

Kær kveðja heim og takk fyrir innlitið

konan á Ólafsvegi 


Bloggfærslur 6. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband